Ekkert kúl við að vera kúl

Helgi Ómarsson, ljósmyndari, bloggari og nú einn vinsælasti hlaðvarpari landsins segist vera með of mörg járn í eldinum eins og vanalega og verkefnalistinn er langur. Helgi átti lokaorðið í nýjasta tölublaði Glamour.

Fullt nafn: Helgi Snær Ómarsson. 

Hvar og hvenær ertu hamingjusamastur? Ég er hamingjusamur á Seyðisfirði. Seyðisfjörður er ein af stærstu ástum lífs míns. Seyðisfjörður geymir mömmu mína og pabba, systkini mín, systurdætur og vini. Ég er einnig hamingjusamur þegar ég hef ekkert. Þegar ég ferðast til Taílands og þarf hvorki símann né internet og sit bara einhvers staðar í sjónum eða á strönd vitandi að ég er í ró.  

 
Hvað óttast þú mest? Að missa mína nánustu. Ég hef upplifað að fólk í kringum mig deyr og mér finnst það mjög vont. Dauðinn er þó eitt af því lærdómsríkasta sem ég hef upplifað og fyrir vikið nýt ég mín miklu meira með fólkinu sem ég elska. Ég er hættur að taka góðum augnablikum sem sjálfsögðum hlut og þessi ótti kennir mér líka að eyða ekki orku í rugl.   

GLAMOUR/Helgi Ómarsson

 
Hvaða núlifandi manneskju lítur þú upp til? Mamma mín og pabbi eru mínar fyrirmyndir. Ég lifi lífi mínu svolítið „Hmm… hvernig ætli pabbi myndi tækla þetta?“ En hann er ekkert nema góðmennskan uppmáluð. Ég vil vera góður og láta öðrum líða vel. Ég gæti skrifað ritgerð um hann en þetta segir allt sem segja þarf. Sama með mömmu, við erum ansi veraldlega tengd, sálufélagar og bestu vinir, hún er besta manneskja sem ég veit um.  
 

Hvað leyfirðu þér sem þú hefur eiginlega ekki efni á? Alltof mikið af taílenskum mat, ég keyri líka svolítið um á bílum hér í Kaupmannahöfn þar sem ég bý, og alls konar dýrt tísku-dúllerí sem ég þarf ekki. En hei! Má maaaððður aaaðððeins… ? 

Hverju hefurðu vanið þig af? Listinn er langur en litlu sigrarnir eru geggjaðir. Ég hef vanið mig á að borða miklu meira grænt, minni dýraafurðir og minnka plast. Ég er ekki að segja að þetta sé komið hjá mér, en ég geri mitt besta. Ég er alla vega að leggja mig fram við „mindful“ líferni, sem er mjög gefandi og ég mæli með. En nýjasti stóri sigurinn er að sofna án þess að hafa kveikt á neinum skjá. Frá því að ég var unglingur hef ég sofnað við sjónvarpið eða iPadinn. Ekki lengur! Nú sofna ég bara í myrkrinu eins og hið mesta krútt.  

Hver er ofmetnasti mannkosturinn? Að vera kúl. Persónulega finnst mér ekkert kúl við það að vera kúl. Mér finnst kúl að vera einlægur. Það verður örugglega kastað eggjum í mig úti á götu fyrir að segja þetta, en mér finnst kúlið vera að gleypa unga fólkið.  

Hvað eða hver er stóra ástin í lífi þínu? Móðir mín, hef alltaf sagt það að hún sé svona „The greatest love of all“ – að sjálfsögðu ásamt öllum hinum fjölskyldumeðlimunum. Vil ekki meina að ég geri upp á milli, en mamma tekur þennan titil. Ég veit hreinlega ekki hver ég væri án hennar.  

Hvað er það verðmætasta sem þú átt? Fjölskyldan og vinir og maðurinn minn og hundurinn minn. Annars er ágætt verðmæti í íbúðinni minni, hún er ferlega fín.  

Hefur þú orðið stjörnustjarfur? Ég hef mætt Kendall Jenner á Elite skrifstofunni okkar í París. Ég var í lyftu með Franca Sozzani heitinni í Shenzhen í Kína og var eitt sinn á setti hjá Versace, þar var engin önnur en Donatella sjálf. Ég var frekar „starstruck“ öll skiptin, ég ætla ekki að ljúga. Ég bíð svo eftir að hitta Veru Illugadóttur, henni á örugglega eftir að finnast ég frekar bleh.  

Lestu greinina í heild sinni í nýjasta Glamour en blaðið er enn í sölu.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.