Hvað með börnin?

Leiðari sumartölublaðs Glamour sem kemur út í dag, miðvikudag, markar nýtt upphaf. Minn fyrsti úr þessum glænýja ritstjórastól mínum. Það er eins og við flest vitum ágætis tilfinningakokteill að skipta um starf. Óvissan, ákvörðunin, efasemdirnar, eftirvæntingin, mistökin og síðast en ekki síst fögru fyrirheitin. Því það gefur augaleið að nýtt upphaf skapar tækifæri til að brjóta hlutina aðeins upp; breyta og bæta. 

Ég tek við góðu búi frá forvera mínum hér á Glamour. Fyrir það þakka ég. Tímaritið hefur undanfarin ár skapað sér sess sem vandað tísku- og lífsstílstímarit hér á landi rétt eins og það hafði fyrir löngu gert erlendis. Því var það aldrei hugmynd mín né ætlun að umturna því sem skapað hafði verið. Við byggjum á góðum grunni í tísku- og förðunarumfjöllun og ætti dyggum lesendum Glamour ekki að bregða við að fletta fyrsta tölublaði mínu. En nýjum ritstjóra fylgja auðvitað einhverjar nýjar áherslur og var það alltaf vilji minn að víkka lesendahóp tímaritsins með víðari skírskotun í efnistökum. 

Steinunn Sigurðardóttir tikkaði í öll boxin
Steinunn Sigurðardóttir, fatahönnuður, frumkvöðull, fyrirtækjaeigandi og ekki síst móðir fjölfatlaðs ungs manns, tikkaði í öll þau box sem mig langaði að fylla í fyrsta forsíðuviðtali mínu á glænýjum vettvangi. Sterk og þroskuð kona sem á sér bæði farsæla sögu í fyrirtækjarekstri og í yfirmannsstöðu hjá einum stærsta tískuframleiðanda heims en er einnig mjúk móðir Alexanders, 24 ára. 

Steinunn ákvað fljótlega eftir að ljóst varð að einkasonurinn þyrfti aðstoð með nánast allar hliðar daglegs lífs að hún yrði einnig að huga að sjálfri sér, hjónabandinu og starfsferlinum. Í átta ár skipti hún lífi sínu upp á milli fjölskyldu og fósturjarðar annars vegar – og starfsframans hjá Gucci á Ítalíu hins vegar. Þetta varð til þess að feðgarnir eignuðust einstakt samband og Steinunn hafði tök á því að annast son sinn af einurð milli þess sem hún nærði sig og sínar þarfir. Og einmitt vegna þess. 

Var dæmd fyrir að sækja vinnu frá veiku barni sínu
Allir sáttir? Þríeykið var sátt og náði að skapa fallegt mynstur saman þar sem Alexander var órjúfanlegur hluti þess sem foreldrarnir tóku sér fyrir hendur. En dómararnir voru ófáir rétt eins og í flestum þeim málum þar sem einkalíf fólks er tekið fyrir af dómstól götunnar. Steinunn fékk að heyra ónærgætnar athugasemdir um framapot sitt í órafjarlægð frá litla, veika barninu sínu. 

Hefðu viðbrögðin verið annars konar ef faðirinn hefði ferðast á milli og mamman verið heimaföst? Ég leyfi mér að fullyrða að svarið er já, bæði í dag og fyrir tveimur áratugum. Það þarf nú ekki að leita lengra en í sjómannsstéttina til að finna þess dæmi. Ég hef ekki heyrt mörg spurningarmerki sett við fjarveru sjómanna frá fjölskyldu sinni og börnum á meðan þeir sækja sjóinn til að afla tekna.

Hvar er fjölskyldan á meðan þið þvælist?
Á öðrum stað í blaðinu segja þær Birna Bragadóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir frá útivistariðkuninni sem gefur þeim mikla lífsfyllingu. Báðar fá þær reglulega spurningar um það hvar fjölskyldan sé á meðan þær eru að þvælast á fjöllum eða í annars konar útivist í frítíma sínum. Ég man þó ekki til þess að margir missi svefn yfir því hvar konurnar og börnin séu niðurkomin á meðan maðurinn minn og veiðifélagar hans renna fyrir lax eða elta rjúpur um fjöll og firnindi. 

Á haugana með þennan hugsanagang
Mikið væri gaman ef hægt væri að henda þessum hugsanagangi á haugana fyrir fullt og allt og við gætum látið eins og jafnréttið næði alla leið inn í barnaherbergi heimilisins. 

Undirritaður framapotari ætlar sér í það minnsta að vera á sínum stað í ritstjórastólnum þegar næsta tölublað Glamour kemur út í vetur. Áður stefnir hún þó á að koma barni því sem undir belti bíður í heiminn, njóta samvista og huga vel að því með allri sinni ást og umhyggju. Að því gefnu að allt gangi að óskum heyrið þið þó aftur frá henni fyrir lok árs… Kannski að pabbinn taki bara vaktina rétt á meðan og allir græði?

Ritstjóri Glamour
Björk Eiðsdóttir

Mynd/Ásta Kristjánsdóttir
Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.