„Lífið er það sem maður býr til úr því sjálfur, það er enginn sem gerir það fyrir þig“

Samband á milli mæðgna getur oft verið flókið og munurinn á milli kynslóða mikill. Kvenhlutverkið hefur breyst gríðarlega á síðustu árum og skoðanir breytast eftir tíðarandanum hverju sinni.

Glamour hefur fjallað um þetta flókna en fallega samband mæðgna í blöðunum en við byrjuðum á því að hitta þær Margréti Björnsdóttur (f. 1936), Þóru Margréti Baldvinsdóttur (f. 1971) og Margréti Bjarnadóttur (f. 1991) fyrir maí og júní blað Glamour þar sem þær spjölluðu, og tókust stundum á, um matargerð, fjölskylduna, móðurhlutverkið, heimilið, drauma og eftirsjár – þá og nú.

Hvað hefur þú tileinkað þér frá mömmu þinni, í sambandi við heimilið og síðan uppeldi?

 Þóra Margrét: Ég er með ofuráherslu á að allir gangi frá eftir sig, sem hún lagði mikla áherslu á. Ég sagðist aldrei ætla að láta svona við mín börn. Ég hefði alveg viljað vera afslappaðri með þetta, en ég ræð greinilega ekki við þetta. Síðan er annað mál að það skilar ekki miklum árangri hjá mér ókt því sem átti við hjá mömmu. 

Svo er margt sem ég hef tekið frá henni í eldhúsinu auðvitað. Mikilvægast er líklega það að vera til staðar fyrir krakkana, hún var alltaf til staðar fyrir okkur og mér fannst það mjög notalegt. Eitthvað sem ég lærði enn meira að meta þegar ég varð eldri.

 Sérð þú það sem hún tekur frá þér?

 Margrét eldri: Já, algjörlega. Svo höfðum við alveg rosalega gaman af því að elda saman þegar hún byrjaði að búa, og við gerðum það oft á meðan krakkarnir voru litlir.

 Hefurðu verið afskiptasöm þegar kemur að Þóru Margréti og uppeldi barna hennar, eða heimili hennar?

Margrét eldri: Já, örugglega.

 Þóra Margrét: Nei, það finnst mér ekki. En hún hefur skoðun á hlutunum. Svo tekur hún stundum málstað krakkanna þegar ég er með athugasemdir. Eins og ömmur gera. Hún kemur stundum heim og segir: „Er allt í drasli hérna?“þegar mér finnst bara vera voða snyrtilegt.

 Hvað sérðu í Margréti þinni sem hún hefur tekið til sín frá þér?

 Þóra Margrét: Ég væri svo til í það að Magga hefði tileinkað sér eitthvað aðeins meira frá mér. Ég hugsa stundum: Hvað hefur uppeldið skilið eftir? Líklega er ég of nálægt henni til að sjá það sjálf.

 Margrét eldri: Jú, hún hefur matreiðsluna.

 Þóra Margrét: En ég var tvítug þegar ég byrjaði að búa, með barn reyndar. Ég var svo fljót að koma mér upp heimili og ég gerði alls konar úr engu. Ég var alltaf að mála og breyta til.

 Margréyngri: Ég var að mála alla íbúðina reyndar.

 Þóra Margrét: Já, þú ert 27 ára og ert að finna þetta hjá þér núna. En mér finnst hún aðeins værukærari en ég var, en hún elst líka upp á öðrum tíma. Auðvitað hefur áhrif að hún er ekki með barn. Það breytir svo miklu.En mér finnst við Margrét oft rosalega ólíkar, finnst þér það ekki? Hvað finnst þér líkt með okkur?

 Margrét eldri: Nei, mér finnst það ekki, það eru vissir taktar hjá ykkur sem eru líkir.

 Margrét yngri: Ja, við kannski forgangsröðum öðruvísi. Ætli það sem er líkt sé samt ekki það að maður sé með fullsterkar skoðanir, og er tilbúinn að standa með þeim lengur en maður ætti stundum að gera. Þá hugsa ég: Djöfullinn, nú er ég alveg eins og mamma, ég þoli ekki þegar hún gerir þetta. En svo er ég alveg eins.

