Louise Josephine Bourgeois tengdi verk sín oft við barnæsku sína, fjölskyldu, og síðar kynhneigð og líkamann.  Verk hennar eru bæði súrrealísk og feminísk, en hún taldi það vera ákveðið lækningaferli að taka innblástur frá sinni eigin ævi.

Louise var fædd árið 1911 í París. Foreldrar hennar áttu gallerí sem sérhæfði sig í antík-vefnaði, og var vefnaður því alltaf stór hluti af hennar lífi, sem sýndi sig gjarnan í verkum hennar. Louise var þekkt fyrir sína stóru skúlptúra, en var þó mjög hugmyndaríkur málari. Á ferlinum kannaði hún mörg málefni, sem tengdust fjölskyldunni, kynhneigð, líkamanum, dauða og undirmeðvitundinni. 

Faðir hennar var mikill kvennamaður og hélt ítrekað framhjá móður hennar, Josephine. Þó Josephine hafi horft framhjá því að mestu leyti, hafði þetta mikil áhrif á æsku Louise og hennar verk síðar meir. Verk Louise voru oft kynferðisleg, með áherslu á þrívíð form og voru mjög sjaldgæf fyrir kvenkyns listamenn á þessum tíma.

Glamour/Getty. Maman.

Æska mín hefur aldrei tapað töfrum sínum, hún hefur aldrei misst ráðgátur sínar, og hún hefur aldrei misst dramatíkina,“ sagði Louise. „Öll mín verk frá síðustu 50 árum, allt mitt efni, hefur komið frá æsku minni.

Louise vildi styðja við bakið á ungum og upprennandi listamönnum. Í kringum árið 1970, á sunnudögum, bauð hún listamönnum í íbúðina sína í Chelsea í New York, þar sem hún gagnrýndi verkin þeirra. Þar gaf hún engum greiða, en unga fólkið lærði mikið. Áhrif hennar á aðra listamenn var þá mikill og er hægt að sjá það í listaverkum tengdum kvenlíkamanum frá þessum tíma. 

Eitt frægasta verk hennar er Maman, stór köngulóarskúlptúr úr stáli og marmara. Verkið er níu metra hátt, og er það stórt og breitt að það er aðeins hægt að sýna það úti. Verkið er hluti af listaverkaseríu sem Louise vann í á tíunda áratugnum. Verkið hefur flakkað út um allan heim, og verið sýnt meðal annars í London, Quatar, Spáni og Kanada. 

Louise Bourgeois árið 1996.

Köngulóin er lof til móður minnar. Hún var minn besti vinur. Eins og köngulóin, þá var mamma mín vefari. Fjölskyldan mín var í vefnaðarbransanum og móðir mín stjórnaði verksmiðjunni. Eins og köngulóin, þá var mamma mín mjög klár. Köngulær borða flugur sem dreifa sjúkdómum. Svo köngulær eru hjálplegar og verndandi, alveg eins og móðir mín.“

Maman í Hamborg.

Louise dó árið 2010, 98 ára gömul að aldri. Hún skildi gríðarlega mikið magn af verkum eftir sig, skúlptúra, málverk, skissur og efni sem hún hafði skrifað um ævi sína og æsku. Hún taldi listina vera sína leið til að lifa af, og að listin héldi sér með réttu ráði.

Louise með marmaraverki sínu titlað „Svefn, II“ (1957) árið 1983.
Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.