Hönnuðurinn Tom Dixon var á ferðalagi fyrr á árinu til að kynna sína nýjustu línu, sem samanstendur af ljósum, textíl og minni fylgihlutum. Tom er sjálflærður, hætti í skóla 18 ára gamall og ákvað að elta drauma sína í tónlistarbransanum. Síðar lærði hann að logsjóða og fór að búa til húsgögn. Í dag er hann þekktastur fyrir sín fallegu og sérstöku ljós, sem hafa verið vinsæl meðal Íslendinga. Glamour fékk að hitta þennan heimsfræga hönnuð í Reykjavík og spurði hann út í hönnunarstuld, tískubylgjur og mikilvægi þess að vera forvitinn.

 

Fræg ljós eftir Tom Dixon.

Þú leggur sífellt meiri áherslu á aukið vöruúrval. Finnst þér að viðskiptavinir þínir vilji kaupa sig inn í einhvers konar Tom Dixon heim? Nei, ég held að fólk í dag kaupi ekki heilu línurnar eða útlit, hvort sem það er í tísku eða innanhússhönnun. Það vill blanda hlutum saman. En ég held að ef þú sért með sterkar skoðanir og afgerandi stíl þá hafi fólk meiri trú á því fyrir hvað þú stendur.

Kosturinn við að gera minni hluti og fylgihluti er sá að þú nærð til fleira fólks, sem hefur ekki efni á stórum stól eða lampa, eins og yngra fólk og fólk sem hefur minna á milli handanna. En svo hef ég líka sífellt meiri áhuga á því óáþreifanlega við hönnun. Eins og hljóði, lykt og birtu, sem snýst meira um að upplifa rýmið. Ekki bara um form eða þægindi, heldur tilfinninguna sem þú færð og það sem gerir hönnunina áhugaverða frá öðrum hliðum. Textíllinn er áhugaverður því þá færðu tilfinningu fyrir fleiri litum og mýkt. Svo að á endanum snýst þetta ekki um að neyða fólk til að kaupa heilan heim, heldur úrvalið sem það getur valið úr í mínum afgerandi stíl.

Svo þú vilt reyna að ná til fleira fólks? Það heldur okkur áhugaverðum, og viðheldur áhuga okkar, að geta boðið upp á breiðara úrval. Í dag virkar þetta þannig að þú ert söluaðili með mörg merki, eða að þú ert með merki og þá með mjög takmarkað vöruúrval. Þú getur verið sérhæfður í borðbúnaði, eða lýsingu, og mér hefur alltaf fundist það mjög takmarkað. Eins og með tískuheiminn, þar skapa merkin sinn eigin heim, aðallega í gegnum verslanir sínar, auglýsingar og tískusýningar. Þeir vilja skapa heim sem allir þekkja. Ég held að ef þú  bjóðir upp á breiðarað vöruúrval þá verði það sem þú stendur fyrir skýrara.

Glamour/Getty

Hvert er hönnunarferlið á bakvið nýja línu eins og þessa? Það er aldrei eins og ekki bara eitt ferli. Hönnunin sprettur oft út frá óánægju, einhverju sem mér finnst vanta. Með þessari línu var ég að hugsa um ljósgjafann sjálfan og hvernig við skynjum hann á mismunandi hátt að degi eða nóttu. Ég er heillaður af því þessa dagana og hvernig okkur vantar stundum ljós, því að sumir hlutir eru mun áhugaverðari að næturlagi. Í nýju línunni eru hlutir sem er ætlað að vera ekki síður heillandi í dagsbirtu.

Ferðu ennþá niður á vinnustofu og býrð til hluti, eins og þú gerðir þegar þú varst að byrja? Það sem ég er að berjast við núna er að koma aðstoðarfólki mínu frá tölvunni og aftur á vinnustofuna, þar sem það skapar hluti. En þar sem nýja verslunin okkar og skrifstofur eru í London verður rými kallað Verksmiðjan (The Factory), þar geta gestir fylgst með öllum stigum hönnunarinnar, allt þar til fyrsta prótótýpan verður til. Ég er að þvinga hönnuðina til að tala við almenning og prófa sig áfram með hugmyndir, svo þetta er tilraun. Við ætlum að byrja á  ljósakrónum, færa okkur síðan yfir í keramikið og prófa okkur áfram með rafmagnshlutann í haust.

Hafa mörg af verkum þínum orðið til út frá mistökum? Já, ég er mikill aðdáandi mistaka.