 Þær hlæja allar, og eru greinilega sammála.

 Margrét eldri:Nákvæmlega!

 Margrét yngri: Ég held ég taki meira frá henni seinna meir, þegar ég verð sjálf komin með fjölskyldu. Eins og til dæmis það að mamma hefur það þannig að við borðum oft saman fjölskyldan, það er alltaf matur heima. Þó að það sé kannski enginn í mat, þá er hún samt búin að gera risastóra skál af bolognese.

Finnst þér þú líkari ömmu þinni eða mömmu?

 Margrét yngri: Ég held að við séum allar þrjár merkilega líkar, og ég held að það sé það sem fari mest í taugarnar á okkur við hver aðra.

 Margrét eldri: En svo var þessi alveg rosaleg ömmustelpa.

 Þóra Margrét: Margrét kunni alveg að vefja öllum um fingur sér, ef ég gaf ekki eftir þá vissi hún nákvæmlega hver myndi gera það.

 Margrét eldri: Hún var uppátækjasamur og skemmtilegur krakki.

 En þið voruð, og eruð, svo mikið saman.

 Margrét yngri hlæjandi: Mjög mikið saman, já. Það er bara metri á milli mín og ömmu. Við búum sko hlið við hlið.

 Þóra Margrét:Við ræddum þetta áður en hún ákvað að hún myndi flytja hingað, og sögðum: „Þú veist að þú munt búa við hliðina á ömmu þinni.“ Hún sagði að sér væri alveg sama. En núna segir hún: „Ertu að djóka, þau eru að vakta mig!“ Ég var búin að segja þér að þetta yrði svona.

Margrét yngri: Ég man þegar ég var búin að búa hérna í svona ár, þá fæ ég símtal frá ömmu: „Bíddu, hvar ert þú?“ Heima. „Nú, hvað, á ekkert að láta mann vita?“

 Þær hlæja allar.

Þóra Margrét: Ef þú fengir að ráða þá myndum við bara kaupa alla þessa blokk hérna og búa öll saman.

Margrét yngri: Já,ég gæti það alveg. Ég meina, bróðir mömmu er bara hérna rétt við hliðina á líka. Við erum öll í hverfinu.

Margrét eldri: Við erum svona ítölsk familía.

Þóra Margrét: Við erum með þessa krakka og alla nánustu fjölskylduna svo nálægt okkur á þessu landi hér, þetta er ekki víða svona erlendis.

 Margrét yngri: Við erum ein nánasta fjölskylda sem ég veit um.

 Þóra Margrét:En þetta gerist sko ekki af sjálfu sér, þetta byggir á góðum samskiptum og virðingu fyrir hvert öðru.

 Og líka eins og þú segir, það er alltaf matur.

 Þóra Margrét: Já,bara það, að hafa mat, það sameinar fólkið. En ekki bara einhvern mat, sjáðu til.

Margrét yngri: Að borða saman skiptir svo miklu, þær stundir eru ákveðinn kjarni.

Þóra Margrét: En það eru ekki allir svona, matur sameinar ekki allar fjölskyldur.

Margrét yngri: Vondur matur sundrar.

 Þær hlæja allar

 Margrét yngri: Við erum sífellt skipuleggjandi matarboð, og meira að segja þegar mamma og pabbi eru með vinafólk í mat, þá erum við allt í einu öll mætt líka í matarboðið. Svo hringja ammaog bróðir mömmu og spyrja hvort það verði ekki matur.

 Þóra Margrét: Heimili mitt er eins og félagsmiðstöð.

Magga, þú ákvaðst að taka mataráhugann skrefinu lengra og fara í kokkanám.

