Breytum okkur, eða ekki…

… Eða gerum bara það sem við viljum.

Lýta- og fegrunarlækningar eru staðreynd. Þær eru til og margir nýta sér þjónustu lýtalækna til að láta lagfæra hitt og þetta. Glamour skoðaði aðeins heim lýtalækninga, söguna, hvað er algengast og afhverju þetta er svona mikið tabú? Enginn þarf að láta breyta sér en þegar öllu er á botnin hvolft er um að ræða ákvörðun hvers og eins fyrir sig.

Þegar flestir hugsa um lýta- og fergrunaraðgerðir sjá þeir fyrir sér persónur eins og Pamelu Anderson, Michael Jackson, Dolly Parton, Kylie Jenner eða aðra þekkta einstaklinga sem hafa opinberlega talað um aðgerðir í átt að breyttu útliti.

Fegrunar- og lýtaaðgerðir eru töluvert algengari en við gerum okkur grein fyrir og þá má vera að við séum ekki meðvituð um það sökum þess að þó að árið sé 2017 fylgja þeim enn ákveðnir fordámar eða jafnvel skömm hjá þeim sem hafa farið í eina slíka.

Þegar fólk tekur þá ákvörðun að fara í fegrunaraðgerð þá hefur það aðeins áhrif á líf þess sjálfs, ekki annarra. Sumir kjósa að fara í aðgerð á meðan aðrir gera það ekki. Það á ekki að þurfa að afsaka ákvarðanir þegar kemur að  eigin líkama og útliti.

Fegrunaraðgerðir
Fegrunaraðgerðir hafa tíðkast frá því fyrir Krist þar sem Egyptar gerðu upp lík til þess að fegra þau fyrir greftrun. Grikkir á tímum Rómarveldis létu laga ör eftir bardaga þar sem það þótti ólukka að bera þau. Í dag eru fegrunaraðgerðir heldur algengar. Konur eru 91% af þeim sem nýta sér slíkar aðgerðir en karlar aðeins um 9% þó að hlutfall karla fari hækkandi.

Fyrst og fremst eru lýtalæknar að vinna að því að hjálpa fólki sem hefur lent í slysi, eru með fæðingagalla eða einhverskonar sjúkdóm eða kvilla af einhverju tagi. Það eru margar ástæður þess að fólk sækir þjónustu lýtalækna og kýs að fara í fegrunaraðgerð. Sumir vilja snúa við áhrifum öldrunar á meðan aðrir vilja breyta einhverju í útliti sem þeir eru ekki ánægðir með. Þessi ákvörðun og ástæðurnar að baki henni eru oftar en ekki mjög persónulegar og margir kjósa fara leynt með þær.

Stór hluti af þeim sem fara í fegrunaraðgerðir vill öðlast aðlaðandi útlit. Áhrif þess að vera aðlaðandi hafa oft verið skoðuð. Hvort sem þú ert barn eða fullorðinn þá eru margir kostir sem fylgja því að vera það sem samfélagið skilgreinir sem myndarlegur eða myndarleg. Fólk sem er aðlaðandi er líklegra til þess að fá sitt fram og fá síður höfnun og verða síður fyrir áras eða refsingu samkvæmt fjölda rannsókna.*

Mikil aukning hefur verið á fegrunaraðgerðum síðustu ár og áratugi. The American Society for Aesthetic Plastic Surgery mældi 446% aukningu frá árinu 1997 til ársins 2007 og hefur ekkert hægt á henni. Aukningin stafar líklega af bættu aðgengi og þróun fegrunaraðgerða. Einnig hafa fjölmiðlar og sérstaklega samfélagsmiðlar haft mikil áhrif … stundum er filterinn ekki nóg. Flestar fegrunaraðgerðir eru afgreiddar á tiltölulega stuttum tíma og er einstaklingurinn oft mjög fljótur að ná sér, í sumum tilfellum samdægurs.

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni vill meina að umræðan í kringum fegurnaraðgerðir sé að verða opnari og fordómar gagnvart aðgerðunum fari minnkandi í nútímasamfélögi.

Sumir líta á fegrunaraðgerðir sem ákveðinn hégóma. Sama má þá segja um förðun og snyrtivörugeirann, sem er einn sá stærsti í heiminum. Við mannfólkið erum hjörð og við fylgjum stefnum og straumum. Brjóstastækkun hefur lengi trónað á toppnum sem vinsælasta fegrunaraðgerðin, svo er það fitusog og þar á eftir nefaðgerð.

