Þorgerður Katrín: Frá mér til mín

Við lifum og lærum. Árin fljúga, á ljóshraða að því er virðist, þannig að sjaldan gefst tími til að líta um öxl. Það er nákvæmlega það sem við báðum fjórar konur úr ólíkum áttum að gera – að skrifa sjálfum sér bréf – hvað myndir þú segja við 15 ára þig? Gefum Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur orðið:

Sæl, kæra Þorgerður.

Það var gaman að þú skyldir hnippa í mig í vangaveltum þínum um lífið, tilveruna og fólkið í kringum þig en ég veit að þú ert í góðum höndum. Hlýjum, kærleiksríkum höndum. Þótt mamma og pabbi geti verið ströng þá er ágætt að hlusta á þau. Svona oftast. Það er ekki þannig að mamma sé langstrangasta mamman í bekknum þótt þér finnist það eða að pabbi tali meira en aðrir pabbar. Þetta síðarnefnda kann þó að vera satt að einhverju leyti. Þið vinkonurnar eruð heppnar að foreldrar ykkar spá í hvað þið eruð að gera og vilja setja ykkur reglur. Þrátt fyrir að reglurnar geti virkað „ógeðslega“ ósanngjarnar þá eru þær blanda af framsýni og ást. Þú tapar aldrei á að tileinka þér stundvísi, tillitssemi og kurteisi. Eða vera fróðleiksfús.

Talandi um vinkonur. Passaðu upp á þær, bæði æskuvinkonur þínar og stelpurnar í Kvennó. Svo ég tali nú ekki um Kaju systur. Finnst gaman að heyra að þið vinkonurnar eruð nú þegar komnar í saumaklúbb. Það verður eitthvað. Ekki vera mjög leið yfir því að vera hálfglötuð í að prjóna eða sauma en það væri þó ráð að reyna aðeins að spýta í lófana í handavinnutímunum. Þó ekki væri nema til að ná tökum á krosssaumi. Þú ert fín í smíðum og skalt hugsa vel um að fara í húsasmíði, það mun nýtast þér allt lífið og um heiminn allan.

Annars eru spennandi tímar fram undan hjá þér. Þegar þú velur framhaldsskóla hvet ég þig til að halda öllum leiðum opnum. Annaðhvort til að uppfylla drauma þína um að verða dýralæknir, eignast 6 börn og búa í sveitinni eða gera eitthvað allt annað. En farðu til útlanda og búðu úti í einhvern tíma, hvort sem það er í gegnum nám eða vinnu. Upplifðu aðra menningu, reyndu að kynnast fólki og lærðu tungumál. Það er eins og auka skólaganga og gerir þig óttalausari þegar heim er komið.

Talandi um óttaleysi. Eitt af því sem ég vil brýna þig til að hafa í huga er að vera óttalaus og frjáls. Það getur verið fjandi erfitt og stundum þarf að gera nauðsynlegar málamiðlanir en ekki gefa afslátt af því sem þú trúir á. Það mun alls konar fólk hafa skoðun á því sem þú segir og gerir, sumir munu vilja af góðvild leiðbeina þér meðan aðrir sjá hag sinn í að spila á óþreyjuna og truntuskapinn sem stundum einkennir þig. Það er í góðu lagi að vera með skap og láta ekki valta yfir sig en það er líka kúnst að þegja stundum og hlusta. Reyndu að hlusta aðeins meira og melta það sem sagt er.

Ég veit að þér finnst gott að vera ein, helst í sveitinni. Það er góður staður til að láta hugann reika og pæla sig í gegnum hlutina. Þú munt gera mistök og það ekki bara einu sinni en það er þess virði en ekki síður að viðurkenna mistökin og reyna að læra af reynslunni. Ég veit að það getur reynst þér erfitt en trúðu mér, það er betri leiðin. Og ekki gleyma því að það eru fleiri en þú í samfélaginu sem getur orðið á því við erum jú líka mennsk eftir allt saman. Þá er kúnstin að fyrirgefa. Hvort sem það er gagnvart þeim sem standa þér nærri eða þeim sem þú jafnvel þekkir lítið sem ekkert. Farðu síðan að ráðum pabba, andaðu djúpt, haltu áfram og vertu frjáls í öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur. Ekki verra ef þú verður samfélagslega þenkjandi eins og foreldrar þínir. Þau eru alveg í lagi.

Svo eru ýmis önnur smærri atriði sem mig langar að þú hafir í huga. Ef og þegar þú kynnist ástinni í lífi þínu og þið eignist börn; ekki gefa eftir að elsta barnið haldi með einhverju öðru liði en Liverpool. Þú gætir lent á manni sem á mörg systkini og veit því vel að eldri systkini hafa áhrif á þau yngri. Gættu þín, ellegar gætu börnin þín endað sem Man Utd áhangendur eða eitthvað þaðan af verra.

Það er einnig rétt að upplýsa þig um að það eru ekki bara sætir strákar í Val og KR eins og þú heldur stundum. Ég veit að þú ert ekki með Hafnarfjörðinn á radarnum þessa dagana en ég ráðlegg þér eindregið að kynna þér Hafnarfjörðinn. Bærinn er ekki bara höfnin, hraunið og álfarnir sem geta heillað. Þeir eru líka helvíti góðir í handbolta, blessaðir FH-ingarnir.

Knúsaðu svo fólkið þitt. Mikið. Alltaf.

Þín Þorgerður

P.s. Ég veit að þér var smyglað nýverið inn á tónleika í Alþýðukjallaranum með Bubba nokkrum Morthens og að þú hlustaðir heilluð á lögin af plötunni Ísbjarnarblús. Ég segi ekki mömmu og pabba en fylgstu vel með Bubba, lögunum hans og textum. Þjóðargersemi.

Þessi grein birtist fyrst í 32 tölublaði Glamour. Lestu fleiri bréf: 

Solla Eiríks hér.

Edda Andrésar hér.

Sóley Kristjáns hér.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.