Eigendur Chanel fjárfesta í 66°Norður

Bandarískt fjárfestingafélag sem stýrir tískuhúsinu Chanel hefur keypt tæplega helmingshlut í 66°Norður, eins og Fréttablaðið greinir frá. Kaupandinn er félagið Mousse Partners sem var stofnað af Charles Heilbronn, hálf bróður Alain og Gérard Wertheimer, en þeir eru eigendur Chanel.

66°Norður hefur einnig ráðið Matthew Woolsey sem framkvæmdastjóra alþjóðlegrar starfsemi fyrirtækisins, en hann var áður framkvæmdarstjóri vefverslunarrisans Net-a-Porter. Matthew býr yfir mikilli þekkingu á vefviðskiptum, fatageiranum og alþjóðlegum rekstri. Matthew trúir því að 66°Norður geti orðið heimsþekkt vörumerki. „Við lifum á tímum gnægðar sem þýðir að vörumerkin sem skara fram úr verða vörumerkin sem mynda djúpstæða tengingu við viðskiptavini sína. 66°Norður er þannig vörumerki vegna gæða varanna, framleiðslusögunnar og arfleifðarinnar,“ segir Matthew í samtali við Markaðinn.

66°Norður mun nú leggja mikla áherslu á vefverslun þar sem vefurinn getur komið stefnu og sögu fyrirtækisins vel til skila fyrir þá sem ekki hafa komið til Íslands. 66°Norður rekur tíu verslanir á Íslandi og tvær í Kaupmannahöfn og sjá fram á að opna fleiri í framtíðinni.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.