H&M vill sýna þér hvaðan vörur þeirra koma

Sænska fataverslunin H&M hefur lagt mikið á sig undanfarin ár til að gera viðskiptavinum sínum kleift að sjá uppruna allra varanna, þar á meðal framleiðanda, nafn á verksmiðju og staðsetningu hennar ásamt fjölda starfsmanna. Nú geturðu nálgast upplýsingar um vöruna sem þú hyggst kaupa á heimasíðu fyrirtækisins.

Síðustu ár hafa fyrirtæki sem selja mikið af fjöldaframleiddum fatnaði verið gagnrýnd, sérstaklega hvað varðar umhverfismál og aðstæður fólks í verksmiðjum. Með auknu gagnsæi telur H&M það verða auðveldara fyrir viðskiptavini að hafa sjálfbærni að leiðarljósi og taka upplýstari kaupákvarðanir.

H&M hefur tekið skref að þessari þróun síðustu ár, með fatalínum sínum eins og Conscious Exclusice, þar sem þú getur fengið upplýsingar um bakgrunn alla varanna í línunni. Nú hyggst fyrirtækið taka enn stærra skref í átt að gagnsæi og veita ítarlegar upplýsingar um bakgrunn allra varanna á heimsíðu þeirra.

,,Við erum stolt af því að vera fyrsta stóra alþjóðlega fatakeðjan sem tekur gagnsæi upp á næsta stig. Við viljum sýna heiminum að það er hægt að vera stór og samtímis gagnsær. Með því að opinbera hvar vörurnar okkar eru framleiddar viljum við setja staðla fyrir iðnaðinn og gera það auðveldara fyrir viðskiptavini okkar að huga að sjálfbærni þegar kemur að fatakaupum. Með auknu gagnsæi fylgir mikil ábyrgð og því er aukið gagnsæi mikilvægur hluti af sjálfbærum tískuiðnaði‟, segir Isak Roth yfirmaður alþjóðlegra sjálfbærnimála hjá H&M.

Þó að íslensk netverslun H&M sé ekki í boði eins og stendur geta Íslendingar kynnt sér bakgrunn varanna á þeim bresku eða skandinavísku.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.