Dreymir um að leigja bústað á afskekktum stað á Íslandi

Það kannast flestir við andlitið á dönsku fyrirsætunni Helenu Christensen sem hefur prýtt forsíður tímarita og auglýsingaherferðir fyrir helstu nöfn tískuheimsins á sínum langa og farsæla ferli. Það eru samt færri sem vita að Helena byrjaði að taka myndir áður en fyrirsætuferilinn hófst en það byrjaði allt þegar hún vann fegurðarsamkeppni í Danmörku árið 1986.

Mynd/Anja Poulsen

„The magnificent seven.“ Með þessum orðum lýsti blaðamaður The New York Times fyrirsætunum Lindu Evangelista, Christy Turlington, Cindy Crawford, Naomi Campbell, Elle Macpherson, Claudiu Schiffer og Helenu Christensen árið 1996. Þessar fyrirsætur voru gjarna settar í svokallaða ofurfyrirsætugrúppu sem átti tískuheiminn á þessum tíma. Þá var varla hægt að fletta tískublaði án þess að sjá einhverja úr þessum hópi eða keyra framhjá stórum auglýsingaskiltum sem skörtuðu einhverri af þessum ofurfyrirsætum.

Og nú eru þær mættar aftur, í allri sinni dýrð. Ákveðinn viðsnúningur hefur átt sér stað í tískuheiminum undanfarin misseri. Æskudýrkunin er á undanhaldi og kallað hefur verið eftir meiri fjölbreytni, í aldri, stærð, húðlit og þannig mætti lengi telja. Eitt af bestu augnablikum tískuvikunnar í Mílanó á síðasta ári var þegar þær Helena, Cindy Crawford, Claudia Schiffer, Naomi Campbell og Carla Bruni áttu svakalega innkomu á sýningu Versace, klæddar í gullkjóla og sýndu það þær hafa engu gleymt á tískupallinum en þetta gerðu þær til að heiðra minningu Gianni Versace. Það liggur því beinast við að byrja á því að spyrja Helenu út í þessa endurkomu á tískupallinn.

„Það var mjög gaman að hitta stelpurnar og Donatellu aftur, ganga niður tískupallinn í þessum æðislegum kjólum til að heiðra minningu Gianni,“ segir Helena sem í dag er meira að vinna við ljósmyndum auk þess að sinna samstarfsverkefnum fyrir hin og þessi fyrirtæki. Meðal annars með vinkonu sinni, danska hönnuðinum Camillu Stærk.

Glamour/Getty. Á tískupalli Versace í Mílanó árið 2017.

Hún er ein af mínum bestu vinum og við höfum unnið saman að merkinu okkar í nokkur ár núna. Við hönnum föt, skó, skartgripi, gleraugu, innanhússmuni og fleira saman. Einnig gerum við litlar stuttmyndir og erum að vinna saman að sýningu sem verður næsta vor í Milk Gallery í New York,“ segir Helena og bætir við að þær langi til að þróa þessi verkefni sín enn frekar í framtíðinni. „Við mundum vilja vinna að flottum samvinnuverkefnum með áhugaverðum fyrirtækjum, núna erum við til dæmis að vinna að nokkrum verkefnum með Revolution Precrafted, þar sem við erum að greina hús og bústaði.“ 

Helena á danskan föður en móðir hennar er frá Perú. Sjálf flakkar hún á milli New York og Danmerkur. Hún er sannkallað jólabarn, fædd þann 25. desember árið 1968 og ólst upp á Amager. 

„Ég er búin að búa í New York í mörg ár núna en ég fer alltaf til Danmerkur á sumrin og yfir jólin. Danmörk er ennþá uppáhalds litla landið mitt sem á hjarta mitt skuldlaust, en það eru svo margir frábærir staðir til í heiminum. Harbor Island til að fara í frí og skoða eðlur er einn þeirra, Ísland fyrir stórbrotna náttúru, Perú er líka með magnaða náttúru, fólk, mat, dýr, menningu og sögu.“

Helena árið 1993.

Ísland er nefnilega einn af uppáhaldsstöðum Helenu þrátt fyrir að hún hafi bara komið hingað einu sinni en hana langar aftur. 

„Það er æðislegt, töfrandi og kalt. Ég kom til að fara á tónlistarhátíð og heimsótti auðvitað Bláa lónið sem var frábært. Ég væri til í að fara alein til Íslands einhvern tímann. Eða vinna að myndatöku þar sem ljósmyndari með fullt að töff stelpum. Mig dreymir líka um að leigja lítinn bústað á afskekktum stað og vera þar í nokkrar vikur til að fara í gönguferðir úti í náttúrunni og taka landslagsmyndir. 

Helena er eins og áður segir ljósmyndari og byrjaði að sinna þeirri ástríðu áður en hún varð fyrirsæta. Myndir eftir hana hafa birtst í tímaritum á borð við Nylon, Elle og Marie Claire. Þá hefur hún haldið ljósmyndasýningar en hún hefur áður látið hafa eftir sér að hún vilji helst taka að sér ljósmyndaverkefni sem krefjast ekki mikils undirbúnings. En veitir það henni ekki einstaka sýn að verið líka með mikla reynslu fyrir framan myndavélina?

„Ég var fyrst ljósmyndari og svo fyrirsæta, og já. Það er einstakt að hafa prufað hvort tveggja og getað lært af mörgum af fremstu ljósmyndurum í heiminum. Ég hef í raun og veru fengið kennslu í gegnum fyrirsætuferilinn. Ég grínast oft með það að ég hafi orðið fyrirsæta til að geta njósnað um myndasnillingana sem ég vinn með.“

Mynd/Anja Poulsen.

