Sigrún Lind Hermannsdóttir og Sigurður Dagur Sturluson hafa bæði mikinn áhuga á tísku. Sigrún klæðist oft fötum af honum og eru það yfirleitt skyrtur og jakkar sem verða fyrir valinu. Þau eru sammála um að þau mættu vera duglegri að hreinsa úr fataskápnum. Glamour kíkti inn til þeirra fyrr í haust.

Hver eru Sigrún Lind og Sigurður Dagur? Við erum 24 ára og búum í Garðabænum í lítilli íbúð sem við keyptum okkur síðasta sumar. Við útskrifuðumst sem viðskiptafræðingar úr HR fyrir rúmu ári síðan.

Sigrún: Ég starfa sem fjármálastjóri hjá Húrra Reykjavík og stunda CrossFit þess á milli.

Dagur: Ég starfa í áhættuþjónustu hjá Deloitte í Kópavogi og spila körfubolta með Val.

Eigið þið ykkur uppáhaldsflík? Sigrún: Já, rúskinnskápu með loði sem ég keypti mér í fyrra í Spúútnik – er búin að nota hana ótrúlega mikið. Svo var ég að festa kaup á ljósbláum jakka úr gerviloði frá uppáhaldsmerkinu mínu, Han Kjøbenhavn. Hann er í miklu uppáhaldi þessa dagana.
Sigurður: Ef ég þyrfti að velja eina flík myndi ég velja Achilles Low skóna frá Common Projects. Á bæði svarta og hvíta og get notað þá við öll tilefni.

Hver er nýjasta flíkin í fataskápnum? Sigrún: Svartur Han Kjøbenhavn æfingagalli sem ég keypti í Húrra Reykjavík.
Sigurður: Svartur Stone Island langermabolur sem ég keypti í Húrra Reykjavík.

Eruð þið dugleg að hreinsa til í fataskápnum? Sigrún: Nei, eiginlega ekki, mætti vera mun duglegri.
Sigurður: Nei, tæmi bara þegar það er ekki lengur pláss.

Hver er uppáhaldsverslunin ykkar hér á landi? Sigrún: Ég er kannski lituð hér en það er klárlega Húrra Reykjavík.
Sigurður: Mér finnst Húrra Reykjavík vera á allt öðru leveli en flestar búðir hér heima.

Eruð þið safnarar?
Sigrún: Já – eins og ég sagði hér að ofan mætti ég vera mun duglegri að selja af mér flíkurnar.
Sigurður: Ég held að Sigrún safni meira en ég – hún á endalaust af skóm. Ég safna engu þannig séð, þarf bara að vera duglegri að losa mig við föt sem ég nota ekki.

Spáið þið mikið í liti þegar kemur að klæðaburði? Sigrún: Já, en ég er alls ekki hrædd við að blanda litum saman og finnst mjög gaman að klæðast áberandi litum.
Sigurður: Nei, ég myndi ekki segja það – ég klæðist alveg litum en ég held ég sé oftast í annaðhvort svörtu eða hvítu en mér finnst skemmtilegt að poppa upp klæðnað með einum skemmtilegum lit.

Hvaða flíkur eru það helst sem þið notið saman?  Sigrún: Aðallega peysur og jakkar. Ég stel oft skyrtunum hans líka.
Sigurður: Það sem Sigrún sagði – svo eigum við nokkrar hliðartöskur saman.

Myndir/Eyþór Árnason

Hvort ykkar eyðir meiru í föt? Sigrún: Klárlega ég.
Sigurður: Sigrún.

Er einhver litur eða samsetning sem þið gætuð aldrei klæðst? Sigrún: Aldrei að segja aldrei, ég er alls ekki hrædd við að blanda litum saman né einhverjum samsetningum.
Fyrir nokkrum árum hefði ég ekki farið í hælaskó við jogging-buxur en ég myndi klárlega gera það í dag – tískan er alltaf að breytast og þess vegna vil ég ekki fullyrða eitthvað.
Sigurður: Sama og Sigrún segir, þá á maður aldrei að segja aldrei, en í dag myndi ég alls ekki fara í gallabuxur og bleiser saman.

Hvort aðhyllist þið „less is more“ eða „more is more“ stílinn? Sigrún: More is more.
Sigurður: Less is more.

Hvað er það verðmætasta sem þið eigið? Sigrún: Ætli það sé ekki silfurlitaður Mads Norgaard leðurjakki sem ég fékk mér fyrir sirka 2 árum. 
Sigurður: Líklega Off-White hliðartaskan mín.

Hvaða hlutur hefur mesta þýðingu fyrir ykkur? Sigrún: Dettur engin flík í hug en ég er alltaf með gamla giftingarhringinn hennar mömmu á mér. Inni í honum stendur „Þinn Hermann“, sem er pabbi. Hann hefur mikla þýðingu fyrir mig.
Sigurður: Gömul körfuboltatreyja sem bróðir minn spilaði í, ég nota hana ekki en er með hana rammaða inn. Hann lést fyrir 18 árum.

Spáið þið mikið í umhverfisáhrif fataiðnaðarins? Sigrún: Já, ég myndi segja það að vissu leyti, ég hins vegar kaupi mér mikið af fötum og geri mér 100% grein fyrir að tískuiðnaðurinn er einn mest mengandi iðnaður í heimi. Ég spái mikið í hvaðan flíkurnar koma og reyni að forðast að kaupa mér flíkur frá stórum keðjum þar sem offramleiðsla er mjög mikil.
Sigurður: Já, ég reyni að kaupa mér ekki mikið af fötum heldur eltist ég frekar við gæði í fatavali. Frekar kaupi ég færri flíkur sem ég veit að endast vel.

Er mikill munur á „vinnufataskápnum“ ykkar og því sem þið klæðist dagsdaglega? Sigrún: Ég vinn í Húrra Reykjavík þannig að ég klæðist fötum þaðan nánast daglega og það sama geri ég þegar ég er ekki í vinnunni. Þannig að nei, ég myndi segja að það væri enginn munur á því hverju ég klæðist í vinnu eða dagsdaglega.
Sigurður: Já, það er „dress-code“ í vinnunni hjá mér en utan vinnu er ég mun meira kasjúal.

Skipta þægindi ykkur máli eða er það bara „beauty is pain“? Sigrún: Hjá mér skipta þægindi miklu máli, ég þoli ekki að klæðast óþægilegum fötum og hvað þá óþægilegum skóm. Ég hef brennt mig á að kaupa föt eða skó sem eru óþægileg en þá enda þau bara aftast í fataskápnum og ég nota þau aldrei.
Sigurður: Þægindi skipta mig miklu máli, mér verður að líða vel í því sem ég er í.

Í hverju líður ykkur best?
Sigrún: Það mætti orða sem svo að ég sé ekki mjög „dömuleg“ og er mikið í jogging-buxum og peysum og myndi segja að mér líði langbest í því. Og já, ég er líka mjög mikið í strigaskóm.
Sigurður: Í nýjum fötum.

Greinin birtist fyrst í október/nóvember blaði Glamour 2018.

Myndir/Eyþór Árnason
Off-White hliðartaskan er í miklu uppáhaldi.

Sigurður Dagur og Sigrún Lind

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.