Lét málverkin tala sínu máli

Listamaðurinn Georgia O’Keeffe starfaði á þeim tíma þegar karlkyns málarar þóttu bæði hæfileikaríkari og fengu mun betur borgað fyrir verk sín en konur. Fatastíll hennar var mjög stílhreinn og klæddi hún sig ávallt eins og karlmaður, í jakkaföt, var með hatta og í mokkasíum.

Georgia var fædd árið 1887 og hóf feril sinn í Listaháskólanum í Chicago. Hana skorti þó sjálfsöryggi og hún fór að kenna myndlist í stað þess að elta drauma sína um að verða sjálf málari. Hún hætti þó ekki alveg að mála og eftir nokkur ár var það ljósmyndarinn Alfred Stieglitz sem sýndi verkum hennar áhuga. Alfred naut mikillar virðingar í listaheiminum í New York og brátt var Georgia komin í innsta hring listamanna. Árið 1924 fór Alfred frá konu sinni og þau Georgia giftu sig stuttu síðar.

Georgia var frægust fyrir málverk sín af blómum, sem eiginmaður hennar og aðrir túlkuðu frekar sem vísanir í kynfæri kvenna. Georgia neitaði því hins vegar allt sitt líf, og sagði verkin vera sína túlkun og sýn á blóm, og alls ekki erótísk. „Ég gaf þér tíma til að sjá það sem ég sá og þegar þú loksins tókst eftir mínu blómi, þá settirðu allar þínar skoðanir á blómum á mitt blóm, eins og ég sæi það sem þú sérð – en það geri ég ekki,“ svaraði Georgia eiginmanni sínum. Georgia útskýrði þó aldrei hvað verk hennar táknuðu og lét málverkin tala sínu máli.

Glamour/Getty.

Árið 1929 flutti Georgia til Nýju-Mexíkó, þar sem hún sótti í einveru og fékk að vera í friði frá listagagnrýnendum og mögulega því fólki sem henni fannst kúgandi þegar kom að listinni. Hún varð fljótt ástfangin af landslaginu og því sem náttúran þar í landi hafði upp á að bjóða og eyddi mörgum klukkustundum á dag sitjandi úti í náttúrunni við teikningu. Georgia flakkaði þó enn mikið á milli til New York og vissi því nákvæmlega hvað var að gerast í listaheiminum. Árið 1946 dó Alfred, eiginmaður hennar, og flutti hún þá alfarið til Nýju-Mexíkó. Georgia dó árið 1986, á heimili sínu í Santa Fe.

Georgia O’Keefe í Vogue árið 1967.

Georgia var mikill brautryðjandi sem kona í listaheiminum. Árið 2014 seldi listasafn Georgia O’Keeffe verk eftir hana, verkið Jimson Weed, á 44 milljónir dollara, sem er hæsta upphæð sem verk eftir kvenlistamann hefur selst á. Georgia O’Keeffe safnið var einnig fyrsta listasafn í Bandaríkjunum sem var tileinkað konu. Í dag er Georgia einn frægasti listmálari í heimi, og er einnig talin vera móðir femínískrar listahreyfingar. Hún vann í bransa þar sem karlmenn réðu lögum og lofum, gagnrýnendur, gallerí-eigendur og sýningarstjórar sem voru gagnrýnir á verk kvenna. Þrátt fyrir þessar hindranir varð hún farsæll listmálari og þróaði með sér einkennandi og persónulegan stíl.

Verkið Jimson Weed eftir Georgia O’Keefe.

Greinin birtist fyrst í maí/júní 2018 blaði Glamour.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.