„Instagram er vinnan mín og gluggi milli mín og heimsins“

Glamour stóð í júlí fyrir könnun meðal lesenda á Glamour.is þar sem við kölluðum eftir uppástungum varðandi hvaða Íslendingur væri vel klæddur, smart og með fallegan stíl og gæti þar af leiðandi fengið nafnbótina tískufyrirmynd Íslands.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa en við fengum yfir hundrað uppástungur sem virkilega skemmtilegt var að fara yfir og skoða. Sú sem bar sigur úr býtum í þeirra kosningu var stílistinn og áhrifavaldurinn Þóra Valdimars sem er flestum þeim sem fylgjast með tískuheiminum vel kunn.  Þóra vinnur í raun við að veita innblástur með skemmtilegum og persónulegum fatastíl.

Hér má lesa nokkur ummæli frá lesendum um Þóru:

„Elska hvernig hún blandar flíkum saman í skemmtilegan stíl“

„Hefur náð langt með framandi, stílhreinum og kvenlegum stíl“

„Alltaf mörgum skrefum á undan, frábær fyrirmynd og mikill innblástur“

Glamour hafði samband við Þóru þar sem hún var á fullu að undirbúa sig fyrir tískuvikuna í Kaupmannahöfn en þar frumýndi hún nýtt merki sem hún er listrænn stjórnandi að ásamt vinkonu sinni Jeanette Madsen. Við fengum hana til að svara nokkrum spurningum. 

Hver er Þóra Valdimars?

„Úff, þetta er svo erfið spurning. Ég elska lífið, elska að vera mamma en ég á 11 ára gamlan strák. Ég elska vini mína og fjölskylduna og svo elska ég vinnuna mína. Mér finnst svo æðislegt að vera alltaf að þróast og læra sem manneskja. Ég er alltaf að uppgötva og læra eitthvað nýtt. Allt í kringum mig finnst mér skemmtilegt. Mér hefur ekki alltaf liðið svona en að líða svona núna þýðir líklega að ég er hamingjusöm manneskja sem nýtur lífsins á hverjum degi.“ 

Hvernig myndirðu lýsa þínum persónulega stíl og hvað finnst þér vera persónulegur stíll?

Persónulegur stíll er þegar maður fer í föt sem klæða mann vel og sem manni þykja flott alveg sama hvaðan þau eru. Þegar maður blandar saman dýru og ódýru og skapar eitthvað persónulegt. Það er svo fyndið að þegar ég klæðist fötum sem mér líður ekki alveg 100% vel í þá sést það. Ég er einmitt að velja og máta föt fyrir tískuvikuna og er núna með tvö sett af fötum sem mér finnst alveg geggjuð og mér líður vel í.  Þá veit ég að ég hef hitt á stílinn minn.“

Afhverju að vinna við tísku?

„Ég fann mjög snemma í lífinu hvað skapið breyttist þegar mér leið ekki vel í því sem ég klæddist. Ég elskaði að máta föt og fá nýjar hugmyndir um hvernig væri hægt að setja þau saman og langaði svo að vinna við það.“

Þú ert fyrrverandi tískuritstjóri Costume en hvað gerir þú núna?

 „Ég er stílisti og áhrifavaldur með umboðsskrifstofu í Mílanó. Svo er ég listrænn stjórnandi, ásamt Jeanette Madsen, á Rotate Birger Christensen sem er nýtt kjólamerki sem kemur í búðir í nóvember.“

Jeannette Madsen, Þóra Valdimars og Emili Sindlev í New York.

 Hvernig nýtir þú miðil eins og Instagram í þínu starfi? Finnst þér erfitt að greina á milli vinnunnar og persónulega lífsins á samfélagsmiðlum og ertu með einhverjar reglur sem þú fylgir þegar kemur að því?

 „Instagram er vinnan mín og gluggi milli mín og heimsins, ef maður getur sagt það. Fólk sér mig og vinnuna mína á Instagram og það eru margir sem bóka mig í vinnu í gegnum þann miðil. Ég er alltaf að reyna að setja mér reglur en það hefur ekki tekist vel. Ég reyni að vera ekki í símanum á kvöldin þegar sonur minn er vakandi.“

 Hvað mundir þú ráðleggja öðrum sem vilja feta í þín fótspor innan tískuheimsins?

„Ég myndi ég hugsa vel út í að tískuheimurinn er stór heimur með marga möguleika. Það er mikilvægt að kynna sér þá áður en maður velur það sem maður hefur áhuga á og er góður í.Ég myndi mennta mig vel og svo er mikilvægt að kynnast fólkinu sem vinnur í þessum heimi, til dæmis með því að komast að í starfsnám.“

Þú býrð í Danmörku en hvert er samband þitt við Ísland?

 „Ég á íslenska foreldra, þannig að öll fjölskylda mín er íslensk. Ég hef alltaf komið mikið til Íslands, sérstaklega þegar ég var yngri og var hjá ömmu minni. Ég flutti til Danmerkur með fjölskyldunni þegar ég var fjögurra ára en tala alveg íslensku og get skrifað hana, með fullt af villum!“

View this post on Instagram

?

A post shared by Thora Valdimars (@thora_valdimars) on

Uppáhaldstrend fyrir haustið?

„Ég elskaði sýninguna hjá Calvin Klein fyrir haustið og veturinn, myndi helst vilja klæðist bara því í vetur.“

 

5 flíkur sem þig langar til að bæta inn í fataskápinn í haust?

Skór frá Midnight 00

Pels à la Carrie Bradshaw í Sex and the City

„Workwear“ buxur

Fullt af fallegum kjólum

Dior Saddle bag

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.