Solla Eiríks: Frá mér til mín

Við lifum og lærum. Árin fljúga, á ljóshraða að því er virðist, þannig að sjaldan gefst tími til að líta um öxl. Það er nákvæmlega það sem við báðum fjórar konur úr ólíkum áttum að gera – að skrifa sjálfum sér bréf – hvað myndir þú segja við 15 ára þig? Gefum Sollu Eiríks orðið:

Elsku Sól.

Þú ert 15 ára með allt lífið fram undan á meðan ég er búin að njóta þess í 57 ár. Mig langar til að deila með þér nokkrum atriðum í því sambandi sem ég ímynda mér að gætu gagnast þér að hugleiða þegar ég lít yfir farinn veg. Ég veit að það þýðir ekki að prédika yfir þér, hahaha, því það fer inn um eitt og út um hitt, þekki það.

Þú ert í landsprófi, og dagarnir eru misgóðir. Í dag yrðirðu líklega greind með athyglisbrest og ofvirkni og fengir viðeigandi aðstoð. Þú getur nefnilega alveg lært, ert meira að segja eldklár þó að þú hafir fallið á landsprófinu og því mætti ætla annað.

Viljinn þinn er mjög sterkur og ef þú vilt þá geta allir draumarnir þínir ræst, allir. Þú ert hugmyndarík, lífsglöð og jákvæð, en óttinn er aldrei langt undan. Þér finnst þú ekki passa inn, finnst þú horuð og ófríð. Allt ofnæmið þitt hjálpar þér ekki að falla inn í fjöldann, hahaha. En veistu á þessum árum er mjög algengt að upplifa sig sem gallaða eintakið. Ég hlæ að því núna því „ofnæmisferðalagið“ á eftir að verða lifibrauðið þitt. Einn góðan veðurdag vaknar þú upp við að það að vera öðruvísi og þora það, er partur af þínum einstaka styrk og á eftir að hjálpa þér að feta braut frumkvöðulsins. Flýttu þér hægt, þér liggur ekkert á. Að trúlofa sig og flytja til útlanda 17 ára er ekki fyrir hvern sem er og ég fann að það setti á mig ábyrgð og krafðist þroska sem ég strögglaði með. Njóttu þess því að vera ung og með þá ábyrgð sem eðlilegt er að hafa, þér liggur ekkert á. 19 ára finnurðu verkfærin þín, jógað og hugleiðsluna, sem hjálpa þér að halda fókus, róa þig og styrkja. Þú munt þykja skrýtin þar sem þú borðar græna litinn í öll mál og stendur á haus þess á milli, en láttu það ekki hafa áhrif á þig. Mataræðið og hugleiðslan voru mín „lyf“ á sínum tíma og hjálpuðu mér að passa inn í sjálfa mig.

23 ára ertu orðin einstæð móðir með yndislega dóttur og þú ert frábær móðir, ung en mjög umhyggjusöm. Mig langaði alltaf til Japan að læra að mála á silki en stjórnaðist af skynsemi og hætti við. Ef þig langar líka til Japan eða bara eitthvert annað, ekki láta skynsemina stjórna þér. Farðu. Eltu draumana þína. Þú hefur nefnilega einn svo ótrúlega fallegan hæfileika: Sjálfsbjargarviðleitni. Þú bjargar þér alltaf, alltaf.

Lífið er í mörgum litbrigðum. Dökku litirnir geta verið ansi erfiðir, en að kynnast þeim og þekkja þá án þess að þeir eigi þig er hluti af þroskanum þínum. Vertu á varðbergi gagnvart óttanum, hann er alltaf handan við hornið. Lærðu að lifa með honum og passaðu að hann stjórni þér ekki. Leitaðu þér hjálpar ef hann ber þig ofurliði og varaðu þig á skömminni. Skilaðu henni til síns heima. Vertu óhrædd við að láta röddina þína heyrast, án þess að gaspra að óþörfu. Hlustaðu á innsæið þitt, gullið mitt, því það er svo sterkt og byrjaðu snemma að æfa þig að standa með sjálfri þér.

Þú ert kannski ekki sú lagvissasta en þú elskar að syngja og SYNGDU. Þú munt ekki verða dansari en dansaðu við lífið í þínum eigin takti því hann er svo skemmtilegur. Leyfðu þér að vera hamingjusöm, glöð og frjáls og sáðu þeim fræjum í börnin þín, barnabörnin og samferðafólkið þitt. Ég er að æfa mig í þessu og hlakka til að horfa til baka á elliheimilinu og finna sáttina og þá tilfinningu að ég gerði mitt besta og það var sko alveg fullkomið.

Knús,

xxx

s

Lestu fleiri bréf hér og hér.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.