Finndu þína hillu

Það er mikið í boði þegar kemur að líkamsrækt og margir mikla það fyrir sér að prufa sig áfram í hinu og þessu. Indíana Nanna Jóhannsdóttir, heilsupenni og einkaþjálfari telur hér upp nokkra hluti sem skipta máli að séu til staðar þegar kemur að því að drattast af stað í ræktina góðu.

Indíana Nanna Jóhannsdóttir skrifar.

Að finna sína hillu þegar kemur að hreyfingu getur verið strembið, enda er um að ræða hafsjó af valmöguleikum: Tabata, spinning, CrossFit, HIIT-þjálfun, jóga, hópþjálfun, einkaþjálfun, fjarþjálfun og margt fleira. En það er eitt mjög jákvætt við þetta, það er margt í boði.

Þegar ég hætti í handbolta eftir 15 ára iðkun kunni ég nánast ekkert annað en að spila handbolta. Mataræði mitt var líka ennþá svolítið unglingalegt og innihélt aðeins of mikið af pítsu, bragðaref og nammi. Smátt og smátt fór ég þó að finna út úr þessu öllu saman. Ég keypti mér kort í ræktina og byrjaði að vera dugleg að mæta í hóptíma. Handbolti er frekar mikil keyrsluíþrótt og ég komst fljótt að því að æfingar á háu tempói hentuðu mér vel. Upp frá þessu byrjaði boltinn að rúlla, bæði hvað varðar hreyfingu og mataræði en þetta helst oftast í hendur. Mig langar að borða hollt þegar ég er dugleg að hreyfa mig, en á letidögum er ég mun líklegri til að detta í sukkið. Það hafa orðið miklar breytingar á mér á síðustu árum og sérstaklega miklar hugarfarsbreytingar tengt hreyfingu og mataræði. Nokkur atriði hafa skipt sköpum hvað þetta varðar. 

Jákvæður tilgangur
Ég er dugleg að hreyfa mig og borða almennt hollt því mér líður bæði líkamlega og andlega vel ef ég geri það. Ég fer t.d. ekki á æfingu bara til að brenna kaloríum eða til líta út á ákveðinn hátt. Ef maður sinnir sjálfum sér vel þá fylgja ósjálfrátt með ávinningar eins og að vera í góðu formi en helsti ávinningurinn er góð heilsa og góð andleg líðan, tilfinningin að vera sátt/ur með sjálfan sig.


Að taka ákvörðun
Það verður að taka einhverskonar ákvörðun, hvort sem hún er meðvituð eða ómeðvituð. Ákvörðun um að byrja að mæta á æfingar, breyta mataræðinu smátt og smátt, byrja í námi og svo framvegis. Þetta getur tekið langan tíma og þetta snýst kannski ekki um eitthvað eitt ákveðið augnablik, heldur getur þetta verið ákveðið tímabil sem maður gengur í gegnum þar sem maður er í einhverskonar ákvörðunartökuferli sem leiðir til breytinga.

Áhugi
Áhugi verður að vera til staðar ef þetta á að endast. Gerðu það sem þér finnst skemmtilegt á æfingu og borðaðu það sem þér finnst gott (en er gott fyrir þig í leiðinni). Ekki gera endalausar rassaæfingar sem þú sérð á Instagram ef þér finnst þær ekki skemmtilegar, finndu út úr því hvað það er sem þú vilt gera!

Gamla góða harkan
Maður getur ekki alltaf verið góður við sig og gefið sér afslátt. Það koma fullt af dögum þar sem mig langar ekkert sérstaklega mikið að hreyfa mig eða borða hollan mat. En af því að ég er búin að koma þessu í vana þá er auðveldara að harka sig í gegnum erfiðu dagana og ná frekar góðum degi þrátt fyrir litla orku eða lélegt dagsform.

Nú erum við komin ágætlega af stað inn í nýja árið. Kannski fórstu vel af stað, settir þér markmið og hefur náð að gera einhvers konar jákvæðar breytingar. Ef ekki þá er það bara þannig. Þú átt bara eftir að finna þitt móment. Við erum alltaf að fá fullt af tækifærum til að breyta og bæta okkur, prufum að nýta okkur þau og sjáum hvað gerist.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.