Mílanó að hætti Berglindar

Ítölsk tíska er engri lík og eru Ítalir meðal þeirra fremstu í flokki þegar kemur að lúxusvörum. Í borginni kallast á fallegur stíll og hönnun á heimsmælikvarða. Berglind Óskarsdóttir býr í Mílanó og veit hvað hún syngur þegar kemur að þessum málum. Við fengum hana til að mæla með nokkrum góðum stöðum og verslunum í Mílanó.

 Það eru ótalmargar verslanir í Mílanó og hægt er að finna alls konar áhugaverðar búðir um alla borg. Í kringum Dómkirkjuna eru þær verslanir sem meðal annars kaupglaðir Íslendingar myndu helst sækjast eftir.

Dómkirkjan í Mílanó.

 Á Via Montenapoleone og Via della Spiga er hægt að finna hátísku eins og hún gerist best, en þar eru stærstu tískuhúsin með verslanir. Þar er gaman að ganga um og láta sig dreyma.

 Það er alltaf gaman að skoða La Rinascente og þar má enda verslunarleiðangurinn með svalandi Aperol Spritz á Rooftop-barnum og njóta útsýnisins yfir Dómkirkjuna.

La Rinascente.

 VersluninExcelsiorer í uppáhaldi hjá mér. Búðin býður upp á nýjustu tísku í fatnaði og fylgihlutum fyrir bæði dömur og herra, ásamt því að selja vandaða hönnun til gjafa og fyrir heimilið. Persónulega kaupi ég ekki mikið af fötum heldur vel ég frekar vandaða fylgihluti og ég er alltaf viss um að finna eitthvað fallegt þarna.

Excelsior

Fyrir herrana þá er verslunin Fortela ein af þeim allra flottustu í Mílanó. Þar blandast saman ítalskur klæðskerasaumur og „vintage“ japönsk efni í fallegum flíkum fyrir alvöru herramenn.

Fortela.

10 Corso Como er „concept“ verslun sem býður upp á vandaðar vörur í fallegu umhverfi. Búðin var upphaflega stofnuð í Mílanó en hefur opnað fleiri verslanir víðs vegar um heiminn, meðal annars í New York og Tókýó.

10 Corso Como. 

Það er skemmtileg upplifun að fara á East Market en það er markaður innblásinn af East Market í London. Markaðurinn er haldinn einu sinni í mánuði og þar er hægt að finna dásamlegar „vintage“ flíkur, vínylplötur, antikhúsgögn og fleira. Á þessum markaði eru matarvagnar og stemningin er mjög skemmtileg allan daginn.

East Market

Víðs vegar um borgina er einnig að finna frábærar minni búðir sem eru ekki eins „mainstream“ og verð ég þá að nefna Suit 123 í Porta Romana, og Wait and See á Via Santa Marta. Þetta eru litríkar verslanir sem bjóða upp á fatnað og fylgihluti á viðráðanlegu verði.

Attico er ítalskt merki sem er á hraðri uppleið, stofnað af ofurskvísunum Gilda Ambrosio og Giorgia Tordini. Þær eru með „pop-up“ verslun í Larusmiani á Via Montenapoleone 7. Persónulega held ég mikið upp á þetta merki.

Gilda Ambrosio ein af systrunum bakvið merkið Attico í kjól frá merkinu.
Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.