Mig langaði svo að skrifa pepp-pistil.

Af því að það er ennþá vetur þótt það sé búið að vera vetur svo lengi.

Af því að við munum þurfa að eyða svo mörgum vikum í viðbót í að rífast um samgöngumál.

Af því að upp úr fjögur alla þessa viku hefur mér liðið eins og ég sé í grunnbúðum Everest, að farast úr hæðarveiki, ekki búin að gera neitt sem gortfært er og toppurinn mjög langt utan seilingar.
Ekki misskilja mig, þrátt fyrir samlíkinguna dáist ég alls ekki að fólki sem klífur lífshættulega tinda í frítíma sínum. Mér fyndist einhvern veginn aðdáunarverðara að láta það bara vera og taka ábyrgan Gróttuhring í staðinn. En kannski eru þessir garpar bara týndari en við hin og þurfa að leita lengra.

Góður sófi er gulli betri

Allavegana. Þá leitaði ég á náðir internetsins í leit að innblæstri og kynnti mér „life coaches“, ekki lífsins sófa heldur gúrúa. Fólk sem, samkvæmt lítt ítarlegum rannsóknum mínum, hjálpar lífsvilltu fólki að finna og skilgreina persónuleg markmið sín. Fólk sem aðstoðar annað fólk við að finna sjálft sig. Fólk sem finnur annað fólk. Ekki á Everest, heldur í huga þess eða hjarta.

Í fullri alvöru þá held ég að sófinn sem ég keypti í síðustu viku hafi bætt lífsgæði mín töluvert meira en lestur minn um einkaþjálfun hugans.

Þrátt fyrir gæðalegan sófann átti ég áfram erfitt með að finna pepp-pistilinn innra með mér. En þannig er að ég er mikið fyrir lista. Alls kyns listar fylla skissubækurnar mínar, notuð umslög og minnismiða, síma og tölvur, listar yfir allt og ekkert. Suma þeirra þori ég ekki að skrifa niður en geymi bak við eyrað. Þeir listar eru kannski einhvers konar lífslistar, markmið mín í lífinu og betrunarlistar með öllu sem ég ætla mér að gera meira eða minna af, hætta og byrja. Kannski eitthvað sem ég myndi deila með lífsgúrúnum mínum?

Svo mér datt í hug að skrifa lista yfir lista fyrir skammdegið.

Listi yfir lista sem gott er að gera núna

Listi 1 – Versta útgáfan af sjálfri þér
Dæmi:

  1. Hugsa sjaldnar um að fara út að hlaupa og aldrei gera það.
  2. Gefa fleirum puttann í umferðinni.
  3. Hætta að svara leiðinlegum tölvupóstum.
  4. Borða meira kjöt, kaupa fleiri föt og fljúga eins oft og kostur er.

 

Listi 2 – Þakklætislisti
Dæmi:

  1. Ég þakka fyrir að hafa fengið að kúka í friði í dag, með læstar dyr og enginn að bíða.
  2. Ég þakka fyrir hvað það er fyndið þegar eins og hálfs árs dóttir mín reynir að hoppa. Það er svo fyndið þegar einhver heldur að hann/hún sé að gera eitthvað stórfenglegt en tekst það alls ekki.

Listi 3 – Ofurhetjukraftar drauma minna
Dæmi:

  1. Að geta dælt heitu kaffi úr handakrikanum hvenær og hvar sem er.
  2. Að vera hálf mennsk, hálf farfugl og lifa í eilífu sumri og að allir væru alltaf svo glaðir að sjá mig (lofa að segja engum að „vakna og vinna“).Listi 4 – Tilsvör við #metoo-gríni („Ég myndi heilsa þér betur en það má víst ekkert lengur, hehe…“)
    Dæmi:

1. Mikið er ég heppin!

2. Gætirðu útskýrt þetta nánar?

Ef þér finnst svona erfitt að vita hvar mörkin liggja þá er ég með fullkomið ráð fyrir þig. Það eina sem þú þarft að gera er að segja ekki eða gera neitt sem þú myndir ekki vilja að (stærri og sterkari) karlmaður segði eða gerði við þig ef þið væruð saman í fangaklefa.

Þessi pistill birtist fyrst í mars/apríl blaði Glamour í prenti.
Hallgerður Hallgrímsdóttir

Hallgerður Hallgrímsdóttir er fastur pistlahöfundur í Glamour. Hún er verkefnastjóri og mynd­listarmaður og hefur sýnt ljósmyndir sínar víða um heim. Hún býr í Gautaborg en kemur reglulega til landsins þar sem hún flýr út á land, oftast með fleiri en eina myndavél um hálsinn.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.