Styrkur kvenna ótrúlegur í gegnum tíðina

Mæðrastyrksnefnd hefur stutt við bakið á íslenskum fjölskyldum í 90 ár, eða síðan 1928. Í tilefni þess eru tvær tegundir af bolum að fara í sölu, ásamt taupokum og bollum. Annar bolurinn er prýddur fallegri teikningu eftir Hörpu Einarsdóttur, en hún sýnir konu sem ver sig og ungann sinn fyrir utanaðkomandi ógn. Hinn bolurinn er með manifestói sem er samið af starfsmönnum auglýsingastofunnar Pipar í samráði við Mæðrastyrksnefnd.

Bolurinn passar við margt, en Glamour hefur lagt mikla áherslu á að allir eigi hvítan stuttermabol til í fataskápnum. En ef þú ert ekki fyrir stuttermaboli, þá finna flestir not fyrir taupoka fyrir matarinnkaupinn, eða bolla fyrir kaffið. Vörurnar sérðu hér fyrir neðan.

Mynd/Mæðrastyrkur

Myndin táknar styrkinn og staðfestuna sem þarf að sýna til að halda velli í lífsins ólgusjó auk þess sem hún sýnir að öll getum við þurft á verndandi öflum að halda til að bæta líf okkar.

Styrkur kvenna hefur verið ótrúlega mikill í gegnum tíðina. „Það þarf styrk til að ala upp börnin sín, það þarf styrk til að leita sér aðstoðar ef eitthvað bjátar á. Konur eru sterkar,“ segir Anna Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar í samtali við Glamour.

Mæðrastyrksnefnd aðstoðar um 300 fjölskyldur á viku og mun fleiri í kringum jól og stórhátíðir. Við hvetjum alla til að leggja þessu mikilvæga málefni lið. Bolirnir og taupokarnir kosta 5.000 kr., en kaffibollinn 2.500 kr. Hér er hægt að fá nánari upplýsingar.

Taupokana verður hægt að fá í verslunum Hagkaups og Melabúðarinnar, ásamt fleiri stöðum. Bollana er hægt að fá í verslunum Te & Kaffi á Höfuðborgarsvæðinu. Starfsmenn frá nefndinni verða svo í Smáralind eftir hádegi þann 14. og 15. júní næstkomandi, þar sem hægt verður að festa kaup á bolunum. Einnig er hægt að nálgast þessar vörur á Mæðrastyrkur.is

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.