Rihanna stofnar sitt eigið tískuhús

Tónlistarkonan Rihanna hefur staðfest að hún sé að vinna að sínu eigin tískuhúsi, í samvinnu við LVMH. LVMH eiga meðal annars fyrirtæki eins og Christian Dior, Sephora og Givenchy. Fyrsta lína Rihönnu mun líta dagsins ljós þann 22. maí næstkomandi í París. Fatamerkið mun heita Fenty og mun bjóða upp á fatnað, skart, fylgihluti, sólgleraugu og skó.

„Að hanna línu eins og þessa með LVMH er ótrúleg tilfinning fyrir okkur. Herra Arnault hefur gefið mér einstakt tækifæri til að þróa tískuhús í háum gæðaflokki, þar sem mér halda engin bönd, og ég get verið eins listræn og ég vil. Ég gæti ekki hugsað mér betri félaga,“ sagði Rihanna í tilkynningu. Nú þegar á Rihanna snyrtivörumerkið Fenty Beauty og undirfatamerkið Savage x Fenty. Í fyrirtækjum sínum hefur hún lagt áherslu á fjölbreytni, framleiðir nærföt fyrir allar gerðir líkama og farða fyrir alla húðliti.

Fenty er fyrsta tískuhúsið sem hefur verið stofnað af LVMH síðan Christian Lacroix var stofnað árið 1987.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.