Margrét yngri: Já,ég byrjaði að vinna hjá Happ, og á sama tíma var mamma með matarþátt í Nýju Lífi, og það fannst mér mjög spennandi. Svo fékk ég mikinn áhuga á öllu sem tengist mat. Það er alltaf stemning þegar mamma er að skipuleggja matarboð og velta upp hugmyndum. Prófa eitthvað nýtt. Þannig, já, ég held að áhuginn hafi kviknað heima. Við elskum að prófa nýja staði á ferðalögum og oft sitjum við heima að horfa á Food Network. Þannig að ástríðan fyrir matnum kviknaði heima.

Þóra Margrét: Það kom mér verulega á óvart að hún skyldi fara í þetta, hún hafði aldrei sýnt neina tilburði heima fyrir til að fara í þetta.

Margrét yngri: Áhugi minn byrjaði með því að borða mat, frekar en að elda mat.

 Eldið þið mæðgur aldrei saman heima?

Þóra Margrét og Margrét yngri: Nei, það er svo skrýtið að það er sjaldgæft.  

Margrét yngri: Þegar þú eldar 14 tíma á dag, þá viltu helst bara fara og fá þér pítsu. En svo eins þegar ég flutti til Svíþjóðar, þá allt í einu fattaði ég, ég get ekki bara verið að borða Burger King, og þá mundi ég eftir matnum hennar mömmu og fór að spyrja hana: „Heyrðu, hvernig er sítrónukjúklingurinn aftur?“ Svo kem ég heim, og eitt leiðir af öðru og ég fer í kokkanámið. Þú getur ekki eldað góðan mat nema þú hafir smakkað góðan mat.

 En hvað er líkt með Þóru Margréti og Margréti?

 Margrét eldri: Jú, þær bara taka bara ákvöun og það er bara gert, ekkert hik. Og það sem þær eiga sameiginlegt er að þær gleyma sér. Stundvísi er ekki þeirra sterkasta hlið.

Þóra Margrét: Ég er með fjögur börn og með mikla dagskrá.

Margrét yngri: Svo kem ég seint og þá sendir hún á mig: „Gat verið, þú sein.“ Svo sendi ég henni það sama þegar hún er sein, til að pirra hana aðeins.

Sérðu eitthvað líkt með þér þegar þú varst unglingurog þegar Magga var unglingur?

Þóra Margrét: Nei, og það er einmitt þetta sem ég var að segja áðan. Ég var stundum að bera það saman, hvað ég var að gera þegar ég var á hennar aldri, en nei, við erum mjög ókar þar. Ég var að gera allt aðra hluti þegar ég var 19 ára en hún.

Margrét eldri: Já, þú sérð að Þóra var náttúrulega ung þegar hún átti Möggu og Magga nú orðin þetta gömul og ekki farin að eiga börn.

Þóra Margrét: Nei, það liggur ekkert á því.

Margrét yngri: Ég þarf fyrst að fá mér flísar íeldhúsið.

Þóra Margrét: En ég var oft að segja við hana: „Þú þarft að fara að þroskast, þú þarft að halda áfram með lífið og taka ábyrgð.“ Hún er að gera það núna sem ég var að gera 19 ára, það er svolítið þannig.

Margrét yngri brosir og horfir á mömmu sína: Enga öfundsýki.

Hvernig fannst þér þegar Magga flutti út?

Þóra Margrét: Mér fannst það alveg hræðilega erfitt. Það hjálpaði ekki að ég var ólétt að yngstu systur hennar. Ég var ekki tilbúin í þetta. Það liggur við að ég hafi orðið pínulítið þunglynd þegar hún fór.

Margrét eldri: Að þessu leyti erum við mæðgurnar mjög líkar, mér fannst þetta mjög erfitt líka, það myndast tómarúm.

En ef þú værir á aldur við Möggu í dag, hvað þá?

Margrét eldri: Guð, hvað ég myndi breyta mörgu. Ég hugsa að ég hefði allavega viljað mennta mig meira og ekki byrja að eiga börnin svona ung. Ég hefði viljað vera meira úti á vinnumarkaðinum, ef ég hefði haft möguleikana til þess. Ég sé svolítið eftir því, held ég hefði gert hlutina öðruvísi.