En hvað með handverk? Finnst þér mikilvægt að viðhalda iðn- og handverki? Nei, ég er ekki heltekinn af handverkinu, ég hef jafn mikinn áhuga á því og ég hef á framleiðslu. Ég er ánægður með það sem ég hef búið til, en er jafn hrifinn af því að blanda stafrænni tækni við það handgerða. Fólk er oft dregið í dilka, annað hvort ertu fyrir þetta eða hitt. En það er svo áhugavert að í dag er aðgengið að ungum hönnuðum og handverki svo miklu betra, vegna Instagram, Etsy og Paypal til dæmis. Íslenskur hönnuður hefur tækifæri til að vinna með einhverjum sem getur leiserskorið, eða notað aðra tækni sem var ekki hægt að nálgast fyrir nokkrum árum. Þannig að ég held að línan á milli handverks og hátækni-iðnaðarins sé orðin mun fínni. Eins og með tónlistarheiminn, áður fyrr varðstu að vera með plötusamning til að koma tónlistinni á framfæri en nú þarftu bara að eiga fartölvu. Þessu fylgja auðvitað mörg vandamál, en þetta eru spennandi tímar fyrir unga hönnuði.

Hverju leitarðu að í ungu fólki? Ég leita að forvitni, og auðvitað kunnáttu og færni. En aðallega einhvers konar reynslu sem nær lengra en bara að hanna, mér líkar það þegar fólk hefur áhuga á einhverju öðru. Að vera heltekinn af einungis einni grein er mjög óhollt.

Hönnunarstuldur er algengur þegar kemur að ljósum þínum og annarri hönnun. Hvernig berst þú gegn því? Ég er raunsær þegar að því kemur. Það gerir okkur oft erfitt fyrir að selja til dæmis í Kína, því eftirlíkingarnar eru komnar út um allt, á hótel, veitingastaði og bari, og við lendum oft í miklum vandræðum út af því. Þú getur auðvitað drekkt þér í lögsóknum, en ég hef engan áhuga á því. Ég ákvað að gerast hönnuður, ekki lögfræðingur. Ég verð að hanna fleiri hluti, og skapa heim sem er erfiðara að líkja eftir. Það liggur ekki á því að taka þessa slagi, berjast fyrir einn og einn lampa, þó að við gerum það stundum, heldur liggur baráttan í því að kenna og skýra út fyrir fólki af hverju upprunalegi hluturinn er betri.

Finnst þér vörurnar þínar passa jafn vel í öllum löndum, eða finnst þér þær passa betur á sérstökum stöðum? Ja, það er áhugavert, því að mínir bestu hlutir eru eins og kameljón. Mér finnst alltaf gaman þegar hlutur virkar jafn vel innan um nýtískulega hluti og antíkmuni. Margir segja að ljósin mín séu mjög skrautleg og glansandi, en svo erum við einnig með vörur sem væru  sagðar mjög mínímalískar. Á Íslandi virðast allir eiga koparkúluna, svo það verður spennandi að sjá hvernig Íslendingar taka þeirri svörtu. Þið eruð svo umvafin svartamyrkri að ég hef mikinn áhuga á að komast að því hvort það þyki gott eða slæmt.

Færðu leið á hönnun þinni? Já, ég fæ mjög fljótt leið á vörum mínum. Á endanum fær það mig til að skapa eitthvað nýtt en það er svolítið erfitt að halda aftur af sér. Vandamálið núna er að það tekur svo langan tíma að framleiða og fá öll leyfi, það líður svo langur tími frá því við hönnum vöruna og þar til hún kemur í búðir. Ég er orðinn mjög þreyttur á því. Þetta tekur í kringum tvö ár. Ég var vanur því að búa eitthvað til og selja það samdægurs, svo að mér finnst þetta óþolandi. En við erum að reyna að leita leiða til að verða fljótari að þessu. Ætlunin er að leggja meiri áherslu á að gera en að skipuleggja.

Finnst þér þú þurfa að fylgja tískubylgjum? Ég held að það sé mjög hættulegt að fylgja tískubylgjum. Tískubylgjur eru svo sveiflukenndar, og núna er það þannig að allt gengur og ekkert, áhrifin koma úr öllum áttum. Fólk fær leiða mjög hratt, það er alveg ótrúlegt, svo það er nánast hættulegt að fylgja þessum bylgjum. Ef ég ætlaði að vera mjög snjall þetta árið þá myndi ég hanna eitthvað ljósbleikt, er það ekki? En fólk mun fá leið á því. Ég er að reyna að koma mér í þá stöðu að búa til mínar eigin tískubylgjur, það er það sem heimurinn vill í dag.

Hvert er þitt uppáhaldsverkefni? Ég veit það ekki, ég held í rauninni aldrei upp á neitt sérstakt. Fólk spyr mig hvert sé uppáhaldslandið mitt að heimsækja. Fyrir tveimur dögum var það Ísland, því ég hafði aldrei komið hingað. Ég vil ný ævintýri. Fólk spyr um uppáhaldsveitingastað, þá svara ég að það sé örugglega einhver sem ég hef ekki farið á áður. Forvitnin rekur mig áfram og það er alltaf eitthvað nýtt í uppáhaldi hjá mér en ekki það sem var. Nú hef ég til dæmis áhuga á raftækjum, því ég hef aldrei hannað síma eða sjónvarp. Ef ég horfi til baka sé ég bara það sem ég hefði getað gert betur.

Tom Dixon.
Mynd/Ernir Eyjólfsson. Frá sýningu Tom Dixon á Kex Hostel.
Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.