Mögnuð mynstur í nýrri línu Richard Allen x H&M

Sænska verslunarkeðjan H&M hefur farið í samstarf við Richard Allen, sem stofnað var árið 1962 og er þekkt fyrir mögnuð mynstur og mikla litadýrð. Línan samanstendur af kvenfatnaði og verður fáanleg í öllum verslunum H&M og fer í sölu um miðjan september.

Glamour/H&M

Hönnunarteymi H&M vann með og uppfærði hin frægu Richard Allan mynstur svo það henti tískustraumum dagsins í dag, en undanfarna mánuði hafa trendin verið tekin frá sjöunda og áttunda áratugnum. Í línunni finnurðu kjóla, blússur, skyrtur, buxur og aukahluti í anda Richrd Allan og glamúrs sjöunda áratugarins í London.

„Það er hreint út sagt dásamlegt að vita að ný kynslóð mun hafa tækifæri til að kynnast og ganga í mynstrum eftir föður minn – hann hefði verið jafn stoltur og ég er núna. Stór hluti af hönnun hans og litríkum mynstrum er enn viðeigandi í dag og það svo skemmtilegt að sjá H&M taka hönnun hans frá sjöunda til níunda áratugarins og aðlaga hana að núverandi tískustraumum,” segir Cate Allan, listrænn stjórnandi hjá Richard Allan London í fréttatilkynningu frá H&M.

Munstrin sem finna má í línunni koma frá stóru samansafni af mynstrum sem Richard Allan hannaði á sínum tíma. Mynstur eins og Muse, sem er abstrakt myndræn framsetning á hinum níu músum úr grískri goðafræði má sjá í ýmsum flíkunum. Einnig má sjá bregða fyrir mynstrinu Scott en það er túlkun hönnuðarins á gömlu köflóttu skosku mynstri sem er forveri hins þekkta keltneska-skoska Tartan mynsturs.

„London á sjöunda áratugnum er auðvitað magnað tímabil í sögunni; mynstrin, hönnunin og stemmningin er engu öðru lík. Það gleður okkur virkilega að fá tækifærið til að vinna með þessi sögulegu og mikilfenglegu mynstur. Flíkurnar úr línunni H&M x Richard Allan eru bæði kvenlegar, eftirtektaverðar og yfirbragði er klassískt og spennandi í senn,“ segir Maria Östblom, yfirhönnuður dömufatnaðar hjá H&M.

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.