Þóra Margrét: Hvað hindraði þig?

Margrét eldri: Ég var bara með unga krakka, og síðan veikist ég árið ’91 og hef lítið unnið eftir það. Það er bara þannig með konur sem eru komnar á vissan aldur að þær fá ekkert vinnu hvar sem er, þó að þær séu með reynslu.

Í dag vinnur fólk mikið og börnin fara oft mjög ung á leikskóla eða til dagmömmu, það var öðruvísi þegar þú varst ung.

Margrét eldri: Mér finnst börnin oft sett mjög fljótt á þá staði, maður á að njóta barnanna meðan þau eru svona lítil. Þetta er svo fljótt að líða.

Þóra Margrét: Það er rétt, en fólk þarf að láta enda ná saman og allir vilja finna leið til að gera hvort tveggja.

Margrét eldri: Það er rétt, það er líklega dýrara að lifa, eða kröfurnar eru allavega meiri. Og það er eins og það sé erfiðara að kaupa sér húsnæði núna en þegar við vorum ung, þótt það hafi aldrei verið auðvelt að eignast sína fyrstu eign.

Þóra Margrét: Nei, það var alveg jafn erfitt þá. Þegar mín kynslóð var að reyna að eignast fyrstu íbúð var ekki mikið farið til útlanda, fólk keypti sér ekki föt og það fór aldrei út að borða. Í dag sér maður suma kvarta yfir verðlaginu á Íslandi en er á sama tíma að endurnýja bílinn, skipuleggja utanlandsferðir, tónleika og er í nýjustu strigaskónum. Málið er að íbúðakaup eru hvergi auðveld og það þarf að hafa raunhæfar væntingar.

Margrét yngri: Margir eru kannski ekki jafn vel upplýstir og þeir þykjast vera, mín kynslóð og niður. Það er kannski búið að aumingjavæða hana svolítið. Mér finnst rosalega margir vera að kvarta núna í kringum mig og fólk er ekkert að gera neitt endilega. Svo miða margir við að búa bara í 101, sem þeir segja vera svo sjúklega dýrt, auðvitað er það dýrt. Það er alls staðar, í öllum löndum, dýrast að búa í miðborginni.

Margrét eldri: Þessir krakkar eru alltaf úti að borða, og í heimsreisum.

Þóra Margrét: En stóra breytingin á þessu er að fólk menntar sig miklu meira í dag en það gerði fyrir 30, 40, 50 árum síðan og það dregur það svolítið að fólk eignist sína fyrstu íbúð. Það verður ekki forgangsatriði. Þú getur það ekki nema þú sért í vinnu, og þegar þú ferð í svona langt nám þurfa nú flestir að taka eitthvert námslán. Þess vegna er fólk í dag kannski að kaupa sína fyrstu íbúð 27 til 30 ára en ekki 23 ára.

Margrét yngri: Margir eru núna kannski 3-5 árum lengur að mennta sig.

Þóra Margrét: En það hefur ekkert breyst í þessum húsnæðismálum, það hefur alltaf verið erfitt. Þetta er stærsta fjárfesting flestra í lífinu svo það er ekkert skrýtið. En við lifum allt öðruvísi í dag, fólk tekur námslán og er lengur að mennta sig. Mér finnst skipta mestu að ungt fólk fái vinnu og að það sé einhver stöðugleiki, ekki verðbólga og órói. Við seldum húsbréf sem við fengum fyrir tæpum 20 árum með 20% afföllum. Höfðum tapað 20% af því sem við tókum að láni á einni viku. Aðstæður eru miklu betri hvað þetta varðar í dag.

Margrét yngri: En munurinn er líka að þá kannski varðstu bara að redda þér sjálfur. Í dag situr fólk meira bara og segir: „Af hverju get ég ekki keypt þennan sófa? Það er fáránlegt, þetta er kerfinu að kenna.“ Tilætlunarsemi á svona furðulegan hátt. Vinnusemin og dugnaðurinn er eitthvað sem við verðum að halda í.

