„Mjög tilfinningarík og falleg stund“

Leikkonan María Telma Smáradóttir upplifði ævintýri lífs síns þegar fyrsta kvikmyndin sem hún leikur í var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Glamour náði tali af Maríu þar sem hún var nýlent frá Cannes og byrjuð að melta þessa lífsreynslu.

Kvikmyndin sem María leikur heitir Artic en auk hennar leikur danski stórleikarinn Mads Mikkelsen í myndinni sem er öll tekin upp á Íslandi. Myndin var frumsýnd í Cannes með mikilli viðhöfn þar sem rauða dreglinum var rúllað út.

En hvernig kom þetta til?

Þau voru að leita að leikkonu á Íslandi með asískum uppruna og leituðu til mín. Ég fékk handritið sent og hitti svo leikstjórana í kaffi, þar sem að við spjölluðum saman.  Myndin er öll tekin upp á Íslandi og gerist öll utandyra, í nístandi kulda og snjókomu. Þetta voru 19 tökudagar, en við misstum fjóra daga vegna veðurs. Myndin fjallar um flugmann, leikinn af Mads Mikkelsen, sem lendir í flugslysi og verður strandaglópur. Hann á von á því að honum verði bjargað en þegar það styttist í björgunina kemur slys í veg fyrir að af henni verði. Hann þarf þarf því að ákveða hvort hann eigi að halda til í búðunum sínum þar sem hann er öruggur um sinn, eða leggja í mikla hættuför í von um að honum verði bjargað. Hvað varðar karaktera, þá lögðum við ekki áherslu á að þetta væru karakterar með sögu heldur vildu við að þetta væri fólk í þeim aðstæðum að reyna að lifa af. Ég get eiginlega ekki sagt of mikið um mína persónu því það gæti eyðilegt myndina.

Hvernig var að vinna með Mads?

Það var frábært að vinna með honum. Hann er jarðbundin, mjög danskur og mætir manni á jafningjargrundvelli.

Og Cannes, hvernig upplifun var það? Það var virkilega gaman að fá tækifæri að frumsýna myndina á Cannes og ég er alveg óendanlega þakklát fyrir þetta tækifæri, þau eru svo sjaldgæf. Það er súrrealískt að hugsa til þess að nýútskrifuð íslensk leikkona frumsýnir sýnu fyrstu mynd á svona virtri og stórri hátíð. Ég var oft búin að ímynda mér það sjálf að þetta myndi gerast, að ég myndi ganga um göturnar í Cannes einn daginn, svo gerðist það, sem segir mér það að það er ekki allt jafn fjarstæðukennt og við höldum. Bærinn sjálfur er uppfullur af áhugaverðri menningu og virkilega rómantískur.

María þurfti að undirbúa sig töluvert fyrir rauða dregilinn og endaði með að fá aðstoð stílista frá London sem sá um að finna dress fyrir viðburðina, sem voru meðal annars blaðamannafundir, rauði dregillinn og svo mætti María á góðgerðatískusýninguna Fashion for Relief sem Naomi Campbell stóð fyrir.

Framleiðendurnir Noah C. Haeussner og Martha De Laurentiis, leikarinn Mads Mikkelsen ásamt Maríu í boði í Cannes.

„Ég átti í miklum erfiðleikum með að fá aðstoð frá fólki hérna heima fyrir þetta. Það var ekki fyrr en Zadrian Smith, stílisti, sá mynd af mér og vildi fá að aðstoða mig með undirbúning. Hann er þaulvanur stílisti og vinnur með til dæmis með Jessie J, Naomi Scott og Ella Pummell. Hann var algjörleg guðsgjöf. Ég þurfti að fara í sérstaka ferð til London til þess að fara í mátun og ákveða dress fyrir hvern einasta viðburð, sem var bara fjör. Svo kom hann með mér til Cannes og var með mér alltaf, öllum stundum. Rauði dregilinn sjálfur var fyrst og fremst mjög tilfinningarík og falleg stund fyrir aðstandendur myndarinnar. Rauða teppið á jörðinni skiptir minnstu máli heldur er það best að hitta aðstandendur myndarinnar eftir svona langa vinnu og langan tíma sem gerir þennan viðburð einstakan. Við vitum öll hvað ferlið var erfitt og við vorum öll svo stolt af hvort öðru. Það var bara allt töfrandi við þetta augnablik, fólkið, tónlistin, andrúmsloftið, mjög sérstök stund.“

Á rauða dreglinum í kjól George Hobeika.

Margir kannast kannski við Maríu frá sjónvarpsþáttunum Föngum þar sem hún fór með hlutverk en hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands vorið 2016. Núna er hún að leika í Þjóðleikhúsinu.

„Ég er uppalin í Kópavogi. Var í Snælandsskóla og fór þaðan í FG þar sem að ég lærði leiklist og hef ekki litið um öxl síðan. Leiklistin talaði strax til mín því fyrir mér er hún það listform sem kemst næst manneskjunni, ég gæti horft á, pælt og spekúlerað í fólki allan daginn.“

Í kjól frá Valentino en tískuhúsið styrkti hana einmitt á Cannes.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.