„Þetta er ekki dagurinn til að fara í miklar breytingar“

Það eru til óteljandi ráð til að búa mann undir brúðkaup en Harpa Káradóttir, ritstjóri fegurðarkafla Glamour, hefur eytt fjölmörgum helgum í gegnum tíðina við að farða brúðir. Í brúðkaupsblaði Glamour fer hún yfir góð ráð um hvað skal gera og hvað skal forðast á stóra daginn.

„Að mínu mati er þetta eitt það skemmtilegasta við vinnu mína sem sminka og hef ég upplifað óteljandi ógleymanleg augnablik með konum hvaðanæva úr heiminum. Það er mismunandi hvernig konur vilja líta út á brúðkaupsdaginn en ég legg ávallt mikla áherslu á að förðunin endurspegli karakter hverrar og einnar og sé í takt við manneskjuna. Þetta er ekki dagurinn til þess að fara út í miklar breytingar og markmiðið er ekki að brúðurin verði óþekkjanleg heldur að hún líti sem best út og sé sátt við sjálfa sig.“

Glamour/Getty Images

Hér eru nokkur ráð frá Hörpu en hægt er að lesa greinina í heild sinni í brúðkaupsblaði Glamour hér fyrir neðan.

Já:
– 
Veldu snyrtivörur sem haldast vel á yfir daginn.

– Notaðu vatnsheldan maskara.

– Láttu farða þig eða farðaðu þig sjálf í takt við það hvernig þú ert vön að vera.

– Hugsaðu sérstaklega vel um húðina síðustu þrjá mánuðina fyrir brúðkaup, hreinsaðu hana kvölds og morgna og gefðu henni góðan raka.

– Vertu með uppáhaldsvaralitinn þinn á stóra daginn, þetta er ekki dagurinn til þess að taka áhættu, þú gætir séð eftir því.

Nei: 

– Varastu að nota vörur á brúðkaupsdaginn með mikilli sólarvörn, háu SPF-stigi, þær endurkasta ljósi og geta orðið nánast hvítar á myndum.

– Ef þú kýst að fara í brúnkusprey, vertu búin að fara áður og prófa, haltu þig við mildan lit.

– Ekki láta lita á þér augabrúnirnar í sömu viku og brúðkaupið er, finnist þér þú þurfa þess skaltu gera það 1-2 vikum áður.

– Ekki fara í neinar húðmeðferðir viku fyrir brúðkaup, þú veist aldrei hvernig húðin bregst við.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.