Margrét eldri: Kröfurnar sem sumt ungt fólk gerir eru óraunhæfar.

Margrét yngri stendur upp og sækir grænmeti sem hún sker niður í litla bita. Hún er að elda lasagna, en hún á von á fjölskyldunni í mat eftir nokkra klukkutíma.

Þóra Margrét, þegar þú lítur til baka. Er eitthvað sem þú myndir breyta?

Þóra Margrét: Ég kýs að líta ekki í baksýnisspegilinn.

Margrét yngri hlæjandi: Það er svo margt sem hún hefði þá gert öðruvísi.

Þær hlæja allar.

Þóra Margrét: Nei, það þýðir ekki. Það er ekki mín „fílósófía“. En segjum sem svo, ef maður gæti gert það. Ég held að nánast allir, sama hvar þeir eru í lífinu í dag, myndu vilja gera eitthvað öðruvísi. Bara það að láta ekki draum sinn rætast, maður á að láta drauma sína rætast. Og mann á að dreyma stórt, og maður á að reyna allt sem maður getur til að láta drauma sína rætast.

 Var eitthvað sem þú gast ekki gert?

Þóra Margrét: Nei, ég gat það alveg. En ég lét lífið bara teyma mig svolítið áfram.

Margrét eldri: Það er það sem fólk gerir, Þóra.

Þóra Margrét: Nei, nefnilega ekki. Sumir láta bara hlutina gerast.

En afhverju léstu hlutina bíða, tengist það því að þú varðst móðir ung?

Þóra Margrét: Já, en éætla samt að segja, að ég bý í þjóðfélagi þar sem aðstoðin við útivinnandi fólk er ótrúlega mikil. Garðabær er alveg til fyrirmyndar, svo dæmi sé tekið. En þetta er líka val, það er val að vera heima hjá börnunum. Ég hef reyndar alltaf verið í einhverri vinnu, ég var að fljúga í sjö ár og hef verið í allskonar verkefnum af og til. En það hefur líka verið val hjá mér að vera meira heima, líka út af því að maðurinn minn er ekki í svona eðlilegri vinnu. Við urðum þá að hafa þetta þannig í einhvern tíma. En nú er ég opin fyrir tækifærum. Ég er tilbúin að fara að hella mér út í eitthvað nýtt.

Margrét yngri: En veistu hver mín skoðun er, eða upplifun er, af því? Ég hef heyrt þig oft tala um þetta og velt því fyrir mér afhverju þú segist vilja fara út að vinna. Nú viltu alls ekki að börnin þín fari að heiman og vilt hafa börnin þín hjá þér, þú værir svo sem alveg til í að eignast börn þar til þú ert orðin fimmtug því þú vilt hafa alla í kringum þig alltaf. Mér finnst svona togstreita í þér. En ég get sagt fyrir mig að ég gæti ekki hugsað mér að hafa þetta öðruvísi.

Þóra Margrét: En þú þekkir ekkert annað, reyndar var ég mest að vinna þegar þú varst á leikskóla.

Hvað heldurðu að þú munir taka frá mömmu þinni þegar þú verður móðir?

Margrét yngri: Ef ég ætti fjölskyldu myndi ég aldrei vilja sleppa því sem ég átti, og ég myndi gera það sama. Sérstaklega þetta með matinn, það snýst allt um mat. Það er svo mikilvægt og það finna það allir sem hafa upplifað það. Svo líka eins og það sem mamma talaði um með ömmu, að vera til staðar. Ég mun klárlega reyna að taka það með mér.

Blaðamaður Glamour: Mamma mín var alltaf til staðar, og mikið heima. En ég held að henni finnist aðeins verra að ég vinni sjálf mikið og ég geti ekki verið jafn mikið heima fyrir minn strák.

Þóra Margrét: Ég myndi hvetja Möggu til að vera útivinnandi, ekki spurning. Reyna að fá alla hjálp sem hún getur fyrir barnið. En það verður að vera jafnvægi hjá pari þar sem bæði ætla að vera útivinnandi. Það er svo mikið atriði fyrir konur að fá að vera útivinnandi, eins og karla, því það býr til svo mikið jafnvægi í sambandi.

