Ekki lengur hægt að kaupa sér vinsældir á Instagram

Hefurðu velt því fyrir þér afhverju sumir sem þú fylgir á Instagram fái gríðarlega mörg hjörtu (e. like) á myndir sínar upp úr þurru á Instagram? Það er þá ekki ótrúlegt að notast hafi verið við þjónustu þar sem hægt er að kaupa bæði fylgjendur, en líka láta virðast eins og ótal margir hafi líkað við myndina.

Stjórnendur Instagram hafa nú tilkynnt að á næstu vikum muni þeir banna þá fylgjendur og hjörtu sem er búið að greiða fyrir. Þetta er gert í því skyni að endurheimta traust á vinsælum notendum og auglýsendum á miðlinum, en það að borga fyrir þessar þjónustur hefur vaxið gríðarlega á stuttum tíma.

Glamour/Getty

„Við höfum nýlega séð notendur sem nota þjónustur þriðja aðila til að búa til fleiri fylgjendur,“ segir á vefsíðu Instagram. „Fólk fer á Instagram til að sjá raunverulegt fólk og að eiga raunveruleg samskipti. Það er á okkar ábyrgð að tryggja að það verður ekki eyðilagt með því sem er ekki alvöru.“

Instagram mun á næstu vikum fara í það að eyða út þessum óraunverulegu hjörtum, fylgjendum og athugasemdum, frá þeim Instagram-reikningum sem eru að notast við keyptar vinsældir. Þetta mun þó ekki hafa áhrif á eldri myndir þó að margir notendur myndu óska þess. Gömlu myndirnar sýna keypt hjörtu og athugasemdir, en ekki þær nýju, svo að munurinn gæti orðið vandræðalegur fyrir marga.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.