Húðumhirða fyrir ferðalagið

Það er eins gott að hugsa vel um húðina þegar maður ferðast. Bryndís Alma Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjá húðmeðferðastofunni Húðfegrun, ferðast mikið og deilir með Glamour sinni húðumhirðu fyrir flugferðir. 

„Við vitum flest að það er mikilvægt að hugsa vel um húðina okkar. Það á sérstaklega við þegar veðurskilyrði eru erfið, t.d. þegar það er mjög kalt, þurrt eða heitt. Ferðalög, þá sérstaklega flugferðir, ganga á vatnsbirgðir líkamans og getur það haft neikvæð áhrif á jafnvægi húðarinnar. Fyrir flugferðir er gott að undirbúa húðina fyrir þessar aðstæður með áherslu á góða næringu og aukinn raka“ segir Bryndís. 

Bryndís Alma Gunnarsdóttir

„Best er að forðast að setja þurrkandi farða á húðina svo við þurrkum hana ekki enn frekar upp. Gott er að nota í staðinn rakagefandi dagkrem, dagkrem með lit og/eða meikfarða sem er rakagefandi. Einnig er mjög gott að hafa með sér í flugið rakagefandi úða sem hægt er að spreyja á andlitið. Næg vatnsdrykkja hjálpar gríðarlega mikið til þegar kemur að því að viðhalda vökvastigi og raka í líkamanum og þ.a.l. húðinni. Vatnsdrykkja hjálpar til við að halda húðinni ungri og fallegri. Ég passa sérstaklega vel upp að drekka vel af vatni nokkrum dögum fyrir flug, í fluginu og eftir það“. 

„Neysla hreinnar fæðu er eitt það besta sem við getum gert til að viðhalda heilbrigði húðarinnar og líkamans. Þar hefur neysla grænmetis og ávaxta mikið að segja. Gott er að varast að neyta koffíns og áfengra drykkja fyrir flug og í flugferðum  þar sem drykkir af báðum gerðum eru vökvalosandi og draga þar af leiðandi úr rakamyndun í húðinni“. 

„Mín húðumhirða er þannig að daginn fyrir flug set ég á mig andlitsmaska til að hreinsa dauðar húðfrumur af ysta laginu og í kjölfarið set ég á mig rakamaska. Þegar dauðu húðfrumurnar eru horfnar ofan af efsta lagi húðarinnar smýgur rakinn mun betur inn í húðina í stað þess að festast í ysta laginu. Maskarnir frá Blue Lagoon eru í miklu uppáhaldi hjá mér og nota ég fyrst Silica Mud Mask og síðan Mineral Mask. Þegar ég hef tök á því finnst mér frábært að fara í Kristals- & demants húðslípun nokkrum dögum fyrir flug til að fá ennþá öflugri hreinsun fyrir húðina, rakakrem sem ég ber á húðina smjúga þá ennþá betur niður í undirlag hennar og virkni þeirra verður meiri fyrir vikið. Fyrir flug nota ég andlitsvatn, Neauvia Antioxidant Serum, Neauvia Rich Moisturizing dagkrem og svo Neauvia Rebalancing farða sem gefur húðinni raka“. 

„Margir finna fyrir bjúg og vökvasöfnun eftir flugferðir. Það hefur komið fyrir mig og stundum hef ég hreinlega ekki passað í skóna sem ég hef tekið með mér í ferðalagið. Falinn fjársjóður við þeim vanda er túnfífilsrót en hana er hægt að fá lífrænt ræktaða til inntöku í töfluformi. Þessi töfrarót dregur úr bólgu og bjúg eftir flugferðir og stuðlar að betra jafnvægi fyrir meltingarkerfið. Taka má inn tvær töflur þrisvar sinnum á dag og tek ég einn skammt fyrir hverja einustu flugferð, annan skammt í fluginu og þann þriðja eftir að flugferð er lokið. Eftir að ég uppgötvaði túnfífilsrótina hef ég verið alveg laus við bjúg og bólgur eftir flug og meltingin alltaf í topp standi“.

„Hægt er að hugsa flugferð sem spa treatment fyrir okkur og húðina. Ef við pössum upp á að húðin fái nægan raka fyrir flugið og meðan á því stendur mun húðin okkar vera í góðu rakajafnvægi, sem skilar sér í teygjanleika og fallegum ljóma þegar við erum búin í fluginu í stað þess að vera þurr og skorpin“.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.