Margrét yngri: Það er svo gefandi fyrir einstaklinginn sjálfan.

Margrét eldri: En nú er hægt að segja það, að þegar foreldrar vinna mikið úti… ég meina, þá kemur nú mjög oft til árekstra. Það er svo mikill hraði núna í okkar þjóðfélagi, hver á að taka til, hver á að svæfa barnið? Það eru allir svo þreyttir.

En þá komum við aftur að jafnvæginu á heimilinu. Einu sinni var konan oftast heima og sá um heimilið, en nú verða báðir aðilar að gera það.

Margrét eldri: Reyndar verð ég að viðurkenna það að áður fyrr, þá gerði konan allt. Mjög fáar konur unnu úti, eða færri. Nú vinna allir úti. Og konur gerðu allt, karlar gerðu ekki rassgat. Núna í dag gera þeir alveg ótrúlega mikið.

Þóra Margrét: Af því að, það er meira jafnvægi.

Margrét eldri: En það eru plúsar og mínusar.

Margrét yngri: Það þarf bara að vera samkomulag, og það er frábært. En svo komu tímabil þegar ég var lítil þegar mamma og pabbi unnu bæði mikið, þá fékk ég að vera mikið með ömmu og afa, frænkum og frændum.

Þóra Margrét: En mér finnst líka óþolandi að þær sem velja það að vera heimavinnandi þurfi að réttlæta það fyrir öðrum. Fyrir suma er þetta bara val. En það er aðalatriðið að það hafi verið raunverulegt val en ekki afleiðing aðstæðna. Jafnréttið felst meðal annars í því að báðir hafi val og geti tekið eigin ákvarðanir en að þær séu ekki hrein afleiðing af því sem makinn hefur ákveðið.

Margrét eldri: En það þurfa ekki allir að vera eins, berum virðingu fyrir þeim sem vilja vinna heima.

Þóra Margrét: Leikskólar í dag eru fyrsta skólastigið. Við höfum gert rosalega miklar kröfur í þessum málum, viljum menntaða kennara í leikskólana. Þótt það gangi of hægt er þetta allt annar heimur en hér áður fyrr.

En var jafnvægið gott hjá ykkur?

Þóra Margrét:Það var bara misjafnt eftir tímabilum. En mér finnst heilbrigðara fyrir börn að alast upp með foreldrum sem eru jöfn í þessu. Þetta var mjög ójafnt í mínu uppeldi, og mér fannst það alltaf mjög óeðlilegt og ég vildi ekki hafa þetta þannig. En það er kannski erfitt að miða þetta við mig því við lifum dálítið óhefðbundnu lífi. Við höfum lifað tímabil þar sem við höfðum bæði mikinn tíma fyrir krakkana og svo önnur þar sem það var síður þannig. Það er ekki auðvelt fyrir heimilishald að vera gift formanni stjórnmálaflokks, svo ég segi það bara hreint út.

Finnst ykkur breytingin sem hefur orðið á vera til hins betra?

Margrét eldri: Já, hiklaust, ekki spurning. Mér finnst breytingin frábær, ég meina að sjá unga menn í dag. Þú sást ekkert mann hérna keyra barnavagn eða kerrur áður fyrr, en það er eðlilegasti hlutur í heimi í dag.

Þóra Margrét: Ég dáist ekki síður að ungum konum í dag. Þær virðast geta allt og vita hvað þær vilja.

Margrét eldri: Já, já. Þú mátt alveg dást að ungum konum, þær eru alveg rosa fínar líka. En ég er að tala um hvað það hefur orðið mikil breyting. Frá minni kynslóð og til þessar kynslóðar í dag. Konurnar ólu upp börnin, karlarnir voru nánast ekkert til staðar.

Þóra Margrét: Já, það er rétt, þetta er mikil breyting. En við þurfum að ná lengra.

