Edda Andrésar: Frá mér til mín

Við lifum og lærum. Árin fljúga, á ljóshraða að því er virðist, þannig að sjaldan gefst tími til að líta um öxl. Það er nákvæmlega það sem við báðum fjórar konur úr ólíkum áttum að gera – að skrifa sjálfum sér bréf – hvað myndir þú segja við 15 ára þig? Gefum Eddu Andrésar orðið:

Hæ, Edda!

Nú þegar ég byrja á þessu bréfi finnst mér ég næstum tvö hundruð ára því það hefur svo margt breyst á þessari hálfu öld sem er á milli okkar. Ég var meira að segja í vafa um hvernig væri best að byrja. Hæ, skvís, halló, litla mín eða komdu nú sæl og blessuð eins og þið stelpurnar gerið sitt á hvað í bréfum sem ég á enn frá 1965, 66, 67 … En af því ég fór nú að skoða þau get ég ekki annað en svindlað á tímanum og sent þér brot úr bréfi frá Önnu vinkonu þinni sem hún á enn eftir að skrifa. Þú færð það ekki fyrr en í Eyjadvölinni í sumar: „Mér finnst lagið All You Need Is Love ægilega skemmtilegt …“

Jæja, sumt hefur þá ekki breyst! Bítlarnir eru málið og það eru Rolling Stones líka. Trúirðu því að þú átt eftir að sjá þá í Kaupmannahöfn 65 ára? Þú ert nú eiginlega nýkomin þaðan! Þarf ég nokkuð að minna þig á að þú fékkst það í fermingargjöf að heimsækja Ástu og svo siglduð þið heim með Gullfossi? Það var ekki lítið. Þú með fléttuna áður en þú lést klippa þig. Ég á hana líka enn eins og bréfin og þegar ég rekst á hana í tiltektum finnst mér ég halda á sjálfum tímanum í hendi mér.

En hugsa sér að ég skuli skrifa þér yfirleitt – á tölvu sem þú veist ekki einu sinni hvað er og átt ekki eftir að komast í tæri við fyrr en eftir mörg ár. Þú notar rafmagnsritvél þegar þú verður fréttamaður á Sjónvarpinu. Já, ég veit að þú trúir því ekki að þú eigir eftir að verða fréttamaður á þessari virðulegu stofnun sem hóf útsendingar fyrir fáum mánuðum og svo finnst þér ekkert leiðinlegra en fréttir! Þú ert á þeim aldri, þær eru of veraldlegar fyrir þig. En þú átt eftir að reyna að veruleikinn á það til að vera ótrúlegri og jafnvel ljóðrænni en skáldskapur. Ertu kannski að lesa núna? Í köflótta pilsinu í nýja Sindrastólnum inni í stofu?

     Veistu, það er ekki svo langt í að þú finnir þína hillu í lífinu. Það gerist þegar þú verður blaðamaður á Vísi, 19 ára. Þú verður svo lánsöm að finna þig snemma í starfi. Þú átt líka eftir að skrifa bækur. En nú ertu bara 15 á leiðinni inn í sögulega tíma. Árið 1968 með ólgu sinni, ögrun og byltingu. Tíma unga fólksins. Bráðum verðurðu með leðuról um enni, í mynstraðri mussu, flauelsbuxum og rúskinnsstígvélum með kögri – í Verzló.

Æ, af hverju öll þessi vélritun, áttu þá eftir að andvarpa. En trúðu mér, þú átt eftir að þakka fyrir þá kennslu á hverjum degi. Hún á eftir að verða undirstaðan í starfi þínu. Allur þessi hraði! Hvað hann á eftir að koma sér vel á ögurstundum!

Svo áfram gakk, Edda. Eins og mamma hefur sagt. Líkt og maður væri fótgönguliði. Gerðu bara eins vel og þú getur. Líka í handavinnu. Þú átt eftir að verða sátt við sumt og ósátt við annað en þannig er lífið. Góðir dagar og verri, sól og skuggar og stundum fýkur í flest skjól. Mig langar auðvitað að vara þig við ýmsu sem á eftir að verða á vegi þínum en þú þarft að bjarga þér sjálf, annars lærirðu lítið. Láttu mig vita það. Svo lengi lærir sem lifir 🙂 Nú skilurðu auðvitað ekki hvað tvípunktur og svigi eru að gera þarna en þetta táknar bros í mínum tíma og einmitt þannig vil ég kveðja þig og gleðja að auki með því að segja þér að í framtíðinni þinni keppa stelpur í fótbolta 🙂

 

Áfram, stelpur!

– Edda

 

  1. En Edda! Eruð þið Ásta virkilega enn að gera bjölluat?
Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.