6 fegurðarráð frá Isabel Marant

Franski fatahönnuðurinn Isabel Marant er þekkt fyrir afslappað útlit og að vera mikill töffari. Fatamerki hennar hefur verið eitt það vinsælasta síðustu ár, með flíkum sem auðvelt er að klæðast, með smá bóhem-ívafi. Nú hefur hún gert förðunarlínu í samstarfi við L’Oreal, og deilir hennar helstu fegurðarráðum með Vogue.

„Franskar stelpur láta eins og þær hugsi ekkert um hvernig þær líta út, en þær gera það, mjög mikið,“ segir Isabel í viðtalinu.

Þegar kemur að förðun, þá snýst þetta allt um jafnvægi.

Ég elska varaliti, sérstaklega eldrauðan með stóru brosi. Það er besta leiðin til að komast í gott skap, sérstaklega ef húðin er ekki upp á sitt besta. Jarðlitaðir augnskuggar eru einnig frábærir, sérstaklega á sumrin þegar maður er með smá brúnku. En fyrir mig, þá eru það annað hvort augu eða varir, aldrei bæði. Það er of mikið.

Hafðu hárið laust og vertu sátt við ófullkomleikann.

Þegar þú setur hárið þitt upp, leystu það svo aðeins svo það líti ekki fyrir að vera of fullkomið. Franskar konur vinna mikið með að hafa hlutina ófullkomna, og það er stærsti munurinn á okkur og amerískum konum. Við erum slakari. Ég fer ekki einu sinni í klippingu lengur, ég sný höfðinu bara á hvolf og klippi það.

Borðaðu með gleði og heiðarleika.

Fegurðin byrjar að innan. Ef þú hugsar vel um sjálfa þig, þá þarftu bara góðan varalit og kinnalit. Maður þarf ekki mikla málningu þegar undirlagið er gott. Fyrir mig, þá byrjar það með eldamennsku, en ekki of mikilli, og að njóta þess að borða. Ég borða einfaldan mat, salat með fersku grænmeti, góðri ólífuolíu, dressingu með sítrónusafa og smá salti. Það þarf ekki að eyða miklu í krem, eyddu frekar í betri og réttari mat. Ég elska líka að drekka gulrótarsafa. Vítamínið gerir mikið fyrir brúnkuna, þú þarft ekki einusinni að eyða tíma í sólbaði.

Hugsaðu vel um þig á laugardögum.

Ég fer aldrei í andlitsmeðferðir eða fer í dekur, ég hef engan tíma og ég þoli ekki þegar fólk snertir mig. Það sem ég geri er að á hverjum laugardegi fer ég í bað og bý til mitt eigið dekur. Ég set lavander-dropa í baðið og skrúbba líkama minn. Ég lita augabrúnir mínar á sama tíma, því ég treysti ekki neinum öðrum í það.

Leggðu áherslu á hreyfingu.

Líf mitt er mjög stressandi, svo ég syndi mikið til að hreinsa hugann. Ég hafði verið í jóga, en ég varð þreytt á því að kennarinn talaði stanslaust við mig. Ég syndi því þar get ég hlustað á mína innri rödd. Ég reyni að synda á hverjum degi í hálftíma. Það er minn tími.

Verum þakklát fyrir að eldast.

Ég lita ekki á mér hárið. Ég er með grá hár, þannig er lífið. Maður verður að vita að maður verði ekki ungur að eilífu. Brostu, vertu ánægð og taktu það sem lífið gefur þér. Einbeittu þér að góðu hlutunum og ekki hugsa of mikið um þá slæmu. Fegrunaraðgerðir? Ég myndi aldrei fara í þannig. En ég hef skoðun á því. Taktu í burtu, en aldrei bæta við. Það verður alltaf svo augljóst þegar einhverju er sprautað í.

Glamour/Getty

Hér er hægt að lesa viðtalið á Vogue.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.