Margrét eldri: Svo hugsar maður til baka, til sveitarinnar í gamla daga, Jesús minn, þvílík bylting.

Þóra Margrét: Já, þá var fátækt. Ísland var fátækasta land í Evrópu, nú erum við ríkasta land í Evrópu. Það eru bara 80 til 100 ár þarna á milli.

Margrét eldri: Það eru plúsar og mínusar. Í dag er stundum of mikill hraði á öllu.

Þóra Margrét: Það eru miklu fleiri plúsar í dag og allt annað fyrir fólk að alast upp í dag. Fólk lifði hér við sárustu fátækt.

Þurftir þú að berjast meira fyrir því sem þú vildir gera, meira en maðurinn þinn til dæmis?

Þóra Margrét: Nei, ekki neitt, alls ekki. Hver er sinnar gæfu smiður.

Bróðir Þóru Margrétar labbar inn, en hann er í göngutúr með börnin sín. Síðan horfir hann á Möggu, sem er enn að elda lasagna og spyr hvort það sé matur. Þær hlæja allar, enda nýbúnar að tala um þetta.

Þóra Margrét: Nei, ég hef verið svolítið ósátt við þetta, þegar konur segja að lífið hafi verið eitthvað flóknara fyrir þær upp þennan metorðastiga. Að vissu leyti, eins og í hæstu stjórnunarstöður, þá held ég að það sé rétt. Það hafi verið glerþak.En lífið er aldrei auðvelt og það gildir jafnt fyrir konur og karla. Lífið er það sem maður býr til úr því sjálfur, það er enginn sem gerir það fyrir þig.

Margrét eldri: En samt segja konur það, Þóra mín, að það að starfa í þessum karlaheimi sé erfitt og þær þurfi að berjast fyrir meiru. 

Þóra Margrét: Og það er líka rétt. En það er að breytast. Það sem ég er bara að benda á er að þú getur náð jafnrétti, jöfnum tækifærum fyrir bæði kyn, eða það er ekkert sem breytir því að erfitt starf er erfitt starf. Karl eða kona í stjórnunarstöðu er í erfiðu starfi. Það er ekki eins og karlar hafi verið í auðveldum stjórnunarstöðum bara vegna þess að þeir voru ekki að keppa um þær við konur.

En þú Magga, sem vinnur í kokkabransanum, sem oft þykir mjög karllægur. Þarft þú að berjast fyrir meiru en maður í sambærilegri stöðu?

Margrét yngri: Nei, en ég heyri rosalega mikið talað um það. En ég held að þarna skipti uppeldið mjög miklu máli. Mér var sagt aðef ég legði mig fram myndi ég geta gert hvað sem er. Ég mætti ekki láta neitt stoppa mig ef ég vissi hvað ég vildi. Að hugsa stórt og vera tilbúin að leggja mig fram til að láta drauminn rætast. Ég læt líka í mér heyra ef ég er ósátt. Því ég á rétt á minni skoðun.

Þóra Margrét: Maður á að láta sig dreyma stórt, það er ekkert auðvelt í þessu lífi. Auðvitað á maður að stefna að því að gera skemmtilega hluti en lífið er nú bara þannig að það verður ekkert alltaf skemmtilegt.

Margrét yngri: Eða: „Ég ætla bara að gera það sem ég fæ pening fyrir.“

Margrét eldri: Nei, það virkar ekki.

Þóra Margrét: En það sem fólk á við með því, að það er alveg tilbúið til að leggja eitthvað á sig, en það verði þá að fá eitthvað fyrir það. Maður verður að vera tilbúinn til að leggja eitthvað á sig. Það er stór hluti jafnréttisbaráttunnar að gera konum kleift, ekki bara að mennta sig og starfa við það sem áhugi þeirra stendur til, heldur líka að standa á eigin fótum fjárhagslega.

Nú áttu dætur og síðan son, heldurðu að kröfurnar séu meiri til hans en þeirra?

