Það getur verið erfitt að finna draumahúsið sem rúmar stóra fjölskyldu en INGA RÓSA HARÐARDÓTTIR, fyrrum auglýsingastjóri Glamour, og ÞÓR ÓLAFSSON, stálsmiður og eigandi Suðulistar, duttu niður á gullmola í 105 Reykjavík sem er eins og að vera í sveit í miðri borginni. Við stóðumst ekki mátið og fengum að kíkja inn í þessa vin í höfuðborginni, þar sem án efa er hægt að slá upp góðri garðveislu, þegar veður leyfir.

Inga Rósa Harðardóttir

Hvað er húsið stórt? Húsið er 140 fermetrar en með mikla möguleika til að stækka. Eitthvað sem við höfum hugsað okkur að gera í framtíðinni og erum þegar byrjuð í þeirri hugmyndavinnu. Þegar maður er með svona hús þá eru möguleikarnir miklir og okkur finnst sem betur fer gaman í framkvæmdum enda fylgir það svona eign.

Hvað hafið þið búið hér lengi? Ég hef lengi verið fasteignaperri og er alltaf að skoða og datt óvænt niður á þetta hús korter í páskafrí í fyrra. Við skoðuðum en þurftum að hugsa okkur um enda þurfti ýmislegt að gera. Við tókum svo stökkið og ég sé ekki eftir því núna.

Hvað heillaði ykkur við húsið? Lóðin sem slík er umvafin trjám sem við erum gjörsamlega heilluð af, þetta er eins og að vera með sinn eigin skóg. Staðsetningin er fullkomin þar sem við erum í 105 Reykjavík en það eru 100 metrar í næsta nágranna. Það er mikill bónus að fá að vera svona prívat á þessum stað í bænum.

Hverju breyttu þið og hverju ekki í húsinu? Eldhúsið gerðum við alveg upp með hjálp Ikea. Við vildum gera eitthvað einfalt sem sömuleiðis passaði inn í húsið. Þór sá svo um að smíða allt stál og steypti eyjuna sem okkur finnst setja skemmtilegan svip á eldhúsið. Sameiginlegu rýmin voru alveg tekin í gegn, veggirnir voru að mestu hraunaðir og lausnin var að marmarasparsla þá. Það var heljarinnar vinna þar sem við gerðum það sjálf en vel þess virði. Í öllum framkvæmdunum fannst okkur báðum mjög mikilvægt að viðhalda frumleika hússins sem við heilluðumst svo mikið af.

Hver er uppáhaldsstaðurinn ykkar inni? Eldhúsið er hjarta heimilisins. Við erum miklir sælkerar og finnst báðum mjög gaman að elda. Okkur hefur alltaf langað í akkúrat svona eldhús, þar sem fjölskyldan situr saman og rædd eru öll heimsins mál á meðan eldamennskan fer fram og allir, smáir sem stórir, geta tekið þátt.

Hver er lykillinn að fallegu heimili að ykkar mati? Einfalt en hlýtt og með persónuleika. Við tókum samt áhættu með liti á veggina, að mála í dekkri litum en við erum vön og taka loftið með sem við erum mjög glöð með í dag. Ég mæli með að fólk prófi að mála heimilið í litum. Það getur breytt heilmiklu.

Hvernig mynduð þið lýsa ykkar stíl? Við rokkum svona á milli kántrís og antíkur en höfum verið að bæta í hráa stílinn núna því heimilið verður svo flott með hráum hlutum í takt við náttúruna sem umvefur húsið á alla kanta.

Hvar fáið þið innblástur heima fyrir? Ég myndi segja að tengdamamma mín gefi okkur endalausan innblástur því að hún er mikill fagurkeri.

Hefur stíllinn breyst í gegnum tíðina? Nei, stíllinn hefur kannski ekki breyst en þroskast mikið og ég þakka bara fyrir hvað við erum samstillt þegar kemur að innkaupum fyrir heimilið. Við erum sjaldan ósammála þegar kemur að því að bæta nýjum munum inn á heimilið.

Hvar kaupið þið helst hluti fyrir heimilið? Tekk Company, Fakó, Norr11 og Ikea eru búðir sem við höldum upp á. Við höfum líka fengið falleg húsgögn í arf frá fjölskyldunni. Svo er það ekki amalegt að ef við finnum ekki það sem við erum að leita að og bráðvantar þá hefur Þór bara tekið upp á því að smíða það, eins og hann gerði til dæmis með borðstofuborðið okkar. Það eru sko heldur betur forréttindi.

Er það eitthvað sérstakt sem þið eruð að safna? Við erum með tvær prentara­ skúffur hangandi og í hvert sinn sem við förum til útlanda kaupum við litla hluti í skúffuna sem minna okkur á ferðalagið og áfangastaðina.  Okkur finnst alltaf spennandi að bæta við krossasafnið sem Þór byrjaði að safna sem ungur strákur með mömmu sinni á antíkmörkuðum um allan heim. Svo söfnum við líka krukkum, stórum sem smáum.

Uppáhaldshlutir? Persónulegir hlutir sem foreldrar okkar hafa gefið okkur sem eiga sína sögu eru í miklu uppáhaldi. Geyma góðar minningar um fólkið manns og lífið.

Draumahlutur sem þið væruð til í að bæta inn á heimilið? Málverk eftir Tryggva Ólafsson listamann eru á óskalistanum og munu án efa prýða nokkra veggi heimilisins áður en langt um líður ef ég fæ einhverju ráðið. Svo læt ég mig líka dreyma um Elephant Chair frá Norr11.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.