Dorrit skemmti sér vel á Met Gala

Nú er vika síðan einn flottasti tískuviðburður ársins, Met Gala, fór fram í New York og nú hefur komið í ljós að við Íslendingar áttum okkar fulltrúa á staðnum en fyrrum forsetafrú Íslands Dorrit Moussaieff lét sig að sjálfsögðu ekki vanta.

Vogue hefur nú birt myndir sem teknar voru af ljósmyndaranum Daniel Arnold inn í partýinu sjálfu sem gefa skemmtilega innsýn inn í partýið. Þar sést Dorrit vera að taka myndir á símann sinn og skemmti sér greinilega konunglega. Við tókum sérstaklega eftir símahulstrinu sem hefur væntanlega vakið kátínu gesta en á því stendur einfaldlega “Get in loser”.

Met Gala er galakvöldverður og er opnun á sýningu í Metropolitan Museum of Art. Kvöldið er ætlað sem söfnun fyrir Costume Institute hluta safnsins. Anna Wintour, ritstjóri Vogue og listrænn stjórnandi Condé Nast, er líka formaður stjórnar Costume Institute og hefur síðustu 20 ár búið til þennan glæsilega viðburð, sem margir nefna Óskarinn á austurströndinni.

Gestalistinn er lokaður, Wintour handvelur þá sem mega koma, frægu tískuhúsin í bland við flottustu stjörnurnar. Í gegnum árin hafa safnast í kringum 12 milljónir bandaríkjadala yfir kvöldið en að kaupa sér borð á viðburðinum kostar um 30 milljónir íslenskra króna og stakur miði er á um 3 milljónir. Tískuhúsin kaupa sér oft borð en rúmlega 500 manns eru á viðburðinum , sem eiga það sameiginlegt að hafa komist í gegnum síu frú Wintour.

 

Hér er hægt að skoða rauða dregilinn frá Met Gala og hér má fræðast betur um þennan merkilega viðburð fáir komast á en allir vilja skoða.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.