Svarthvítu myndirnar af augum, handleggjum eða kvenmannslíkömum hafa líklega ekki farið framhjá þér síðustu mánuði, en þær eru eftir unga listamanninn Rakel Tómasdóttur. Rakel hefur verið dugleg við að nota samfélagsmiðla til að koma sér á framfæri, en gengur nú skrefinu lengra og mun opna vinnustofu og listasýningu þann 2. maí næstkomandi.

„Til að byrja með ætla ég að nýta rýmið sem vinnustofu, en mun síðan opna listasýningu þann 2. maí. Þá breytist vinnustofan í sýningarrými þar sem myndirnar og eftirprentanir verða til sölu,“ segir Rakel. Forritið Instagram hefur verið hennar helsti vettvangur til að deila verkefnum sínum hingað til, sem eru helst teikningar, leturhönnun og bókahönnun. „Instagram er auðvitað snilld, en það að sjá verkin með berum augum er allt annað. Ég hef líka átt í miklum samskiptum við fólk í gegnum samfélagsmiðla og átt góðar samræður, en mig langar líka að skapa rými þar sem hægt er að gera það í persónu.“

Glamour/Rakel Tómasdóttir

Sýningin mun heita Vatn, en við það tengir Rakel að sleppa tökunum og leyfa vatninu að stjórna. „Ég nota vatnsliti, dreifi málningunni á blaðið, leyfi henni að þorna og mynda áferð sem ég hef mjög litla stjórn á, svo teikna ég út frá því,“ segir Rakel. Innblásturinn segir hún aðallega koma frá sjónum á Bali og Sundhöll Reykjavíkur.

Fyrr á árinu fór Rakel til Bali og segist hafa þar fundið hamingjuna, nánar tiltekið í sjónum. „Það að upplifa kraftinn í öldunum og læra á brimbretti var alveg magnað og er með því skemmtilegasta sem ég hef gert. Líka það að vera í kringum svona mikinn gróður sem iðar allur af lífi er dásamlegt. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim var að hugsa að ég þyrfti að fá mér fleiri plöntur,“ segir Rakel og getur ekki beðið eftir að fara aftur á flakk, en það gerist þegar sýningin hennar klárast.

„Það er eitthvað við þetta þyngdar- og tímaleysi sem fylgir því að vera í kafi. Það hægist á hjartslættinum og það er eins og tíminn stoppi í smá stund á meðan maður heldur niðri í sér andanum.“ 


Rakel segir að teikning hafi verið hennar leið til að vinna sig í gegnum alls konar hluti. „Mér finnst oft erfitt að lýsa því hvernig mér líður en það að gera tilfinningar sýnilegar í gegnum líkamstjáningu eða svipbrigði gerir það auðveldara fyrir mig að skilja þær. Kvenlíkaminn er líka alltaf áhugavert viðfangsefni fyrir mér og tengingin á milli kvenna er áhugaverð og heillandi.“

Það á eftir að koma í ljós hvort að opna listasýningu og vinnustofu sé rétt skref, segir Rakel og segir hana stundum eiga erfitt með að stoppa sjálfa sig af. „Ég æði oft bara áfram í því sem mig langar að gera án þess að velta því fyrir mér hvað öðrum finnst, og það sem ég geri vil ég gera almennilega. Ég viðurkenni alveg að mér fannst skrítið að leigja rými á miðjum Laugaveginum og þurfti að jafna mig í smá stund eftir að við settum myndirnar í gluggana.

En það að vera sýnileg er auðvitað partur af þessu og ég vil að sem flestir sjái myndirnar mínar. Ég held að við konur getum verið allt of hræddar við að vera athyglissjúkar. En ég hef engan áhuga á að búa til listina mína í felum og ekki leyfa neinum að sjá eða taka þátt í ferlinu. Ég vil vera opin og aðgengileg, sýna það sem ég er að gera og tengjast fólki í gegnum listina.“

Sýningin Vatn opnar á Laugavegi 27 þann 2. maí næstkomandi. Þar má búast við hlýlegri stemningu, fallegum myndum, góðu kaffi og hlýjum móttökum.

View this post on Instagram

Vatn

A post shared by Rakel Tomas (@rakeltomas) on

View this post on Instagram

Endurskinsmerki á bretti 🏳️⁣ ⁣#Bali

A post shared by Rakel Tomas (@rakeltomas) on

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.