Rúrik Gíslason á forsíðu Glamour

Glænýtt og sjóðandi heitt tölublað Glamour hefur litið dagsins ljós en í fyrsta sinn í sögu blaðsins prýðir karlmaður forsíðuna. Og enginn annar en maðurinn sem heillaði heimsbyggðina á HM í Rússlandi í sumar, knattspyrnumaðurinn Rúrik Gíslason.

Nýi hjartaknúsari Íslands. Kyntáknið eftir HM. Lítið þekktur íslenskur knattspyrnumaður verður samfélagsmiðlastjarna á einni nóttu.

Þetta er brot af þeim fyrirsögnum sem koma upp þegar nafn knattspyrnumannsins Rúriks Gíslasonar er slegið inn í leitarvél Google og sýnishorn af fréttaflutningi margra stærstu miðla heims af skjótri heimsfrægð kappans eftir fyrsta leik Íslands á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Rússlandi í sumar. Leikinn gegn Argentínu á stóra sviðinu í Moskvu þar sem Rúrik kom inn á 63. mínútu og stal senunni. En hver er hann eiginlega?

Glamour fékk tækifæri til að hitta Rúrik á sínum heimavelli, í Þýskalandi þar sem hann sýndi sínar bestu hliðar fyrir ljósmyndarann Baldur Kristjáns. Þá var einnig tekið viðtal við knattspyrnumanninn þar sem hann talar um instagramfrægðina, fótboltann, femínisma, gróu á leiti og framtíðina.

„Það að eiga fjölskyldu sem styður við bakið á þér og hvetur þig áfram í því sem þú vilt gera er ómetanlegt. Þetta er mjög harður heimur, fótboltaheimurinn, og það er ekki að ástæðulausu að margir fótboltamenn þróa með sér kvíða eða þunglyndi og það er ekkert allra að vera atvinnumaður í fótbolta. Og ég pældi aldrei í þessu hér áður fyrir, andlegu hliðinni, maður var bara að spila fótbolta, ekkert flóknara en það. En svona í seinni tíð hef ég aðeins verið þjálfa mig í þessu markvisst,“ segir Rúrik meðal annars í viðtalinu. 

Trendbiblía Glamour fyrir haustið og veturinn er á sínum stað – glæsilegt innlit – áhugaverð umfjöllun um viðhorf landans til hönnunar og merkjavöru og eftirlíkinga – fegurðarkaflinn á sínum stað!

Þetta og margt margt fleira í glæsilegu blaði sem enginn má missa af!

Glamour er komið í allar helstu verslanir en hægt er að tryggja sér áskrift og fá það sent heim hér!

1 Comment

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.