Katherine Hamnett mætir á Hönnunarmars

Enski fatahönnuðurinn og frumkvöðullinn Katherine Hamnett mun mæta á Hönnunarmars. Katherine mun bæði tala á Design Talks og taka þátt í sérstökum viðburði í versluninni Stefánsbúð/p3. Katherine er fædd árið 1947 og hefur hrærst í tískuheiminum lengi. Hún er þekktust fyrir sína hápólitísku stuttermaboli og peysur.

Katherine Hamnett hefur alltaf viljað vekja athygli á málefnum sem henni eru kær og fannst besta leiðin vera sú að prenta skilaboð í stórum stöfum á flíkur sínar. „CHOOSE LIFE“ bolurinn hennar er sennilega hennar frægasti, en enginn annar en George Michael klæddist honum í tónlistarmyndbandinu við lagið Wake Me Up Before You Go Go með Wham! Sami bolur birtist einnig í myndbandi með hljómsveitinni Queen, við lagið Hammer To Fall. Roger Taylor klæddist bolnum. CHOOSE LIFE bolurinn var ádeila á stríð og dauða. Árið 2015 hannaði hún annan bol með orðunum CHOOSE LOVE, fyrir góðgerðastarfssemi sem hjálpar flóttafólki.

Katherine Hamnett útskrifaðist úr Central Saint Martins árið 1979. Katherine var fyrsta manneskjan til að vinna hin virtu verðlaun, „Breski hönnuður ársins“ á bresku tískuverðlaununum. Fatnaður hennar varð fljótt vinsæll hjá stjörnum eins og Mick Jagger, Liz Taylor, Díönu prinsessu, Boy George og Madonnu.

Katherine fór yfirleitt sínar leiðir þegar kom að auglýsingaherferðum og vildi hún að allar aðrar auglýsingar virkuðu gamaldags samanborið við hennar. Katherine vildi koma ungum og upprennandi hæfileikaríku fólki á kortið, og var meðal þeirra fyrstu sem notuðu goðsagnirnar Juergen Teller, Terry Richardson, Kate Moss og Claudia Schiffer þegar þau stigu sín fyrstu skref í tískuheiminum.

Umhverfisvernd og sjálfbærni hafa undanfarin ár átt hug hennar og hefur hún lagt mikla áherslu á breytingar innan tískuheimsins. Í dag hefur hún minnkað framleiðslu sína og einbeitir sér mikið að góðgerðarsamtökum tengd umhverfinu.

Verslunin Stefánsbúð/p3 hefur selt fatnað Katherine Hamnett á Íslandi. Í tilefni af Hönnunarmars hafa Katherine Hamnett og Stefánsbúð/p3 tekið höndum saman og hannað boli með boðskap sem stendur hjarta þeirra nærri. Katharine tekur á móti gestum og gangandi í versluninni þann 29. mars og kynna nýja boli sem frumsýndir verða á Hönnunarmars.

Glamour/Getty. Katherine Hamnett í fyrra, árið 2018.
Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.