Vinnan gerir Amy að betri móður

Grínistinn Amy Schumer segir frá því hvernig var að mæta aftur í vinnuna eftir að hafa eignast frumburðinn.

Amy sem er skemmtilega opinská á instagram reikningi sínum hefur leyft fylgjendum sínum að fylgjast með sinni fyrstu meðgöngu sem reyndi virkilega á vegna mikillar morgunógleði og allt frá því sonurinn, Gene kom í heiminn, birt myndir af honum. Á dögunum birti hún myndir af þeim saman með textanum; „Fimm mánaða í dag og rétt eins og allar mæður þá elska ég hann svo mikið að ég finn til.“ Svo hélt hún áfram; „Ég finn fyrir styrk og vellíðan og eins og ég sé enn manneskja með áhugamál og metnað og markmið sem ég er spennt fyrir að ná.“

Fékk gagnrýni fyrir að mæta of snemma til vinnu

Metnaðurinn tengist m.a. starfi hennar og markmiðin jafnframt en þrátt fyrir það þá fylgdi því augljóslega ákveðinn kvíði að fara aftur til vinnu eftir fæðingarorlof. „Það hefur verið gott að vera komin aftur til vinnu,“ bætir hún við. „Ég var svo áhyggjufull og hrædd við að fara aftur að vinna þegar hann var þriggja mánaða.“ Flestar nýbakaðar mæður kannast við svipaða tilfinningu en Amy var svo sem ekki að mæta til vinnu í fyrsta sinn því hún kom fram á uppistandi þegar sonurinn var aðeins tveggja vikna gamall. Það varð til þess að stjarnan fékk yfir sig töluverða gagnrýni yfir að hafa ekki beðið lengur með að fara að vinna.

Nýtur tímans og samverunnar betur

Hvað sem slíkri gagnrýni líður segist Amy njóta sín enn betur með syninum eftir að hún fór aftur á vinnumarkaðinn. „Nokkra daga hef ég grátið af söknuði til hans. En það hefur þó aðallega verið gott að koma aftur og hlén sem ég fæ fylla mig orku til að vera betri móðir og njóta okkar tíma enn betur.“ Að lokum hvatti hún aðrar mæður til að deila sinni reynslu. „Ég er í mikið auðveldari stöðu en margir en mig langaði að deila minni reynslu.“

Engin ummæli enn

Segðu hvað þér finnst

Netfangið þitt verður ekki birt.