Viðtal: Kristjana Guðbrandsdóttir

Ólöf Jara Skagfjörð býr í New York en síðustu misseri hefur hún haft aðsetur á Akureyri þar sem hún fer með eitt aðalhlutverka í Broadway-söngleiknum Kabarett í leikstjórn Mörtu Nordal. Sjálfsmyndin beið hnekki vegna erfiðleika í fjölskyldunni. Í dag býr hún að betri sjálfsþekkingu og dýpri tengslum við vini og fjölskyldu. 

Ólöf Jara unir sé vel á Akureyri. Hún býr í innbænum, ekki fjarri leikhúsinu og finnst gott að hafa útsýni til hafs.

„Ég bjó hér á Akureyri þegar ég var tveggja ára en þaðan flutti fjölskyldan til Kópavogs þar sem ég eyddi æsku -og unglingsárum. Við erum þrjár systurnar sem erum nú sameinaðar hér í bænum. Ein systir minna býr hér með fjölskyldu sinni og önnur systir mín ákvað að koma hingað og vera með okkur,“ segir Jara frá og segist njóta þess að eiga góðar stundir með þeim hér á landi enda hefur hún búið í New York í nærri sjö ár. 

Ólöf Jara útskrifaðist frá Circle in the Square Theater School árið 2014. Í leiklistarskólanum er lögð sérstök áhersla á söngleiki og tónlist.  Foreldrar hennar eru Valgeir Skagfjörð og Guðrún Gunnarsdóttir. Hún á því ekki langt að sækja hæfileika sína.

„Öll mín æskuár snerust um tvennt, fótbolta og tónlist. Ég æfði með Breiðabliki, við tókum Íslandsmeistaratitil og um tíma var ég einbeitt í því að gera fótbolta að atvinnu minni.“ 

Tónlist og leiklist höfðu vinninginn. „Þegar ég var lítil þá voru mamma og pabbi mikið í leikhúsinu. Ég ætlaði að verða eins og þau. Svo hætti mér að þykja það spennandi.

Ég ætlaði líka um tíma að verða sálfræðingur og á enn öðrum tíma vildi ég starfa í fjölmiðlum. En þegar ég fór á Verslósöngleiki síðustu ár í grunnskóla þá varð ég alveg heilluð. Ég ákvað að læra í Verslunarskólanum og þar tók leiklistarbakterían alveg yfir,“ segir Ólöf Jara. 

„Ég hef samt líklega alltaf haft hana í blóðinu. Mamma vann ógurlega mikið og var líka í fjölmiðlum, pabbi vann oft heima við. Mér fannst þetta eðlilegt þá. Fannst við vera venjuleg fjölskylda. Ég sé það núna að fjölskyldulífið var kannski ekki beint hefðbundið. Við erum öll svolítið æst og orkumikil, það eru læti í okkur öllum í fjölskyldunni.“

Á unglingsárum sökkti Ólöf Jara sér í félagslífið. Í Verslunarskólanum tók hún þátt í hverjum einasta söngleik sem var settur upp. „Ég passaði mig á því að vera alltaf upptekin. Það er minn akkilesarhæll í lífinu. Ég er eirðarlaus og uppfull af orku. Ég þarf að fá útrás fyrir hana, ef ég fæ hana ekki þá fyllist ég doða og leiða. Svona hef ég alltaf verið. Ég var sex ára þegar ég fékk skólaleiða, ég var nýbyrjuð í skóla!“ Segir Ólöf Jara og skellir upp úr. „Mér fannst bara allt í hægagangi, ég var búin að læra að lesa og leiddist í tímum á meðan var verið að kynna stafrófið.“ 

Ólöf Jara segist vita og finna að það er einmitt þessi orka sem knýr hana áfram í leikhúsinu. „Ég verð alltaf að vera að gera eitthvað nýtt og krefjandi. Ég vil alltaf vera að glíma við eitthvað.“

Faðir hennar, Valgeir Skagfjörð, var alinn upp við erfiðar aðstæður og ofbeldi. Amma Ólafar Jöru var alkóhólisti og æskuheimili föður hennar ótryggur staður. Hann hefur undanfarið rætt opinskátt um líf sitt. Ólöf Jara segist sannfærð um að þótt að það sé erfitt að segja frá jafnviðkvæmum hlutum geti það leitt til góðs fyrir aðra í svipuðum aðstæðum. 

