Elsku vinkona.

Ég á mjög kærar vinkonur sem eru nú barnshafandi í fyrsta sinn. Ég skrifaði fyrir allnokkrum mánuðum örlítið grafískan og mjög hreinskilinn pistil fyrir Glamour um meðgöngu og fæðingar. Sumir foreldrar tengdu við orðin en aðrir könnuðust ekki við eitt einasta atriði. Það er mjög lýsandi fyrir foreldrahlutverkið, engin tvö börn eru eins og foreldrarnir ekki heldur. Þessi litli listi af ráðum frá mér til ykkar er svolítið um það.

Þið munið fá umbeðin og óumbeðin ráð frá kunnugum og ókunnugum, frá sérfræðingum og sjálfskipuðum sérfræðingum sem hafa samt sjálfir aldrei fest bílstól í lánsjeppa í 30 metrum á sekúndu. Ykkur ber engin skylda til að taka þau til greina. Já, þetta fyrsta ráð snýst um að hlusta ekki á ráð og ykkur er meira en velkomið að hætta að lesa núna.

Það er bæði heillandi og óþolandi að barnaumstang og -uppeldi breytist með tímanum  og milli menningarheima. Kannski er langt gengið að kalla þetta tískustrauma en hreinlætisviðmið, barnagræjur og viðhorf sveiflast til og fara í hringi. Þá finnst mér gott að minna mig á að barnadauði á Íslandi er með því minnsta sem gerist í heiminum og að barnadauði í heiminum er minni en hann hefur nokkurn tímann verið.

Þótt brjóstagjöfin gangi eins og í sögu þá er, að minnsta kosti fyrst um sinn, óheyrilega mikil vinna að gefa brjóst. Og ef einhver minnist á að brjóstamjólk sé ókeypis þá má fantasera um að slá viðkomandi utanundir með sléttfullu brjóstinu. Er tími þinn og svefn einskis verður? Eru aukahitaeiningarnar og vítamínin sem þú þarft að innbyrða ókeypis og pumpur, mexíkóhattar og smyrsl sömuleiðis? Skipta blæðandi geirvörtur, vöðvabólga, flensudagar vegna sýkinga, stíflunuddssturtuferðir og dónalegt fólk á veitingastöðum engu máli? (Ég veit að það tekur líka tíma að blanda, hita og gefa pela, en annað fólk getur líka gert það!)

Ef brjóstagjöfin gengur illa eða ekki þá er það helvíti. Það má gefa ábót, það má gefast upp, þurrmjólkin er orðin ansi góð.

Þetta líður hjá. Það á við flesta hluti sem eru erfiðir þessa fyrstu mánuði. Svo lengi sem börn og foreldrar eru heilbrigð.

Vertu góð/ur við þig. Ekki dæma þig of hart, farðu vel með þig og leyfðu öðrum að gera það líka.

Hver mínúta þarf ekki að vera dásamleg, jafnvel þótt þetta hafi verið stóri draumurinn. Það má alveg vera smá óhamingjusamur stundum. En ekki alltaf, þá á maður að leita sér hjálpar.

Og auðvitað viljið þið fá einföld og skýr svör við spurningum eins og „Er mænudeyfing málið?“ og „Hvernig vagn/bílstól/svefnstað/burðarpoka/brjóstagjafaaukahluti á ég að kaupa?“ Það er hins vegar ástæða fyrir því að barnagræjublogg og -umræðuþræðir eru algjör frumskógur fyrir óinnvígða. Svarið er nefnilega: Það fer eftir aðstæðum, skoðunum og lífsstíl. Mænudeyfingin fer samt kannski að mestu eftir aðstæðum.

En kannski gæti ég boðið upp á eitt ráð hér: Það þarf ekki að kaupa allt í einu og síður en svo áður en barnið fæðist. Vissulega mun heimurinn kannski umturnast en verður ennþá til. Ef þú býrð ekki í göngufjarlægð frá kvennadeildinni er gott að eiga bílstól (ekki endilega bíl samt) og kannski eitthvað að sveipa um barnið en meira að segja þessu má redda eftir að barnið eða börnin koma í heiminn.

Ef þú ert í vafa gerðu það sem þér líður best með. Þótt þér líði eins og þú sért eina foreldrið á Íslandi sem vill láta barnið sofa inni þá er það í fínu lagi. Langi þig alls ekki að mæta með hvítvoðung í barnaafmæli í miðjum flensufaraldri, vertu bara heima. Og það má skrökva smá ef þig langar ekki að taka einhvern slag. Orka þín á að fara í annað.

Þú þarft ekkert að vita og kunna þetta allt frá fyrsta degi, þú hefur alveg nokkur ár til að undirbúa unglingsuppeldið og fyrst er nóg að hugsa fram að næstu gjöf eða þremur.

Ég veit að ég er kannski búin að gera aðeins lítið úr skoðunum annarra á umsjá og uppeldi barnsins þíns en nú kemur stóra EN-ið: Það er nauðsynlegt að treysta á aðra líka. Auðvitað á að treysta sínu innsæi en líka heilbrigðisstarfsfólki. Og vinum og ættingjum. Plís leyfið þeim að passa og ef þið eigið kveisu- eða eyrnabólgubarn, í guðanna bænum leyfið einhverjum öðrum að ganga um gólf í smá tíma á meðan þið farið í sund eða spilið tölvuleik.

Pissaðu þegar færi gefst, maður veit aldrei.

Ykkar,

H

Hallgerður Hallgrímsdóttir

Hallgerður Hallgrímsdóttir er fastur pistlahöfundur í Glamour. Hún er verkefnastjóri og mynd­listarmaður og hefur sýnt ljósmyndir sínar víða um heim. Hún býr í Gautaborg en kemur reglulega til landsins þar sem hún flýr út á land, oftast með fleiri en eina myndavél um hálsinn.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.