Bótox
Smærri fegrunaraðgerðir eins og bótox-ísetning og fegrun með annars lags fyllingarefnum hafa verið að sækja í sig veðrið. Bótox og fylliefni er tvennt ólíkt en oft notað saman. Bótox er frekar notað í efrihluta andlits en fylliefni á neðrihlutann. Bótoxið er í raun taugaeitur sem lamar vöðva og sléttir úr þeim. Algengast er að fólk láti sprauta í enni og á milli augna. Þessar aðgerðir eru vinsælastar hjá konum fimmtugs- og sextugsaldri. Notkun á bótoxi og öðrum fyllingarefnum eru ekki varanlegar aðgerðir heldur haldast áhrifin af þeim í nokkra mánuði, allt upp í hálft ár. Bótox er svokallað taugaeitur en þegar því er sprautað kemur það í veg fyrir að taugar gefi vöðvum merki um að dragast saman og kemur það því í veg fyrir að hrukkur myndist á þeim stað þar sem efninu er sprautað.

Fyllingarefnið Restylane hefur einnig verið að sækja í sig veðrið en það er efni sem kallast á íslensku fjölsykrusýra og inniheldur  náttúrulegt efni sem að kallast hýalúrónsýra. Þessi hýalúronsýra bindur vatn í húðinni, lyftir og gefur henni nýjan þéttleika. Efnið er upprunalega frá Svíþjóð og er hreint kristalgel sem mýkir fellingar og hrukkur. Sýran er ekki unnin úr dýrarýkinu sem gerir það að verkum að ekki eru líkur á smitsjúkdómum né ofnæmisviðbrögðum hjá þeim sem eru viðkvæmir fyrir algegnum matvælum. Sýran brotnar niður á náttúrulegan hátt. Þegar ísprautun er lokið bindur gelið vatn sem er til staðar í marga mánuði en varanleikinn er einstaklingsbundinn og ræðst af mörgum þáttum eins og aldri, húðtegund, lífsstíl og þar fram eftir götununum. Engar undribúningsrannsóknir þarf áður en meðferð er hafin. Meðferðin tekur um 30 mínútur og árangur sést strax. Restylane er einnig nothæft fyrir húðkvilla eins og ör eftir bólur.

Jenna segir mikilvægt að fólk leiti til fagaðila þegar sóst er eftir slíkum aðgerðum. Fagaðilar fara á námskeið hjá þeim fyrirtækjum sem framleiða vörurnar. Fagaðilar eru meðvitaðir um alla þá líffræðilegu þætti sem skipta máli og kunna að bregðast rétt við ef eitthvað kemur uppá. Jenna hefur starfað við þessar sprautanir hjá öðrum Norðurlandaþjóðum og segir að þær séu töluvert framar í þessum málum en við hér á Íslandi. Hún talar einnig um að það sé orðið meira norm á hinum Norðurlöndunum að fara í slíka minniháttar aðgerð og þar sé fólk meðvitaðra um hversu lítil áhætta fylgi þessum aðgerðum.

Öllum er frjálst að gera það sem að þeir vilja, ótalmargar meðferðir  eru í boði hjá lýta og húðlæknum sem vert er að kynna sér sé áhugi fyrir slíku eða um hálfgert vandamál að ræða. Tæknin er svo langt komin miðað við samfélagsumræðuna. Mestu máli skiptir þó að sjálfsögðu að líða vel í eigin skinni og kunna sér mörk. Það fer enginn í gegn um meðferð án þess að fá viðtalstíma áður og þar fara læknar yfir þá möguleika sem að eru í boði og viðkomandi tekur ákvörðun með lækninum út frá aðstæðum og aldri. Hvort sem að þú kynnir þér þá möguleika sem að eru í boði eða kjósir að sleppa slíkum meðferðum alfarið þá er þetta val hvers og eins og við skulum virða það.

Mestu máli skiptir þó að sjálfsögðu að líða vel í eigin skinni og kunna sér mörk.

*Von Soest, T., Kvalem, I. L., Roald, H. E., & Skolleborg, K. C. (2009). The effects of cosmetic surgery on body image, self-esteem, and psychological problems. Journal of plastic, reconstructive & Aesthetic Surgery, 62(10), 1238-1244.

Þessi grein birtist fyrst í júlí/ágúst 2017 blaði Glamour.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.