Þóra Margrét: Nei, ég geri ekki mun á þeim þar, engan veginn. Ég geri eins kröfur til þeirra, alveg jafnt. Ég horfi ekki á hann og hugsa: Hann verður fyrirvinnan. En þetta er stór breyting, karlar eiga ekkert endilega að vera fyrirvinnur á sínu heimili. Þetta sjáum við allt í kringum okkur í dag. Það er að verða sjaldgæfara að annað hjóna sé meiri fyrirvinna en hitt.

En þú, Margrét, þú átt bæði stráka og stelpu, bjóstu frekar við að þeir myndu mennta sig en hún?

Margrét eldri: Já,ég hugsa að það hafi verið þannig þá, þá ætlaðist maður til að strákurinn menntaði sig. En stelpan, ja, hún gat bara fundið sér sitt draumastarf. Það voru öðruvísi hugmyndir.

En í dag, við hverju býstu af barnabörnum þínum?

Margrét eldri: Ég myndi gera alveg jafn miklar kröfur til hennar Möggu og hinna stelpnanna og strákanna.

Hvernig voru kröfurnar til þín þegar þú varst að alast upp?

Margrét eldri: Það voru eiginlega engar kröfur, það var bara þannig. En ég var mjög ákveðin, ég ætlaði að fara til Kaupmannahafnar og vinna þar, og ég gerði það. Ég fór 16 ára og ég vann þar í þrjá mánuði. En maður gerði ýmislegt, maður vann á spítölum og við vorum með tískuverslun og svo rak ég barnafataverslun í einhvern tíma. Það var mjög gaman á meðan á því stóð. Ég gerði ýmislegt áður en ég hætti að vinna. En eins og ég segi, ég hefði viljað vinna lengur og mennta mig meira. En maður getur ekki séð eftir öllu, lífið er búið að vera gott. Maður á bara að vera ánægður með það sem maður hefur. Ég ætla að hætta að kvarta, og vera ánægð með það sem maður hefur og á.

Þóra Margrét: Við erum á margan hátt forréttindaþjóð Íslendingar, mikið af tækifærum í dag fyrir ungt fólk.

 En hvað finnst þér, Þóra, um okkar kynslóð í dag?

Þóra Margrét: Mér finnst ykkar kynslóð, krakkar undir þrítugu, alveg frábær. Það er eiginlega unun að fylgjast með þessari kynslóð, öllu því sem hún er að skapa. Ég dáist að svo mörgu í fari unga fólksins. Mér finnst þessi kynslóð vera mjög tilbúin að gagnrýna og hafa sjálfstæða skoðun. Það er minna lífsgæðakapphlaup en mér finnst hafa verið hjá eldri kynslóðum. Meiri áhersla á að njóta lífsins og ferðast, en minni á að eignast bíl. Það er líka spennandi að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér. Tímarnir eru að breytast. Metoo-byltingin er líklega stærsta bylting sem við höfum séð, já, jafnvel frá því að konur fengu kosningarétt. Þessi breyting verður þegar þessi kynslóð er rétt að fara út í lífið.  Þannig að mér finnst spennandi að fylgjast með ykkur, þið eruð dugleg og ég sé svo mikil tækifæri og mikinn kraft.

Margrét yngri hlæjandi: Mamma er að undirbúa framboð.  

En hvernig finnst þér, Margrét, okkar kynslóð?

Margrét eldri: Með internetinu og öllu þessu, þá veit ykkar kynslóð miklu meira. Hún ferðast meira og það eru mun fleiri tækifæri en þegar ég var að alast upp. Einu áhyggjurnar sem maður hefur í dag, ef maður ætti að segja eitthvað, það er þá þessi tölvu- og símanotkun. Manni finnst þetta alveg stjórnlaust. Eftir nokkur ár, þá kann fólk kannski ekki að tala saman. Maður fer á veitingahús og það eru hjón sem sitja á móti hvort öðru, á að vera einhver hamingjusöm stund, og þau eru bæði í símanum. En tækifærin sem eru í dag eru stórkostleg.

Myndir: Anton Brink

Viðtalið birtist fyrst í maí/júní blaði Glamour

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.