Karl Lagerfeld 1933-2019

Það var mikill missir fyrir tískuheiminn þegar Karl Lagerfeld lést í lok febrúar á þessu ári. Maðurinn með hvíta taglið, sólgleraugun og með kragann, sem hafði einkennt útlit hans í tugi ára. Það komust fáir þangað með tærnar þar sem Karl hafði hælana, enda hannaði hann yfir sextán fatalínur á ári hverju fyrir þrjú mismunandi tískuhús, Chanel, Fendi og sitt eigið, Karl Lagerfeld. 

Glamour/Getty.
Karl Lagerfeld.

Karli var margt til lista lagt og meðal þess sem hann hafði unun af var ljósmyndun. Hann tók myndir fyrir allar auglýsingaherferðir Chanel og hélt góðu sambandi við helstu fyrirsætur hússins, sem voru tónlistarkonur, leikkonur og listakonur. Chanel hefur verið eitt frægasta fatamerkið síðustu áratugi og það þekkja flestir. Karl hafði mikið dálæti á bókum, tímaritum og dagblöðum. Hann var einnig mikill tungumálamaður og talaði þýsku, frönsku, spænsku og ensku. Vinir hans og samstarfsfólk lýstu honum sem miklum húmorista, listamanni sem vildi aðeins beina sjónum að framtíðinni. Karl var skrautleg persóna og sat ekki á skoðunum sínum. 

Karl Lagerfeld fæddist árið 1933 í Þýskalandi. Karl sagði aldrei rétt til um aldur og hélt því yfirleitt fram að hann væri yngri en hann var. Foreldrar hans voru efnaðir og eyddi Karl fyrstu árum sínum í Þýskalandi áður en hann flutti með fjölskyldu sinni til Frakklands. Í skóla lagði hann áherslu á teikningu og sögu. Árið 1955 var Karl ráðinn sem aðstoðarmaður Pierre Balmain, eftir að hann stóð uppi sem sigurvegari í hönnunarkeppni. Eftir þrjú ár hjá Balmain hætti hann og fór að starfa hjá Jean Patou þar sem hann hjálpaði til við hönnun á hátískufatnaði. Árið 1964 hóf hann að starfa í lausamennsku og fór fljótt að vinna fyrir franska tískuhúsið Chloé. Í fyrstu hannaði hann nokkrar flíkur en ekki leið á löngu þar til hann var farinn að hanna alla fatalínuna. Árið 1965 hóf hann samstarf við ítalska tískuhúsið Fendi, og hélt því áfram til dauðadags. 

Karl Lagerfeld, þarna sem hönnuður Chloé. Í Frakklandi árið 1979.
Í Vogue árið 1977. Lína Karls fyrir Chloé.

Árið 1982 var Karl boðið að hanna fyrir Chanel, þegar Alan Wertheimer, þáverandi forstjóri tískuhússins, hafði samband við hann. Þá stóð Chanel ekkert sérstaklega vel og voru flestir svartsýnir á framtíð þess, en það hafði legið í dvala eftir að Gabrielle Chanel lést árið 1971. „Allir réðu mér frá því að hefja störf hjá Chanel, sögðu að tískuhúsið væri dautt og það myndi aldrei koma aftur,“ sagði Karl í viðtali við The New York Times. Hann tók því sem áskorun og ákvað að taka við starfinu. „Chanel var þá einhvers konar Þyrnirós.“ Þaðan í frá hélt hann sýn Gabrielle Coco Chanel á lofti og gert Chanel að einu eftirsóttasta og virtasta fatamerki heimsins. Ítalska merkið Fendi hannaði hann fyrir í góðu samstarfi við Silviu Venturini Fendi, eina af dætrum Fendi-hjónanna.

Linda Evangelista fyrir Karl Lagerfeld árið 1990.

Karl Lagerfeld var talinn einn duglegasti fatahönnuður síðustu áratuga. Hann var oft spurður að því hvort hann fengi aldrei nóg, hvort hann yrði aldrei þreyttur á þessu. „Þvert á móti, þetta er örvandi. Annars fer mér að leiðast. Samkvæmt samningi á ég að hanna fjórar línur á ári fyrir Chanel, en ég hanna tíu,“ sagði Karl í viðtali við Numero Magazine. Margir fatahönnuðir hafa kvartað undan, eða viljað skapa umræðu um álagið sem fylgir hraða tískuheimsins, en Karl var ekki á sama máli. „Ég hef aldrei kvartað yfir því og það er þess vegna sem allir hinir hönnuðirnir hata mig. Þeir hafa bara áhuga á innblæstri sínum og geta eytt klukkutímum í að fara yfir teikningar frá aðstoðarfólki sínu, eða í að ákveða hvar einn lítill hnappur á að vera. Ég er vél. Versta við þetta er að hönnuðir kenna mér um vandamál sín og hversu mikið þeir þurfa að vinna. Þegar þú ert með margra milljarða fyrirtæki þá verður að halda dampi. Ekki segjast vera fórnarlamb kerfisins, og ef þú heldur það þá ertu líklega ekki í réttu vinnunni. Sérstaklega í tískuheiminum. Ef þér finnst álagið of mikið, þá ættirðu að fara að vinna annars staðar.“

Karl talaði mikið um í viðtölum hversu heppinn hann væri að stjórnendur Chanel treystu honum vel. Honum var kleift að gera hlutina eins og hann vildi, enginn spurði hann spurninga og allt gekk vel. „En það er ekkert leyndarmál á bak við velgengni, það er vinna. Taktu þér tak. Auðvitað hjálpar það ef þú lifir þokkalegu lífi, drekkur ekki, reykir ekki og tekur ekki eiturlyf. Þetta er ekki flókið.“

Ljósmyndasýning Karls árið 1991.

Dögunum eyddi Karl í að skissa, lesa eða með kettinum sínum fræga, Choupette. Karl sagðist skissa allan daginn og vakna stundum á nóttunni til að koma frá sér hugmyndum. Hann var oft spurður út í það hvort hann hugsaði um hvort fatalínur hans myndu seljast vel en hann taldi hættulegt fyrir hönnuð að hugsa á þann veg, að þannig myndi fara illa fyrir merkinu. Markaðsteymi skildi hann ekki og sagðist ekki vita hvað þau gerðu. „Kannski er markaðsfólk innan Chanel, en ég veit það ekki, ég hef aldrei séð það. Ég fer ekki á neina fundi.“ Karl var með gott og hæfileikaríkt fólk í kringum sig. Margir þeirra höfðu unnið með honum í áratugi, eins og Virginie Ward, sem mun nú taka við Chanel.

Helsti kostur Karls var forvitnin, eins og hann sagði sjálfur. Það var fátt sem fór framhjá honum, enda las hann mikið, fylgdist vel með dagblöðum og tímaritum. Samfélagsmiðla eða internetið hafði hann ekki tíma fyrir, enda var hann of upptekinn við að skissa. Karl sagðist aldrei verða ánægður með það sem hann bjó til, eða hannaði. Rétt áður en tískusýningar hófust bað hann fyrirsætur og samstarfsfólk sitt afsökunar, og fullvissaði þau um að hann myndi gera betur næst. „Ég hef enga skoðun á sjálfum mér. Ég er aldrei ánægður. Ég get ekki lýst sjálfum mér, því ég er það sem þú sérð, það leynist ekkert annað á bakvið.“ Fáir yrðu sammála þessum orðum Karls, eins hæfileikaríkasta hönnuðar sem tískuheimurinn hefur átt. 

Þessi grein birtist fyrst í vor/sumar blaði Glamour 2019.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.