Lífið er frábært og snýst ekki um að horfa í spegilinn

Við lifum og lærum. Árin fljúga áfram, á ljóshraða að því virðist, þannig að sjaldan gefst tími til að líta um öxl. Það er nákvæmlega það sem Glamour bað Sóleyju Kristjánsdóttur að gera – skrifa sjálfri sér bréf – hvað myndir þú segja við 15 ára þig?

Elsku Sóley mín. 

Nú ertu 15 ára og átt allt lífið fram undan. Þú ert í Hagaskóla og gelgjan er í hámarki. Skólafélögunum finnst þú oft vera skrítin og gera grín að þér þar sem þú hlærð mjög hátt og lætur mikið fara fyrir þér. Fólk mun venjast hlátrinum og hann mun fylgja þér hvert fótmál út ævina. Það er eiginlega alltaf gaman hjá þér, hvort sem þú ert ein með sjálfri þér eða í stórum hópi. Mikil Guðs gjöf. Ég veit að stelpurnar í skólanum eru oft leiðinlegar við þig og reyna að gera þér lífið leitt. Þú tæklar þetta vel og veist betur en að svara í sömu mynt. 

Mamma sendi þig út í heiminn með gott sjálfstraust og góða sjálfsmynd. Vertu óhrædd við að ferðast um heiminn sem fyrirsæta úti í löndum þó þér muni ekki þykja mikið til starfsins koma. Þú þroskast hratt, verður mjög sjálfstæð og eykur víðsýnina. Mamma segir þér að hætta aldrei í skóla fyrir þennan draum og hlustaðu á það. Þú hættir þessu að mestu 18 ára og alltaf var það skóli um vetur sem skilaði þér skemmtilegri og krefjandi vinnu í framtíðinni. 

Þú átt eftir að ná langt með því hreinlega að sækjast eftir hlutunum. Stundum koma þeir til þín og stundum óskarðu eftir þeim. Menn munu horfa á barnalegt andlitið og stóra brosið og þú sérð á þeim að þeir hafa enga trú á þér. Það hefur þú hins vegar. Samt læðist óöryggi oft að þér langt fram eftir aldri alveg sama hvað þér vegnar vel. Vertu auðmjúk en ekki óörugg því þú getur allt sem þig langar. Þú þarft ekki að þóknast öllum og það er allt í lagi að segja nei. Ekki segja kannski ef þú vilt segja nei. 

Það liggur ekki svona á að verða stór, Sóley! 16 ára tekur þú stökkið og flytur að heiman, enda orðin sjálfráða á þessum tíma og ferð að búa með tvítugum strák. Það endist ekki lengi en þér finnst frelsið gott þó þú sért yfirleitt með annan fótinn heima. Þú þarft að læra að hægja ferðina, þú hugsar svo mikið og vilt koma svo mörgu í verk að þú gleymir oft alveg að slaka á sem á eftir að koma þér í koll síðar meir. Þú ert líka mjög saklaus og auðtrúa en munt læra á lífið. Passaðu þig á fólki sem þykist vera vinir þínir en getur svo ekki samglaðst þér. Vinir styðja hver annan en eru ekki í keppni.

17 ára liggur leiðin í útvarpið og síðar sjónvarpið fyrir röð tilviljana og sennilega fyrir hvað þú ert ófeimin. Þú verður með fyrsta R´n´b þáttinn á landinu sem heitir Púðursykur á X-inu. Þú elskar hipp hopp og kaupir heil ósköp af geisladiskum til að spila í útvarpinu. Þú hugsar að þú getir nú alveg eins spilað þessa tónlist á kaffihúsi og þarft þá ekkert að kynna lögin. Farðu á aðalskemmtistaðinn sem heitir Thomsen og spurðu eigandann hvort þú megir ekki spila þar öll þriðjudagskvöld. Sá verður undrandi en segir að þú getir byrjað á einu kvöldi. Þvílíkur töffari, Sóley! 18 ára hefst þá DJ Sóley ferillinn en þú verður hissa þegar ég segi þér að þetta verðir þú sennilega kölluð út ævina. Þú ert ekki í neinni kvennabyltingu og hugsar ekkert út í það fyrr en síðar. Ekki taka öll verkefni að þér, rukkaðu meira fyrir og vertu vandlátari á verkefnin, þá muntu hafa gaman af þessu lengur. 

Þegar ég lít til baka, þá hefurðu kannski alltaf verið svolítið öðruvísi en það er þinn mesti styrkleiki. Fagnaðu fjölbreytileikanum og að allir séu ólíkir. Heimurinn á eftir að breytast mikið og passaðu þig á allri þessari útlitsdýrkun sem á eftir að yfirtaka allt. Lífið er svo frábært og snýst ekki um að horfa í spegilinn og taka sjálfsmyndir, reyndu að miðla því og lærðu að slaka á og njóttu lífsins.

Mynd/Aðsend
Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.