Plötusnúðurinn Dóra Júlía Agnarsdóttir hefur komið sér vel fyrir í litríkri íbúð í Hlíðunum í Reykjavík.  Dóra Júlía er alin upp í hverfinu og segir erfitt að sjá sjálfa sig fyrir sér annars staðar í borginni.  Dóra flutti inn um mitt síðasta sumar og þurfti engu að breyta, en var fljót að setja sinn brag á íbúðina, oft með hjálp mömmu sinnar.

„Ég er því miður ekki mjög handlagin né framtakssöm í iðnaðarvinnu. Mamma mín er hins vegar grjóthörð í því og hefur hjálpað mér mikið. Síðasta haust fékk ég hana til þess að veggfóðra einn vegg í svefnherberginu með fallegasta veggfóðri sem ég hef séð,“ segir Dóra Júlía og er að tala um veggfóður eftir íslenska listakonu, Kristjönu Williams. Dóra hefur fylgst með henni lengi og er mikill aðdáandi. Dóru finnst mikilvægt að umkringja sig með fallegri list frá íslenskum listakonum, og er með verk eftir Kristjönu og Sögu Sig á veggjum. 

MYNDIR/Sigtryggur Ari Jóhannsson.
Svefnherbergi Dóru Júlíu. Veggfóðrið er eftir Kristjönu Williams.

Dóra segist vera róleg í öllu stússi og ætli sér ekki að missa sig í framkvæmdum, hún vilji frekar stílisera íbúðina með fallegum hlutum sem hún safnar hægt og rólega. „Ég ætla að mála tvo veggi inn í svefnherbergi einhverntímann, annars er ég róleg.“ 

En hvernig myndi hún lýsa stílnum á heimili sínu? „Ég á mjög erfitt með að lýsa stíl með orðum, bæði þegar kemur að klæðaburði og á heimilinu. Mér finnst það svo óhlutbundin oæling, stíllinn talar meira fyrir sig heldur en það sé hægt að lýsa honum á hnitmiðaðann hátt. Ég myndi segja að heimilið mitt endurspegli mig sem manneskju að mörgu leyti. Heimilið er minn kjarni og rými sem verður að vera þægilegt fyrir mig, þannig mér finnst mikilvægt að hafa bjart og fallegt í kringum mig og ég kaupi hluti sem ég finn að láta mér líða vel. Ég er hrifin af litum og hlutum sem eru kannski svolítið funky og öðruvísi en ganga samt fullkomlega upp í þessari heild sem heimilið er. Svo er ég líka mjög dugleg að kaupa blóm og hafa inni í stofu, blóm gera svo ótrúlega mikið.“ 

MYND/SAJ
MYND/SAJ

Dóra fer ekki eftir neinum reglum þegar kemur að því að innrétta og er lítið fyrir boð og bönn. „Ég kaupi bara það sem mér finnst flott og ég held að gangi upp heima. Einhvernveginn passar þetta allt svo bara mjög skemmtilega saman. Inni í stofu er ég til dæmis með bleikan skæran flamingolampa og gylltan bananalampa við hliðina á hvorum öðrum í gluggakistunni, glæran ghost-stól frá Philippe Starck þar fyrir framan og stóra plöntu. Það myndar ótrúlega skemmtilegt horn og mér líður eins og hver hlutur sé orðinn órjúfanlegur hluti af hinum. Heildin gengur upp. Mér finnst líka gaman að blanda saman gömlu og nýju. Ég er til dæmis með borðstofuborð og skenk frá ömmu minni frá 1960, í bland við glænýjan bleikan sófa, skæran lampa og bearbriks. Ég mjög hrifin af litum og reyni að láta þá tóna vel saman. Þannig að það verður góð og skemmtileg orka inni. Ég vinn mikið inn í stofu og þá spila ég tónlist, drekk te, finn ferska lykt af blómum og get verið í stórum bleikum slopp og inniskóm umkringd hlutum sem láta mér líða vel. Besta skrifstofa sem ég gæti hugsað mér.“

MYND/SAJ

Dóru finnst erfitt að velja sér uppáhalds hlut á heimilinu, en segir sófann sinn koma sterklega til greina. „Það væri ekkert inni hjá mér sem væri ekki í uppáhaldi. Ég elska sófann minn því að ef að ég væri sófi þá væri ég þessi sófi. Svo elska ég alla listmuni sem ég á og verkið frá Sögu Sig er í miklu uppáhaldi. Ég elska líka húsgögnin frá ömmu, þau eru svo falleg eins og amma er svo falleg.“

MYND/SAJ

Stílhrein heimili máluð í gráum og hvítum tónum hafa verið í tísku undanfarin ár, en heimili Dóru er fyllt litagleði. „Litir gera ótrúlega mikið fyrir sálina. Þeir lífga upp á hversdagsleikann, veita gleði og ég held að flestir geti verið sammála um að ég sé frekar litrík persóna. Ég er alls ekki hrifin af öllu litríku, en lýg því ekki að ég á mjög erfitt að standast ljósbleika hluti. Þegar ég flutti inn tók ég ekki meðvitaða ákvörðun um að hafa allt mjög litríkt í kringum mig heldur þróaðist heimilið bara þannig.“

MYND/SAJ
MYND/SAJ
MYND/SAJ
Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.