Skapar jafnvægi milli karaktersköpunar og stíls

Íslenska kvikmyndin Vargur í leikstjórn Barkar Sigþórssonar hefur fengið góðar viðtökur en yfir búningadeildinni í myndinni var Ellen Loftsdóttir, sem er betur þekkt fyrir sína vinnu í heimi tískunnar sem stílisti (meðal annars fyrir Glamour oftar en einu sinni) og í auglýsingum. Við tókum Ellen tali til að forvitnast um verkefnið og vinnuna bakvið tjöldin.

„Ég og leikstjórinn Börkur Sigþórsson erum búin að þekkjast lengi og bjuggum á sama en tíma í London, hann að vinna sem leikstjóri og að skrifa drög að þessu handriti. Ég í námi og að vinna sem stílisti en þá las ég fyrsta uppkastið að handritinu, fyrir rúmum 8 árum síðan, verkefnið hefur að sjálfsögðu breyst töluvert frá þessum tíma, en grunnurinn svipaður. Svo það mætti kannski segja að verkefni hefur verið í andlegum og verklegum undirbúning hjá mér alveg síðan þá.“

Í aðalhlutverkum eru leikaranir Gísli Örn Garðarsson, Baltasar Breki Samper, Marijana Jankovic og Anna Próchnia og fjallar hún um tvo bræður sem hafa farið mjög ólíkar leiðir í lífinu en eru báðir í vanda staddir fjárhagslega en af ólíkum ástæðum.

Hvernig voru aðstæður á tökustað, hvar fóru tökur fram og hversu lengi?

Aðstæður voru góðar en auðvitað allskonar eins og gerist og gengur. Mikið af næturtökum sem gerðu mann alveg smá klikkaðan af svefnleysi en sterkur karakter tökuliðsins gerðu þessar tökur mjög skemmtilega erfiðar ef svo má segja. Ég sjálf er ekki vön að takast á við svona langt verkefni -enda voru tökudagarnir yfir 30 og rúmur mánaðar undirbúningur fyrir tökurnar. Svo fyrir mig, komandi úr heimi tísku og auglýsinga, var þetta smá langhlaup. Því dýpra sem maður sökk sér inní verkefnið, því auðveldara varð þetta. Ég var einnig svo heppin að vera með magnaða manneskju mér við hlið í búningadeildinni, hana Siggu Mæju sem stóð með mér og þessu verkefni eins og herforingi enda á hún alls ekkert minna í þessu frábæra útliti sem við náðum fram á hvíta tjaldinu.

Munurinn á því að vera með búninga í kvikmynd og stílisera?

Þetta er allt annað ferli en ég er von. Mér finnst þetta mjög áhugavert og skemmtilegt ferli sem fyrir mér snýst þetta aðallega um að skapa jafnvægi á milli karaktersköpunar og stíls og að það sé samstillt við heildarútlit myndarinnar. Í þessu verkefni var ég mjög heppin að eiga náið samband við leikstjórann enda höfum við unnið mikið saman í gengum tíðina. Frá okkar fyrsta verkefni fyrir rúmum 8 árum síðan fundum við að skapandi hugsun okkar var mjög samstilt sem kom sér svo sannarlega vel í þessu verkefni og hafi ég mikinn skilning á hans hugarheimi fyrir þessa kvikmynd sem gerði þetta ferli auðvitað skemmtilegra.

Sérðu fyrir þér að fara meira út í svona verkefni? Ég er allavega búin að leggja inn atvinnuumsókn fyrir næstu kvikmynd Barkar. Svona miðað við útkomu og viðtökurnar á þessari mynd vona ég að fólk þurfi ekki að bíða of lengi eftir að það gerist.

Hvernig var tilfinningin að sjá afraksturinn á hvíta tjaldinu? Það er auðvitað alveg ómetanleg tilfinning að uppskera góða vinnu og vera sáttur við sitt framlag. Á sama tíma hugsa „ég hefði ekki vilja gera neitt öðruvísi” sem er líka mjög frelsandi tilfinning, og alls ekki sjálfsagt hjá mér.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.