Fóru aðrar leiðir í fyrirsætuvali

Hlín Reykdal er mörgum íslendingum kunn en hún hefur starfað í tískuheiminum síðan árið 2010. Í dag rekur hún sína eigin verslun á Granda sem býður upp á skartgripi og gjafavörur. Þar selur hún sína eigin hönnun en er einnig með aðrar íslenskar hönnunarvörur og vörur frá Englandi, Ítalíu og Bandaríkjunum. Nú kynnir hún nýja línu til leiks, Crown by Hlín Reykdal, sem er innblásin af kórónum í gegnum tíðina.

„Línan inniheldur átta týpur af eyrnalokkum og er þetta stærsta lína sem ég hef hannað hingað til. Línan einkennist af svörtum, gylltum og bleikum litatónum,“ segir Hlín í samtali við Glamour og segir innblástur línunnar hafa upphaflega komið frá kórónum. „Ég skoðaði kórónur langt aftur í tímann.“

Myndir/Anna Maggý

Hlín tengir línuna sína við íslenskar samfélagsmiðlastjörnur. Þegar kom að því að mynda línuna vildi hún fara aðra leið í fyrirsætuvali en áður og var hún og Anna Maggý, ljósmyndari, sammála um hvaða leið þær ætluðu að fara. „Anna Maggý er mikill snillingur og hefur fylgst náið með ferli þessarar línu frá upphafi. Ég talaði mikið um innblástur línunnar við hana og þá fannst okkur vel við hæfi að mynda samfélagsmiðlastjörnur. Anna er mikill listamaður, svo myndirnar eru listrænni og öðruvísi þeim sem maður sér á samfélagsmiðlum.„

Crown by Hlín Reykdal er frábrugðin öðru sem hún hefur gert áður. Hlín hafði aldrei hannað og framleitt eyrnalokka áður svo hún var ákveðin í að gera það í þessari línu. Í línunni er skart kjörið fyrir tímann sem er framundan. „ Línan er frekar svört, með dass af gulli og bleiku. Það er mikill partýfílíngur!“

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.