Draumur að vera staddur í Reykjavík

Svefn, eins og við flest öll vitum, er nauðsynlegur. Rúmið spilar þar auðvitað mikilvægt hlutverk og er það staður sem okkur á að líða vel á, og enn betra ef það er fallegt á sama tíma. Tekla Fabrics er danskt textílfyrirtæki sem sérhæfir sig í rúmfötum, teppum og öðrum heimilistextíl.

Tekla er nú komið til Íslands og verður fáanlegt í Norr11 á Hverfisgötu. Glamour ræddi við Charlie Hedin, einn stofnanda Tekla. Charlie þekkir textíl vel, en hann starfaði meðal annars hjá sænska fatamerkinu Acne Studios. Ásamt Charlie eru eigendur Acne og Ganni með honum í Tekla, svo hægt er að treysta því að vörurnar eru jafn fallegar og þær eru góðar.

Myndir/TEKLA

Afhverju vildirðu færa þig frá tísku yfir í heimilisvörur? Við höfðum alltaf mikla ástríðu fyrir innanhúshönnun, og hvernig á að setja saman heimili svo það hafi jafnvægi án þess að verða leiðinlegt. Þegar við fórum af stað með Tekla þá var ekkert textílmerki sem við náðum til. Okkar speki er sú að það á að vera hægt að búa til einstakt heimili með okkar vörum, við ætlum ekki að segja þér hvernig þú átt að gera það en bjóða upp á vörur sem hjálpa þér, en svo er þetta undir þér komið hvaða hluti þú setur saman.

Hvaða þrjú atriði eru mikilvægust hjá Tekla? Við leggjum mikla áherslu á falleg gæði, vel samsetta litapalletu og umhverfi og sjálfbærni.

Hvert er leyndarmálið á bakvið góðan nætursvefn? Finndu gæðamikil efni sem henta þínum líkama vel. Það er mjög persónulegt hvernig fólk vill sofa. Hafðu svo gott hitastig í herberginu.

Hvaða vöru verður maður að eignast? Fyrir utan lífrænu bómullarrúmfötin, sem mér finnst persónulega besta efnið til að sofa með, þá elska ég sloppana okkar. Þeir eru stórir og eru fullkomnir heima við en einnig þegar ég fer í sjósund og vetrarböð.

Hvernig sérðu Tekla fyrir þér eftir tíu ár? Það er erfitt að segja, ég vona bara að við getum boðið upp á fleiri frábærar vörur með tímanum og unnið með frábæru fólki. Við verðum líka að halda áfram að þróa vörur sem skipta máli á heimilum fólks. Það er draumur að vera staddur hér í Reykjavík, en mig dreymir líka um að geta farið með Tekla til Asíu einn daginn.

Charlie verður staddur í Norr11 í kvöld þar sem hann kynnir Tekla fyrir Íslendingum. Sjá viðburðinn hér.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.