Þú vílar greinilega ekki fyrir þér að demba þér út í vinnu af öllu tagi, hvað er í uppáhaldi?
„Ég held að það sé einfaldlega að vinna að skapandi verkefnum, ein eða með öðrum. Ferill minn sem ljósmyndari og fyrirsæta hefur opnað svo margar dyr, að flottum samstarfsverkefnum og ævintýrum. Ég elska ljósmyndunina, sem mun verða ástríða mín í gegnum lífið. Hún er eins og félagi sem fylgir þér, gjöfin að geta tekið myndir og fryst augnablikin í lífinu.“ 

Ljósmyndunin hefur líka leitt Helenu í allar áttir en upp á síðkastið hefur hún fylgt írsku hljómsveitinni U2 eftir með myndavélina á lofti.
„Ég er búin að þekkja þessa stráka frá því að ég var rétt skriðin yfir tvítugt. Þeir, eiginkonur þeirra og vinir eru eins og fjölskyldan mín. Írar eru þannig, þeir taka þér opnum örmum. Ég hef myndað hljómsveitina mikið undanfarin ár, síðast uppi á þaki í Ríó og takan þar á undan var persónulegri þar sem ég fylgdi þeim eftir á tvennum tónleikum í Los Angeles.“ 

Helena á líka fyrirtækið Strangelove sem framleiðir ilmvötn og fást ilmirnir víðs vegar um heimininn, í Bergdorf Goodman í New York, Harrods í London og Bloomingdales í Dúbaí. 

„Fyrsta ilmvatnið sem við gerðum var deadofnight. Við Elizabeth vinkona mín ákváðum að búa saman til einstaka og töfrandi ilmi. Við erum núna að setja á markað fjórða ilmvatnið okkar, lostinflower.“

Í því jafnt og öðru veitir náttúran henni mestan innblástur, sem útskýrir líklega hvers vegna hana langar til að verja meira tíma á Íslandi. „Náttúran veitir mér endalausan innblástur á mjög svo nauðsynlegan hátt. Líka barnið mitt, alla daga alltaf… tónlist, bækur, list, matur, hundurinn minn …“ 

Helena segist ekki fylgjast mikið með tískunni í dag en tekur eftir því að hún fari í hringi, allt er að verða líkara því sem það var. Þrátt fyrir uppgang samfélagsmiðla í tískuheiminum sem og öðrum. En hver er hennar skoðun á því? „Mér finnst það pínu skrýtið en kemur mér ekkert á óvart. Notaðu þá eftir þínu höfði og ekki láta þá stjórna því hvernig þú kemur fyrir.“ 

Sjálf kaupir hún mikið gamalt (e. vintage) og er mjög meðvituð um sjálfbærni og umhverfisvernd. „Það er svo sannarlega mikilvægt að við leggjum öll okkar af mörkum í að vera meðvituð og taka ábyrgð þegar kemur að sjálfbærri tísku og styðja það. Ég kaupi eiginlega allt notað og sömuleiðis gef ég eða sel flíkur af sjálfri mér. Ég styð fyrirtæki eins og Edun og ALR og endurvinn allt sem ég get. Ég elska vintage föt. Allir hönnuðir sem mér finnst góðir fá hvort eð er innblástur frá gömlum flíkum. En mér finnst Chisato og Sybilla frábærar, yndislegar konur sem leggja hjarta og sál í hönnunina.“ 

Þegar þú lítur yfir ferilinn þá hlýtur að vera erfitt að velja eitt verkefni fram yfir annað, en við verðum að spyrja þig að lokum, hvaða verkefni stendur upp úr?

„Ég held ennþá svo mikið upp á myndbandið við lagið Wicked Game sem ég gerði með Herb Ritts. Þetta var yndisleg gjöf sem hann gaf mér og þvílík arfleifð sem hann skildi eftir sig.“ 

Helena gengur tískupallinn fyrir Chanel árið 1992 í París.

Stutt og laggott: 

Lýstu sjálfri þér í nokkrum orðum
Óþolinmóð, sýni öðrum samhygð, tilfinningarík, töffari, forvitin, barnaleg og hugsandi.

Mottó?
Shit happens. 

Fyrirmynd í lífinu?
Foreldrar mínir og amma mín sem er 100 ára gömul. 

Besta ráðið sem þú hefur fengið í lífinu og frá hverjum? 
Ég bíð nú ennþá eftir því. En fyrir mér er allt sem Piet Hein, danskur heimspekingur, skrifaði það viturlegasta sem skrifað hefur verið. 

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?
Afslappaður, litríkur, skandínavísk mýkt í bland við perúskar ástríður. 

Hvaða gildi eru mikilvægust fyrir þér?
Að vera sannur og sýna samhygð. Standa með þeim sem þú elskar allt til endaloka. 

Hvaða ráð mundir þú gefa sjálfri þér þegar þú varst unglingur?
Þú munt ganga í gegnum margt, gott og slæmt, en að mestu gott svo vertu tilbúin í ferðalagið og dragðu nokkrum sinnum djúpt að þér andann. Og byrjaðu að boxa núna. 

Hvar sérðu sjálfa þig eftir tíu ár?
Á einhverjum yndislegum og óvæntum stað í heiminum sem ég á ennþá eftir að uppgötva. 

Þessi grein birtist fyrst í janúarblaði Glamour árið 2018.

1 Comment

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.