„Ég vissi ekki hvað hefði átt sér stað. Bara að amma væri mjög veik og glímdi við alkóhólisma. Við vissum líka að pabba leið ekki vel sem barni. Honum hefði verið mikið strítt. Hann er náttúrulega dökkur yfirlitum og og leit öðruvísi út en jafnaldrar sínir. En ég veit að það er heilandi að tala um hlutina, losa um þá. Til að halda áfram. Pabba líður betur. Ég held að það geti líka verið heilandi fyrir aðra sem lesa og eru í svipuðum erfiðleikum,“ segir hún. 

„Samband mitt og pabba er gott. Við erum bæði heimspekilega þenkjandi. Eigum gott með að ræða um allt milli himins og jarðar. Okkur finnst gaman að spjalla um það sem er svona undir yfirborðinu,“ segir hún. 

Myndir/Eyþór Árnason

Hún og móðir hennar, Guðrún eru einnig afar nánar. 

„Við erum svo líkar. Þegar ég kem hingað til lands frá New York og er heima hjá henni þá er svolítið fyndið hvað við erum í takt. Við erum báðar morgunglaðar. Við vöknum snemma, glaðar og erum bara til í slaginn og daginn. Það er alltaf mjög gaman hjá okkur og hún styður mig mikið. Og nú þegar ég er orðin fullorðin þá vil ég líka styðja hana í hverju sem er. Samband mitt við foreldrana hefur breyst,“ segir Ólöf Jara. 

Foreldrar Ólafar Jöru skildu þegar hún var komin á tvítugsaldur. Hún segir skilnaðinn hafa tekið á þótt hún hafi í raun verið orðin fullorðin.   

„Mamma og pabbi skildu eftir langt samband. Þessi fyrstu þrjú ár eftir að þau skildu, ég man eiginlega bara mjög óljóst eftir þeim. Ég fékk svo mikið sjokk. Sjálfsmyndin beið hnekki. Maður týnir sér svolítið þegar svona grunnstoð er tekin í burt. Partur af sjálfsmyndinni farinn og maður þarf að byggja eitthvað upp í staðinn. En á sama tíma var þetta gott fyrir alla. Þetta hristi upp í okkur. Áður var ég ekki að hugsa mikið um tengsl mín. Samband mitt við systur mínar varð sterkara, dýpra. Við urðum nánari og betri vinkonur. Það sama á við um foreldra mína, ég sá þau sem manneskjur. Ég held að það sé stórt skref í þroska allra þegar maður sér foreldra sína sem manneskjur,“ segir Ólöf Jara.  „Allt í einu skilur maður heiminn betur. Hvað foreldrar manns þurfa að ganga í gegnum. Nú er ég orðin eldri en mamma þegar hún átti mig. Hugsa sér!“

Ólöfu Jöru fannst á þessum tímapunkti góð tilhugsun að flytja út til að læra leiklist. Bæði var hún haldin ævintýraþrá en undir niðri vildi hún líka  komast lengra frá erfiðleikum fjölskyldunnar. Hún valdi New York og skólann Circle in the Square Theatre School eftir góð meðmæli frá Íslendingum sem hafa lært í skólanum. „Ég keypti mér flugmiða og um leið og ég steig fæti niður í New York þá leið mér eins og ég hefði alltaf átt heima þar. Ég hugsaði: Hér mun mér aldrei nokkurn tímann leiðast. Orkan í borginni fannst mér ríma við eitthvað innra með mér,“ segir Ólöf Jara. 

Ólöf Jara segir fyrstu árin hafa verið erfið. „Hrikalega erfið, jafnmikið og ég elskaði að vera þarna. Þá er það mikið sjokk að flytja frá litla Íslandi og í stóra stórborg. Tala annað tungumál, finna út úr kúltúrnum, komast á milli staða. Þetta var allt svolítið mikið í einu, segir hún.  

