Kim Kardashian fær innblástur frá Carrie Bradshaw

Ást Kim Kardashian á eldri fatnaði (e. vintage) ætlar engan endi að taka, en síðasta árið hefur hún sótt mikið í eldri línur frá Mugler, Versace og Alaia. Nú fékk hún hins vegar innblástur frá hinni einu sönnu Carrie Bradshaw og klæddist pilsi úr eldri línu Christian Dior og hinu fræga dagblaðamynstri.

Kjóllinn sem Sarah Jessica Parker klæddist þegar hún lék Carrie í Sex & The City er úr línu Christian Dior eftir John Galliano frá árinu 2000. Línan var mjög umdeild á sínum tíma, en Galliano talaði um að innblástur línunnar hafi komið frá fátæku fólki á götum Parísar. Dagblaðamynstrið kom frá fólki sem bjó á götunni, sem safnaði dagblöðum og öðrum pappír. Það var einnig umdeilt þegar Sarah klæddist kjólnum í Sex & The City og voru margir sem reiddust. Þegar kvikmyndirnar Sex & The City komu síðan út, klæddist Sarah kjólnum aftur, sem leiddi til þess að myllumerkið #FuckCarrie varð vinsælt.

John Galliano sagði hins vegar að dagblaðamynstrið hafi komið frá árinu 1935, þegar hátískuhönnuðurinn Elsa Schiaparelli framleiddi silkiklúta og skyrtur í dagblaðamynstri, en hugmyndina fékk hún frá dönskum sjómannafrúm.

Það er því ekki hægt að neita fyrir það að þó að flíkurnar úr línunni séu umdeildar, þá eru þær löngu orðnar frægar í tískuheiminum. Það þykir mjög erfitt að ná í flíkur úr þessari línu í dag og seljast þær á mjög háu verði. Kim hefur greinilega marga í kringum sig sem eru sérfræðingar í eldri fatnaði svo það verður gaman að sjá hvaða flík verður næst fyrir valinu.

Glamour/Skjáskot
Pils og taska úr mynstrinu fræga.
Sarah Jessica Parket í hlutverki Carrie Bradshaw í Sex & The City.
Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.