Zoe Kravitz er trúlofuð

Leikkonan Zoe Kravitz segir frá trúlofun sinni og leikarans Karl Glusman í nýjasta blaði Rolling Stone, en þar er forsíðuviðtal við hana. Parið var þó ekki að tilkynna trúlofunina neitt formlega, því þau hafa víst verið trúlofuð síðan í febrúar.

Blaðamaður Rolling Stone spurði hana út í hringinn sem hún var með á fingri. „Ó, já, ég er trúlofuð,“ svaraði hún. „Við höfum ekki sagt neinum það, eða ég meina, við höfum ekki sagt heiminum frá því. Mig langaði að halda því fyrir okkar nánustu.“

Glamour/Getty

Karl hafði víst ákveðið að biðja hennar í París, en þeim tókst illa að finna tíma til að hittast. Karl ákvað þá að kveikja á kertum inni í stofu, með tónlist Nina Simone undir. „Ég var í joggingbuxum, og ég held ég hafi verið svolítið drukkin. Mér fannst hann eitthvað stressaður, svo ég spurði hvort það væri í lagi með hann,“ svo segir hún frá í viðtalinu. „Þá fór hann niður á hnéð, og ég hélt hann væri að teygja úr sér. Svo áttaði ég mig á því hvað hann væri að gera.“ Zoe segir einnig að hún hafi elskað að þetta hafi átt sér stað á heimili þeirra.

Parið hittist fyrst fyrir um tveimur árum í gegnum sameiginlega vini. Karl hafði þá verið skotin í Zoe í nokkurn tíma. Vinir þeirra skipulögðu kvöld á bar sem þau mættu bæði á, og endaði kvöldið svo að þau kysstust heima hjá Zoe. Karl flutti svo inn stuttu síðar. „Ég get verið skrýtnasta útgáfan af sjálfri mér í kringum hann. Það er svo róandi og gott að geta verið maður sjálfur.“

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.