Jólum eyddi Ólöf Jara fjarri fjölskyldunni úti í New York. „Jólin breyttust svo mikið. Auðvitað voru þau ekki eins eftir skilnað foreldra minna. Nostalgían hvarf algjörlega. Ég fór líka að horfa öðruvísi á hátíðahöldin heima á Íslandi. Þetta er öðruvísi úti, afslappaðra.  Fólk er svo stressað heima, öll jólahlaðborðin, þessar gríðarlegu fjárhæðir sem fara í jólagjafir, það eru kröfur úr öllum áttum.  Fólk er að steypa sér í skuldir til að gefa rándýrar gjafir og halda úti glæstri mynd. 

Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað þetta er erfið hátíð fyrir þá sem passa ekki inn í þessa mynd. Og kapítalisminn sem ræður öllu. Auðvitað er aðventan falleg og notalegur tími. En það má ekki festa sig svona. Þetta fann ég mjög sterkt þegar ég var komin með fjarlægðina til að greina þetta,“ segir Ólöf Jara. 

Hún sér ekki eftir því að hafa flutt til New York. Þótt að hún skuldi himinhá námslán. 

„Ég sé ekki eftir þessu á neinn þótt. Nám erlendis er dýrt og það getur verið erfitt. En sannleikurinn er sá að það er ekkert mikið dýrara að vera í New York en Reykjavík. Það er allt svo dýrt á Íslandi. Bandaríkin hafa sína ókosti, stjórnmálaástandið hér, mér líst ekki á blikuna. En lífsgæðin eru svo mikil. Í New York hef ég efni á því að gera mér dagamun. Ég þarf ekki að sofa á því ef mig vantar flík. Ég hef efni á því að fara í leikhús og út að borða.“

Ólöf Jara býr í Jersey City. „Það er tíu mínútum frá Manhattan, hinum megin við Hudson ána. Hljóðlátt og fallegt hverfi þar sem samt er mikil borgarstemning. Fullt af veitingastöðum og verslunum en ekki jafn brjálað og í Manhattan,“ segir hún. 

Hún saknar samt margs frá Íslandi. „Vinkvenna minna, systra og fjölskyldu. Það er gott að eiga góða að. En stundum sakna ég líka sundlauganna. Það er erfitt að útskýra það fyrir heimamönnum. Ég sakna líka tónlistarlífsins heima á Íslandi. T.d. er leikhúsheimurinn og tónlistarheimurinn mun aðskildari og sérhæfðari úti en hér þar sem allir eru í öllu. Æi þetta skapandi frelsi sem er hér, það er varla hægt að færa það í orð.“

Ólöf Jara fer með hlutverk söngkonunnar Sally Bowles í verkinu Kabarett eftir Joe Masteroff. Sally starfar í Kit Kat klúbbnum í Berlín og árið er 1931. Sally og rithöfundurinn Cliff lifa og hrærast í skemmtanalífi Berlínar á meðan hryllingurinn eykst í kringum þá. 

„Áhorfendur vita hvert stefnir. Þau vita hvað gerist og þess vegna er verkið svo áhrifaríkt. Á meðan Sally vill halda áfram að njóta lífsins. Henni komi þetta ekki við, segir Ólöf Jara frá. 

„Sally er lík mér að mörgu leyti. Hún er líka að kenna mér ýmislegt. Hún er bjartsýn og orkumikil. Það var ekki langt að sækja það, segir hún og hlær. En hún er mikill nautnaseggur. Ég er ekki alveg þar. Er ekki mikill djammari. Finnst bara gott að vera heima ein eða með vinum og fjölskyldu að drekka te og spila,“ segir  hún. 

Hvernig sér hún framtíðina fyrir sér? 

„Ég var einu sinni alltaf með plan. Stóra planið. En nú er ég hætt því. Yfirleitt standast plönin ekki. Nú er ég bara opin og bíð bara eftir því sem gerist næst.  Ég tek því sem kemur. Einu sinni fannst mér erfitt að standa með sjálfri mér. Kem auðvitað úr meðvirkri fjölskyldu. En hægt og bítandi er ég farin að treysta heiminum. Treysta því að allt sé eins og það er. Fari eins og það fer.“ 

Myndir/Eyþór Árnason

Viðtalið birtist fyrst í desember/janúar blaði íslenska Glamour 2018. 

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.