Það er misjafnt í hvað við notum samfélagsmiðlaforritið Instagram, hvort sem það er fyrir innblástur, fallegar myndir og góðar hugmyndir, eða einungis til að elta vini okkar og þeirra líf frá degi til dags. En svo rekst maður á myndir sem fær mann til að staldra við og langa til að vita meira. Pastel Blómastúdíó er einmitt þannig, skreytt blómum í spennandi litum og samsetningum sem við höfðum ekki séð áður.

MYNDIR/SUNDAY & WHITE

Pastel Blómastúdíó var stofnað af þeim Elínu Jóhannsdóttur og Sigrúnu Guðmundsdóttur fyrir stuttu síðan, en þeim fannst vanta fjölbreytni í úrval blómvanda á íslenskan markað. Báðar hafa þær starfað í tískuheiminum og lágu leiðir þeirra saman í íslensku versluninni Geysi fyrir nokkrum árum. Blómastúdíóið framleiðir blómvendi og innsetningar af afskornum, ferskum blómum í bland við þurrkuð lituð blóm. 

„Hugmyndin kviknaði eftir vinnustofu (e. workshop) sem við sóttum í Kaupmannahöfn í október síðastliðnum hjá blómastílista sem við höfðum báðar fylgst með. Við vorum svo fullar innblæstri eftir ferðina að við ákváðum að við yrðum að gera eitthvað meira saman. Við byrjuðum á að prófa okkur áfram með mismunandi samsetningar blóma og birta myndir á Instagram,“ segja Elín og Sigrún í samtali við Glamour.

Eftir að þær fóru að deila myndum fengu þær strax góðar viðtökur. Nú hafa þær einungis verið að taka við sérpöntunum en munu halda sinn fyrsta pop-up viðburð í Granda Mathöll í lok febrúar, þar sem þær munu bjóða upp á tilbúna vendi bæði úr þurrkuðum og ferskum afskornum blómum. Útkoman frá vinnu þeirra er yfirleitt litrík og ófyrirsjáanleg. 

„Blóm eru svo skemmtilegt og ófyrirsjáanlegt hráefni. Hver samsetning er sérstök og hefur sinn karakter, segir sína sögu. Svo eru blóm bara svo falleg og litrík.“

Elín og Sigrún hafa nú í nógu að snúast og eru að prófa sig áfram með íslenskar villtar plöntur. Pabbi Elínar er garðyrkjumaður og fengu þær hann til að rækta fyrir sig blóm, en plönturnar ætla þær bæði að nota ferskar og þurrkaðar. Það verður gaman að fylgjast með fyrirtækinu þróast, því alltaf má skreyta umhverfi sitt með fallegum blómum. 

Instagram: https://www.instagram.com/pastel_blomastudio/

Pastelblóm verða með Pop-up markað í Granda Mathöll helgina 23.-24. febrúar næstkomandi.

View this post on Instagram

Mynd @sundayandwhite

A post shared by Pastel (@pastel_blomastudio) on

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.